06.06.1932
Sameinað þing: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (3763)

851. mál, verzlunar- og siglingasamningar við Noreg

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefir frá því árið 1924 verið einskonar samningur eða samkomulag milli Noregs og Íslands um ívilnun frá Noregs hálfu á tolli á saltkjöti frá Íslandi. Þessi samningur var gerður, ekki formlega, með uppsagnarfresti af beggja hálfu, heldur sem samkomulag milli norsku og íslenzku ríkisstjórnanna, og er hægt að upphefja það með einhliða ákvörðun hvorrar ríkisstj. um sig.

Þessi samningur, sem hefir verið í gildi síðan 1924, var annarsvegar um ívilnun á tolli á íslenzku saltkjöti í Noregi, hinsvegar um ívilnun á fiskveiðalöggjöfinni, að því er til síldveiða Norðmanna hér við land kemur, eða lofun íslenzku ríkisstj. um mjúklega meðferð þeirra laga gagnvart Norðmönnum. Þessi samningur hefir svo legið svona óbreyttur síðan, þangað til í ár, að honum var sagt upp.

Ég vil nú leyfa mér að fara lítið eitt út í sögu þessa máls á síðastl. ári. Í síðastl. janúarmán. var ég á ferð í Noregi, og áður en ég fór, bað hæstv. fyrrv. forsrh. (TrÞ) mig að grennslast eftir því, hverjar horfur væru á því, að kjöttollssamningnum við Norðmenn yrði sagt upp, eins og getið hefir verið um í blöðum hér.

Þegar ég kom til Noregs, hafði ég ráðið við mig að fara að öllu gætilega, þar sem ég vissi, að Norðmönnum var þetta mjög viðkvæmt mál, og afréð ég því, áður ég sneri mér til viðkomandi ráðuneytis, að snúa mér til kunnugra manna þessu máli og fá þar vitneskju um, hversu horfði um það. Ég sneri mér svo privat til tveggja háttstandandi manna, sem ég þekki, úr bændaflokknum norska, sem nú er stjórnarflokkur, og spurðist fyrir um það hjá þeim, hvernig þetta mál stæði. Þeir sögðu mér, að uppsögn hefði eiginlega alltaf verið yfirvofandi öll undanfarin ár. Aðalástæðan til þess er sú, sem kunnugt er, að meginmótspyrnan í Noregi gegn kjöttollssamningnum hefir komið frá bændum. Og aðalástæðan til þess er aftur sú, að bændaflokkurinn norski rekur harðvítuga og sterka bændapólitík í Noregi, og einn liðurinn í þeirri pólitík er háir tollar á innfluttar landbúnaðarafurðir, sem koma að nokkru leyti fram sem verndartollar. Á þann hátt hefir norski bændaflokkurinn beinlínis reynt að tryggja norskum bændum allan þann markað, sem fáanlegur er þar í landi fyrir framleiðsluvörur bænda. Og eins og kunnugt er, hefir þeim á þennan hátt tekizt að búa betur í haginn fyrir norska bændastétt en samskonar flokkum í öðrum ríkjum.

Nú er það vitanlega einn liðurinn í þessari bændapólitík að tryggja norskum bændum allan kjötmarkað þar í landi. En eins og kunnugt er, eru sæmileg skilyrði til sauðfjárræktar og þá um leið kjötframleiðslu í Noregi. Og norskir bændur stefna að því að fullnægja sjálfir norska kjötmarkaðinum. Þetta er ein aðalástæðan fyrir því, að það kæmi þeim vel að útiloka íslenzkt kindakjöt frá norska markaðinum.

Í fyrrahaust var skipt um stjórn í Noregi og bændaflokkurinn myndaði stjórn, og situr hún enn í dag. Það var nú vitanlegt, að þegar sá flokkur var kominn til valda, sem mest hafði verið á móti þessum samningi, þá yrði krafan um uppsögn á honum harðari en nokkru sinni áður. En það var einnig ýmislegt fleira, sem styrkti þessa kröfu, t. d. hagsmunir síldveiðimannanna norsku, sem frá upphafi hafa lagt áherzlu á, að kjöttollssamningnum yrði sagt upp, ekki vegna þess, að þeir vildu sérstaklega losna við þessa tollaívilnun í sjálfu sér, heldur af því, að þeir vildu nota uppsögn kjöttollssamningsins til þess að knýja fram til hagsmuna fyrir sig betri og bættari samninga við Íslendinga um síldveiðar Norðmanna hér við land.

Þriðja ástæðan, sem komið hefir fram í þessu máli og ég hefi fengið vitneskju um, kemur að vísu ekki þessu máli beinlínis við, þar sem hún stafar frá öðru máli þessu alveg óskyldu, en hefir þó hér verið notuð á móti okkur. Ég mun þó ekki telja rétt að draga þá ástæðu inn í opinberar umr. um þetta mál, en hefi greint íslenzku ríkisstj. frá henni, svo og utanríkismálanefndinni.

Eftir þær umr., sem ég átti við þá menn í Noregi, sem ég gat um áðan, var mér það vel ljóst, að málið er þar mjög viðkvæmt mál, og fór ég því að ráðum þessara manna, en þeir héldu því fram, að það, sem helzt gæti fleytt málinu áfram óbreyttu, væri það, að sem minnst væri talað um það. Ef farið væri að hreyfa málinu í viðkomandi ráðuneyti, gæti það auðveldlega orðið til þess, að alvara yrði úr því að segja samningnum upp. Og það, að samningnum hefði verið haldið svona lengi óbreyttum, væri ekki annað en velvilji Norðmanna í garð Íslendinga — og við verðum nú að viðurkenna hann að ýmsu leyti, þó stundum hafi fallið hörð orð á milli okkar frændanna. Aftur á móti gáfu þessir menn mér vonir um, að í þetta skipti myndi samningnum ekki verða sagt upp, ef málið væri látið liggja í þagnargildi. En það kom brátt í ljós, að þeir voru ekki nægilega kunnir málavöxtum, því að 11. febr. í vetur kom bréf til íslenzku ríkisstj. frá norska aðalræðismanninum hér, þar sem hann segir samningnum upp fyrir hönd norsku ríkisstj. og samkv. umboði frá henni með þriggja mánaða fyrirvara. Aðalástæðurnar fyrir uppsögninni eru taldar þær, að ívilnanirnar á fiskveiðalöggjöfinni af Íslands hálfu, samkv. samkomulaginu frá 1924, eru taldir lítils virði fyrir Norðmenn, og í öðru lagi hinar nýju innflutningshömlur eða innflutningstakmarkanir, sem settar hafa verið af íslenzku ríkisstj. En þessa síðari ástæðu get ég nú ekki skoðað nema sem yfirskinsástæðu, því að Norðmenn eru sjálfir búnir að setja allskonar valutaráðstafanir, sem eru fyllilega sambærilegar við innflutningshöftin hjá okkur.

Sama dag og bréfið kom frá norska ræðismanninum símaði stjórnin til sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, tjáði honum uppsögn kjöttollssamningsins og greindi honum þær ástæður, sem færðar væru fyrir henni, og bað hann að grennslast eftir horfum í málinu og fylgjast vel með því. Nokkrum dögum síðar sendi stjórnin sendiherrann til Oslo, til viðtals við norsku stjórnina. En þá stóð svo á, að jafnvel mátti búast við stjórnarskiptum í Noregi, því forsætisráðh. Norðmanna var þá alvarlega veikur, og um stund virtist svo, sem bændastjórnin færi frá völdum og ný stjórn yrði mynduð, en það varð þó eigi. En þetta notaði norska stj. til að slá á frest samningnum um kjöttollinn. Sendiherra sneri heim við svo búið, en fékk áður yfirlýsingu utanríkismálaráðh. norska um, að hann skyldi gera sendiherra aðvart, þegar hann væri við því búinn að taka málið upp. En þetta dróst, að nokkuð fréttist frá norsku stj., og þess vegna hefir íslenzka stj. hvað eftir annað gert fyrirspurnir um það til sendiherra, hvert útlit væri fyrir það, að samningaumleitanir gætu hafizt, og það hafa farið fram stöðug skeytaskipti milli Sveins Björnssonar og norsku stj. um þetta, að allega fyrir milligöngu danska sendiherrans í Oslo, en árangurslaust. Loks fór að líða að því, að kjöttollssamningurinn gengi úr gildi, því samkv. uppsagnarbréfinu mátti álíta, að samningstíminn væri útrunninn um miðjan maí, þar sem uppsagnarfrestur var 3 mánuðir. En loforð fékkst þó frá norsku stj. um það, að samningurinn gengi ekki úr gildi fyrr en 30. júní í sumar, eða um leið og fjárhagsár Norðmanna væri úti. Fyrirspurnum um málið og skeytaskiptum milli íslenzka sendiherrans og norsku stj. var þó sífellt haldið áfram, og naut íslenzka stj. jafnframt aðstoðar danska sendiherrans í Oslo, en ekkert svar fékkst frá norsku stj. fyrr en nú um miðjan maí, að afstaða norsku stj. til málsins fer að verða skýr, sem sé sú, að tilgangur hennar er að aftra því, að nokkrir samningar verði gerðir um málið fyrr en núgildandi samningur er úr gildi. Og samkv. ný komnu skeyti frá Sveini Björnssyni, dags 2. júní, má sjá, að Norðmenn óska ekki að taka upp samninga um málið, nema fram komi tilboð frá Íslands hálfu um sérstakar ívilnanir á móti, og virðast Norðmenn verða að geta gert sér vonir um miklar ívilnanir af hálfu Íslendinga, ef þeir eigi að halda áfram að veita þeim ívilnanir á tolli á íslenzku saltkjöti.

Nú er það vitanlegt, að hér er um mikið vanda- og alvörumál fyrir Íslendinga að ræða, og þá sérstaklega fyrir íslenzka bændur. Ég skal geta þess, að ég hefi fengið upplýsingar um það frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem mun vera þessu máli kunnugast, hvernig það horfi við, þegar samningurinn fellur úr gildi núna 1. júlí, ef hann verður ekki framlengdur.

Nú er tollurinn á íslenzku saltkjöti í Noregi 23 aur. á hvert kg., en með hinum nýja 20% gengisviðauka er hann orðinn 27 aur. á kg. Þegar samningurinn fellur úr gildi 1. júlí verður tollurinn 55 aur. á hvert kg. Nú er það vitanlegt, að þótt mikil áherzla hafi verið lögð á það undanfarið að koma upp frystihúsum og búa þannig í haginn fyrir íslenzka kjötframleiðendur, að þeir geti komið sem mestu af kjöti á enskan markað, þá vantar talsvert á, að það geti nægt. Í haust voru saltaðar til útflutnings 20 þús. tunnur af saltkjöti. Nokkuð af þessu var tekið til sölu í landinu sjálfu, um 2 þús. tunnur seldust til Danmerkur og Svíþjóðar. Þó að mikil áherzla hafi verið lögð á það að frysta kjöt, eins og ég gat um áðan, þá er samt ekki hægt að selja á þann hátt meira en 2/5 af kjötmagni því, sem fyrirhugað er að flytja út. Þó að bætist við ný frystihús á næsta sumri, þá má gera ráð fyrir, að markaðurinn útheimti, að hægt sé að selja 10–12 þús. tunnur í Noregi á næsta hausti. Það er lágmarkið. Menn sjá því, að hér er ekki um lítið fé að ræða fyrir íslenzka kjötframleiðendur. Það er því ekki sjáanlegt annað en fjárhagslegt hrun fyrir þá, sem byggja afkomu sína á saltkjötsframleiðslu. Það er því eitt hið mesta nauðsynjamál, að stj. taki þetta mál til rækilegrar íhugunar og geri það sem mögulegast að fá kjöttollssamninginn framlengdan eitthvað, fyrst og fremst fyrir yfirstandandi ár og síðan eins lengi og hægt er. Nú hafa Norðmenn gefið í skyn, að það eina, sem um er að ræða til þess að fá framlengdan kjöttollssamninginn, sé það, að þeir fái einhverja ívilnun á móti. Ég býst við, að Íslendingar verði tregir til þess að gefa miklar ívilnanir frá því, sem gert hefir verið áður, eins og getið hefir verið um í blöðum og á þingi, þegar þetta mál hefir verið til umræðu.

Ennþá er eitt atriði, sem vert er að athuga, og það er, hvernig milliríkjasamningarnir eru milli Íslands og Noregs. Þá er fyrst að telja hina almennu verzlunarsamninga frá 1826, þó með skírskotun til yfirlýsingar frá 13. júní 1856. Aðalatriði þessara samninga eru jafnréttisákvæði um verzlun og siglingar, og sömuleiðis má nefna samninga frá 16. apríl 1858, um gagnkvæma heimild til strandsiglinga í Noregi og á Íslandi. Samkv. samningum þessum eru að vísu réttindi beggja aðilja hin sömu til verzlunar og siglinga hvor gagnvart öðrum. En sökum hinnar geysilega ólíku aðstöðu þjóðanna til þess að nota sér þessi réttindi verður það ljóst, að hinir raunverulegu hagsmunir eru nær allir á Noregs hlið. Norðmenn hafa hér fastar áætlunarferðir á milli landa og með ströndum fram, og hafa á þann hátt náð undir sig megninu af vöruflutningum á milli landanna. Auk þessa hafa þeir notið viðskipta Íslands um mestan eða nær allan hluta þeirra fragtskipa, sem tekin hafa verið á leigu til að annast hina meiri háttar flutninga, sem farið hafa framhjá áætlunarskipunum, t. d. fiskflutninga, salt¬ og kola- og byggingarefnisflutninga o. fl. Auk þess ber þess að gæta, að viðskiptin milli Norðmanna og Íslendinga eru þannig, að Norðmenn flytja oft miklu meira hingað en við til þeirra. Árið 1929 fluttu Norðmenn hingað vörur fyrir um 9 millj. kr., en við ekki nema fyrir rúmar 5 millj. kr. til þeirra. Auk þessa eru hinar „ósýnilegu“ tekjur Norðmanna af siglingum hér við land, sem ég gat um fyrr — og vafalaust hafa skipt milljónum króna árlega undanfarin ár.

Utanríkismálan. hélt fund um þetta mál í gær og tók þetta atriði til rækilegrar íhugunar. Niðurstaðan n. varð sú, að bera fram þáltill. um þetta mál, sem er hér á þskj. 851. Okkur þykir sjálfsagt, ef Norðmenn gera alvöru úr því að synja um framlengingu á þessum eina samningi, sem mér er kunnugt um milli Norðmanna og Íslendinga, sem er okkur verulega í vil, að taka þá rækilega til athugunar, hvort ekki beri að segja upp samningum milli ríkjanna, sem eru Norðmönnum miklu meira í vil heldur en okkur Íslendingum. Býst ég við, að Norðmönnum yrði fljótlega ljóst, ef þeim er það ekki ljóst nú þegar, að þegar milliríkjasamningar þjóðanna væru teknir upp á ný og þeir þyrftu að fara að sækja á fyrir sína hagsmuni eins og við fyrir okkar, hafa þeir miklu meiri hagsmuna að gæta fyrir sig en við fyrir okkur, enda þótt kjöttollsívilnun sé okkur mikils virði.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil skora á hv. þm. að greiða þessari till. atkv., og sömuleiðis á stj. að taka þetta mál til mjög rækilegrar íhugunar.