31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3778)

251. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Jón Baldvinsson:

Þessi till. hefir áður verið til umr. í Sþ., og gerði ég þar grein fyrir afstöðu Alþýðuflokksins til hennar, og hefir sú afstaða ekki breytzt síðan. Við Alþýðuflokksmenn munum greiða till. atkv., þó að okkur hinsvegar sé ljóst, að starf slíkrar n. kemur ekki að fullum notum meðan þing situr, auk þess sem okkur þykir verkefni n. of takmarkað. Gerði ég grein fyrir því í umr. í Sþ., að við hefðum kosið, að n. tæki einnig til athugunar rekstur einkafyrirtækja auk ríkisfyrirtækjanna, og get hér bætt við þriðja verkefninu, sem slíkri n. ætti að fela. Það er þannig full þörf á því, að þingið taki til athugunar að koma réttri niðurröðun á framkvæmdir ríkisins, því að það er meira og minna undir tilviljun komið, hverjar framkvæmdir ríkið lætur gera, og enda háð geðþótta þeirrar stj., sem situr í það og það sinnið, fremur en að um þetta fari eftir því, sem landsmönnum kæmi að beztum notum. En ég skal ekki fara frekar út í þetta að svo stöddu; og skal þá snúa mér að sjálfri nefndarskipuninni. Eins og ég áður sagði, mun ég greiða atkv. með því, að slík n. verði nú skipuð, enda þótt ég geri mér ekki glæstar vonir um mikinn árangur af starfi hennar. Það er nú þegar liðið svo á þingtímann, að ekki er að vænta, að þing standi enn lengi úr þessu, auk þess sem alltaf geta orðið einhverjar óvæntar truflanir á störfum þingsins, sem enginn veit fyrir. Hér kemur og það til, að þm. eru bundnir af þingstörfunum að öðru leyti, verða að sitja deildarfundi auk hinna margvíslegu starfa, sem á þeim hvíla í fastanefndum þingsins. Einkum eru nefndarstörfin umfangsmikil hér í Ed. síðari hl. þings, og er af þessum ástæðum ekki að vænta mikilla afkasta af slíkri n., sem skipuð yrði þm. úr þessari deild. A. m. k. hefi ég ekki mikla trú á því. Slíkri n. hefði orðið lítill tími til starfa, þó að skipuð hefði verið á dögunum, er málið var til umr. í Sþ., en nú er þó enn minni tími til stefnu, og þó að n. reyni að krafsa í eitt og annað, til þess að sýnast, segir sig sjálft, að hún getur ekki gert nokkur veruleg skil þeim verkefnum, sem henni eru falin með till. og þurfa mikillar rannsóknar við. Geri ég ráð fyrir; að flm. hafi hugsað sér, að n. fái skýrslur frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins, og get ég ímyndað mér, að vafasamt sé, að slíkar skýrslur geti verið komnar fram fyrr en undir þinglok, af því að ekki verður tími til að hafa þær tilbúnar fyrr, og er af þessum ástæðum ekki að vænta mikils árangurs af störfum n. fyrir þinglausnir, auk þeirra, sem ég áður hefi drepið á. Í samræmi við þessa skoðun mína á starfsmöguleikum n. get ég svarað þeirri fyrirspurn hæstv. fjmrh. játandi, að ég tel rétt, að n. verði látin starfa áfram milli þinga, ef hún verður skipuð nú, og munum við Alþýðuflokksmenn samþ. slíka till., ef fram kemur í þinglokin. — Að því er snertir hina aðra fyrirspurn hæstv. fjmrh., þá get ég að vísu ekki svarað henni til fulls, því að þótt Alþýðufl. komi aðeins með eitt nafn á lista sínum, er ekki þar með sagt, að flokkurinn komi einum manni í n. Skildist mér á hæstv. ráðh., að Framsóknarfl. mundi aðeins nefna til einn mann í n., og eins mun ég gera fyrir hönd Alþýðufl., og sýna með því, að flokkurinn ekki aðeins fellst á þessa nefndarskipun, heldur er og einnig reiðubúinn til að taka þátt í störfum n.