30.05.1932
Efri deild: 87. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (3848)

15. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefir þegar verið rætt svo mikið, bæði hér og í Nd., að ekki þarf miklu þar við að bæta, en út af brtt., sem hv. 3. landsk. nú hefir borið fram við frv., verð ég þó að segja nokkur orð.

Frá sjónarmiði þeirra manna, sem mest hafa unnið að þessu máli undan farið, er aðallega tvennt út á þessa brtt. að setja. Er hið fyrra það, að með því að samþ. brtt. er málið sett í Sþ., og þar sem nú er komið að þinglausnum, er þar með mjög hætt við því, að málið dagi uppi á þessu þingi. Hið annað er það, að eins og reglum er háttað um samþykkt ágreiningsmála milli d. í Sþ., er vitanlegt, að það verður drepið, ef málið á annað borið kemur til kasta Sþ., því að þótt málið að vísu hafi fylgi meiri hl. þings, er Íhaldsflokkurinn svo mannmargur samt, að hann getur ráðið niðurlögum frv., og er öllum vitanlegt, að það er flokksmál í þeim herbúðum að koma þessu máli með einhverju móti fyrir kattarnef.

Að því er innihald þessarar till. snertir.

þá er það að segja, að það er sumpart þess eðlis, að það er óeðlilegt, en sumpart ekki rétt hugsað. Hefir áður verið drepið á það í umr. um þetta mál, að sú nýskipun var gerð á embættaveitingum hér á landi 1924, að þær skyldu teknar til meðferðar á raðherrafundi, áður en veiting færi fram, en sá ráðh., sem með veitingarvaldið fer í hverju tilfelli hefir þó síðasta orðið um þetta, enda ber hann ábyrgðina á veitingunni. Að Jón heit. Magnússon, sem stóð að því, að þessi nýskipun var gerð, nefndi ekki til dómaraembættin við hæstarétt í þessu sambandi, mun hafa komið til af því, að hann leit svo á, að dómaraprófið veitti hæstarétti í raun og veru úrslitavald um veitinguna, þar væri um nokkurskonar sjálfsveitingu að ræða. Ef þetta frv. hefði verið samþ. óbreytt eins og það var lagt fyrir þingið, hefði því verið réttast að setja reglugerð um það, að veitingar dómaraembættanna í fimmtardómi skyldu teknar til meðferðar á ráðherrafundi, en þar sem ákvæði um þetta hafa nú verið sett inn í frv., eins og það kemur nú frá Nd., er jafntraustlega gengið frá þessu og venja er bæði hér og í nágrannalöndum okkar að ganga frá slíkum hlutum.

Þá er það hitt atriðið, sem lýtur að því, að þessi brtt. er ekki rétt hugsuð. Samkv. lögum ber ráðh. ábyrgð á öllum stjórnarathöfnum sínum, og eins því, sem hann kann að láta ógert, og er það jafnvel ekki síður hættulegt fyrir ráðh. að drýgja vanrækslusyndir en að gera of mikið, en þótt ráðh. sé kallaður til ábyrgðar á því, sem hann gerir eða kann að láta ógert, er ekki þar með sagt, að rétt sé að kalla hann til ábyrgðar fyrir það, sem samstarfsmenn hans eiga sök á, eins og gert yrði, ef þessi till. yrði samþ., því að vel má svo fara, að veitingar dómaraembættanna fari svo, að sá ráðh., sem veitinguna á að framkvæma, verði borinn ráðum af meðráðherrum sínum.

Ég býst svo ekki við, að ég þurfi að tala meira um málið að þessu sinni. þetta eru rokin fyrir því, að ég og aðrir, sem unnið hafa að því, að aðaldómstóll okkar verði að formi og vinnubrögðum sambærilegur við góða dómstóla hjá okkar frændþjóðum, vilja, að þessi brtt. sé ekki samþ. Hún er til verulegs spillis í sjálfu sér, auk þess sem hún útilokar það, að frv. nái fram að ganga. Það væri því miklu hreinlegra fyrir hv. þm. að taka brtt. til baka og greiða atkv. á móti frv. heldur en að fara þessar krókaleiðir til að fella það.