01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í C-deild Alþingistíðinda. (3918)

16. mál, loftskeytanotkun íslenskra veiðiskipa

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að stytta þyrfti umr., þar sem komið væri miðnætti. Vil ég minna hann á, að það er hverjum heimilt að fara, sem vill, og að það er ekki okkar sök, minni hl. n., að mönnum er haldið hér, ég veit ekki hvað lengi, yfir jafnómerkilegu máli. Hann getur þakkað það þeim mönnum, sem hann hefir gerzt skósveinn fyrir á gamals aldri, auðsveipur skósveinn, því að hann hefir gerzt skósveinn Hæstv. dómsmrh., og er það illa farið með svo mætan mann. (SvÓ: Vill hv. þm. ekki endurtaka það í 4. sinn?). Hann sagðist ekki nenna að elta ólar við það, sem hann kallaði útúrsnúninga mína á frv. Ég rakti frv. lið fyrir lið og sýndi fram á það með rökum, ekki einungis mínum eigin, heldur líka fagmanna, hversu fráleitt það er. Er það hyggilegt hjá hv. frsm. meiri hl. að spara sér að elta ólar við allt það, sem ég sagði, því að honum er um megn að hrekja það. Það er þægileg aðferð, að snúa sig út úr vandanum með þessu. Get ég fyrirgefið honum þetta, því að hann er þreyttur og slitinn, en þó ekki svo, að hann viti ekki vel, hvenær hann fylgir réttu máli og hvenær röngu. (ÓTh: Það hefir hann aldrei vitað). Jú, hv. þm. veit, að þetta er ómerkilegt mál.

Hv. þm. sagði, að ég ætlaði sjómannastéttinni ódrengskap. Sjálfur læzt hann trúa því, að allir muni halda drengskaparloforð það, sem frv. fer fram a. En þá mætti líka láta gefa drengskaparvottorðið í eitt skipti fyrir öll. Annars hefi ég aldrei haldið því fram, þótt einhverjir togarar eða útgerðarmenn hafi gerzt brotlegir, að það ætti við um alla sjómannastéttina. Mun það frekar vera Tímaklíkan, sem ætlar sjómönnum ódrengskap. Hefir það fallið í minn hlut hér á þingi að verja þessa menn fyrir hv. 1. þm. S.-M. og aumum flokksbræðrum hans. (SvO: Ég skil ekki hv. þm.). Ég skal þá skýra það nánar, við hvað ég á. Frv. þetta er byggt á því, að sjómenn á togurum geri sér það að reglu að misnota loftskeytatækin. Hefir það alltaf klingt við á öllum þingum hin síðari árin, að þessir menn séu þjófar og ræningjar, en við, sem höfum bent á, að hér ættu ekki allir sömu málagrein, værum yfirhylmingarmenn. Ég held, að það sé hæstv. dómsmrh. og þeir, sem stutt hafa hann, sem ætla sjómönnum ódrengskap, en ekki við. Okkar mál hafa loftskeytamennirnir stutt, og eru þeir málinu allra manna kunnugastir. Fél. ísl. loftskeytamanna hefir sagt, að ólögleg notkun loftskeytatækja sé tiltölulega lítil. Hv. þm. veit þetta vel, því að hann átti jafnlangt tal og ég við formann félagsins og sá öll hin sömu skjól. En á þessar raddir vildi hann ekki hlusta, þó að eyru hans séu ávallt opin fyrir hvísli hæstv. dómsmrh. En þegar sjómenn sjálfir koma á fund og sanna hv. frsm. meiri hl., að hér sé tekið skakkt á hlutunum og loftskeytin séu notuð mest til annars en landhelgibrota, þá gefur hann því engan gaum. Hann er ekki ráðinn upp á það, heldur hitt, að leggja kollhúfurnar við hvíslinu frá hæstv. dómsmrh.

Þegar hæstv. dómsmrh. kom hér inn í salinn síðast þegar þetta mál var til umr., var hann reiður mjög og hélt skammarræðu yfir mér, í 10. eða 12. skiptið, fyrir það, að ég benti á vitleysurnar í frv. og tilgangsleysi þess nema til að halda uppi rógi um menn. Kippi ég mér ekki upp við það að sjá hann reiðan, því að það sá ég svo oft áður, þótt það sé nú orðið fátítt, því að hann kemur sjaldan hér inn, nefna þegar hægt er að losna við andstæðingana og eiga síðastur orðið, og gusar þá út úr sér einhverri vitleysu.

Hæstv. ráðh. talaði um það, hve mjög landhelgigæzlan hefði batnað á síðari árum og að miklu færri skip hefðu verið tekin en áður. Á það víst að vera núv. stj. að þakka. Datt þó út úr honum, víst óvart, að vitanlega hafi þessum skipum fækkað af því að varðskipum hafi fjölgað. Er þetta ágæt upplýsing. Vil ég benda hæstv. ráðh. á það, fyrst hann viðurkennir, að teknum skipum hafi fækkað, af því að varðskipum hafi fjölgað, að núv. stj. á ekki aðalháttinn í þessari fjölgun. Það var fyrrv. stj., sem tók ákvörðun um það á þingi 1925 að hefja íslenzka landhelgigæzlu. Voru þá þegar samþ. lög um það að láta landhelgisjóð taka til starfa. Hann var stofnaður 1913, sem kunnugt er. Þegar ákveðið var 1925, að hann tæki til starfa, var hann orðinn yfir 1 millj. kr. Þá var Óðinn smíðaður. Áður hafði Þór verið keyptur. Bygging Ægis er ekki til komin fyrir það, að núv. stj. ætti frumkvæðið að því, heldur flutti þm. Snæf. 1928 frv. um aukna landhelgigæzlu, sem leiddi til þess, að hann var byggður. Fer því fjarri, að hæstv. dómsmrh, eða flokkur hans hafi aukið landhelgigæzlu og fækkað togaratökum, heldur eru það andstæðingar hans í stjórnmálum, sem það hafa gert. Við hina auknu landhelgigæzlu hefir það líka áunnizt, að útlendingar sjálfir eru farnir að taka harðar á því en áður, ef skip þeirra eru tekin í landhelgi, og refsa sínum mönnum heima fyrir. Mun það eiga drjúgan þátt í því, að útlendir togarar forðast nú landhelgina meira en áður.

Þá sagði hæstv. ráðh., að núv. stj. stæði öðruvísi að vígi gagnvart útgerðarmönnunum heldur en fyrrv. stj. Og hann hélt því beinlínis fram, að t. d. Ég andmælti þessu „ömmufrv.“ vegna þess, að það væru flokksmenn mínir, sem ættu togarana, og að skipstjórarnir á þeim væru flestir einnig í Sjálfstæðisflokknum. Ég ætla nú ekki að eyða orðum á því, hvað rétt sé eða rangt í slíkri ásökun. Þingsaga mín og minna flokksbræðra síðan íslendingar tóku landhelgigæzluna í sínar hendur sýnir bezt, hvað við höfum viljað í þessu efni. Við höfum alltaf staðið fast með því, að landhelgigæzlunni væri haldið vel í horfinu. Það eina, sem hæstv. ráðh. getur hengt hatt sinn á, er það, að við viljum ekki samþ. „þjóðráð“, sem hv. 1. þm. S.-M. kemst nær því á loft yfir, þegar hann fer að tala um, af því að það, eins og ég hefi áður sýnt fram á, getur ekki að neinu gagni komið, þó að út úr öllu þessu hlusti og skeytaskráningum gæti orðið talsverður eltingarleikur og njósnarsnatt.

Eftir frv. á loftskeytastöðin hér stöðugt að hlusta á og bókfæra togarskeytin. Það er sýnilegt, eins og félag loftskeytamanna hefir sýnt fram á, að ef ekki væri bætt við mönnum til þess, þá yrði stöðin að vanrækja að hlusta á 600 metra bylgjulengd, og gæti það komið sér allilla, a. m. k. þegar send eru S. O. S.-skeyti, en svo eru neyðarmerki nefnd, sem send eru frá skipum með loftskeytum. Þá gætu loftskeytamennirnir, þegar mest á ríður, verið uppteknir við að hlusta á togara, sem eru að bera sig saman um afla og veður, og sjá allir, hvaða afleiðingar það gæti haft.

Ég get ekki komizt hjá að benda á „moralinn“ í kenningu hæstv. dómsmrh., þegar hann er að hamra á því hér á Alþingi, að andstaðan gegn þessu frv. hljóti að spretta af illum og eigingjörnum hvötum, af því að andmælendur þess séu flokksmenn togaraeigendanna og skipstjóranna. Það hefir verið hans sterka vígi, sem hann hefir skotið úr skeytum sínum, að við vildum hylma yfir lögbrot togaraeigendanna, af því þeir væru flokksbræður okkar. Þessi maður á að gæta laga og réttar í landinu, sem lætur sér ummunn fara og virðist halda fast við slíka kenningu. Það mun óhætt að gera ráð fyrir, að hér sem oftar sannist gamla máltækið: Margur ætlar mann af sér. Og maður getur þá betur skilið ýmislegt af því, sem hæstv. dómsmrh. heldur fram, og ýmislegt af því, sem hann framkvæmir, ef gert er ráð fyrir, að það Sé runnið af þeim sömu hvötum sem hann vill telja mönnum trú um, að valdi andmælum okkar hv. þm. G.-K gegn „ömmufrv.“ Enda dylst landsmönnum það ekki lengur, að hann lifir eftir þeirri reglu að sjá í gegnum fingur við afbrot og jafnvel glæpi hjá sínum flokksmönnum, en heita harðýðgi við þá, sem andstæðir honum eru í stjórnmálum, þótt litlar eða engar sakir séu. Það hefir nú skeð sitt af hverju í sambandi við landhelgigæzluna, þótt ekki séu árin mörg. Þegar fyrrv. stj. og hennar flokkur setti landhelgigæzluna af stað, var vandað til löggjafarinnar um hana eftir fremsta megni, settar reglur um skipun skipshafnanna og launakjör þeirra. Það var leitazt við að láta gæzluskipin standa undir sem beinustu eftirliti og íhlutun dómsrn. án milliliða, og ég held, að árið 1924 hafi verið gefinn út konungsúrskurður um það, að landhelgisgæzlan og helgigæzlan og landhelgigæzluskipin skyldu standa beint undir dómsmrn. En þessi hæstv. ráðh., sem alltaf er að hamra á því, að ég og aðrir, sem ekki viljum gleypa þá flugu, að landhelgigæzlunni sé borgið, ef „amma“ er samþ., hann var ekki fyrr kominn til valda en hann fótum tróð lögin um landhelgigæzluna. Ég segi fótum tróð lögin, því að það var eitt hans fyrsta verk sem ráðh. að þverbrjóta varðskipalögin. Hann braut þau ekki einungis með því að haga framkvæmd þeirra allt öðruvísi en löggjafinn ætlaðist til og lögin fyrirskipuðu beinlínis, heldur braut hann einnig lög á mönnunum, sem á varðskipunum störfuðu. Hann skar laun þeirra niður eftir eigin geðþótta, svo að þingið varð að skerast í leikinn og bæta þótt ekki væri nema að litlu leyti úr því ranglæti, sent búið var að fremja, sérstaklega á skipstjórunum, sem þá voru á varðskipunum. Þá var ekki eftirlætisgoð hæstv. dómsmrh., sem ég mun síðar minnast á vegna sérstakra ummæla ráðh. í minn garð, komið til skjalanna.

Þegar þess er gætt, að hæstv. dómsmrh. hefir sjálfur kannazt við, að fækkun togarabrota og fækkun þeirra skipa, sem tekin eru í landhelgi, sé bein afleiðing af því, að varðskipunum hefir fjölgað, og þegar þess er einnig gætt, að þeim hefir verið fjölgað fyrir tilstilli annara en hans og hans flokks, að varðskipalöggjöfin var sett áður en hann kom til skjalanna og að hann byrjaði með því að fótum troða hana, þá get ég ekki séð, að hæstv. dómsmrh., geti haldið fram, að hann hafi gert landhelgigæzlunni gagn með aðförum sínum.

Fyrsta spor Hæstv. dómsmrh. til að eyðileggja hina íslenzku landhelgigæzlu var þetta brot hans á varðskipalögunum. En hann lét ekki þar við sitja; það var aðeins upphafið, og áframhaldið hefir allt verið eftir því.

Um það leyti sem núv. stj. tók við völdum og umræddur ráðh. fékk öll ráð yfir varðskipunum, voru þau tvo, gamli Þór og Óðinn. Byrjunin á landhelgigæzlunni hafði gengið vel. A. m. k. fullyrði ég og býð hverjum að afsanna það, sem getur, að stj. ráðuneytisins á landhelgigæzlunni, yfirstjórn skipanna og eins sambúðin við foringjana á þeim útlendu eftirlitsskipum, sem hér hafa verið, var í prýðilegasta lagi. Það var heldur ekki vitað, að neitt ósamkomulag væri innbyrðis á skipunum. Engar raddir heyrðust um klögumal eða óánægju milli yfirmanna og undirmanna á þeim. Það hefði því átt að vera hæstv. dómsmrh. létt verk að halda landhelgigæzlunni í því góða lagi, sem hún var komin í, halda áfram á þeirri braut, sem búið var að ryðja. A. m. k. gat maður vænzt þess af manni, sem áður hafði lýst yfir, að hann vildi „hefja þessa sjólögreglu okkar upp í æðra veldi“, að honum veittist það ekki örðugt, þegar honum var lagður slíkur efniviður í hendur og veitt sú aðstaða og það vald, sem hann hefir.

En reyndin hefir orðið nokkuð önnur. Það bar ekki mikið á því áður en núv. dómsmrh. kom til valda, að varðskipin væru notuð til annars en landhelgigæzlunnar. Ég hefi heyrt getið um eitt einasta tilfelli, þar sem annað varðskipanna hafði farið með embættismann á milli hafna. Þá var ekki komið það lag á, sem þessi ráðh. hefir innleitt, að ráðh. notaði varðskipin eins og lystisnekkjur, fyrir sig sjálfan og kunningja sína og yfir höfuð notaði þau jöfnum höndum til landhelgigæzlunnar og ýmissa óþarfra snattferða. Afleiðingin ef einni slíkri sendiför var það, þegar gamli Þór eyðilagðist. Það var af því, að hæstv. ráðh. mátti til að senda hann með tvo kunningja sína norður fyrir land um háveturinn. Og ég skal aðeins geta þess í sambandi við ádrepu, sem hæstv. ráðh. beindi til mín og Vestmannaeyinga um fjárhagsvandræði o. s. frv., að hann efndi ekki til þess þá, þegar gamli Þór strandaði, að létta fjárhagsvandræði Vestmannaeyja; þvert á móti ætlaði hann að láta Þórsstrandið bitna á þeim. Hann ætlaði að svipta Vestmannaeyinga því starfi, sem Þór hafði haft með höndum, og láta strand hans ónýta öll loforð og samninga þings og stj. um björgunarstarfsemi þar. Þingið varð þá að skerast í leikinn, alveg eins og þegar ráðizt var á skipstjóra varðskipanna og kaup þeirra lækkað um helming frá því, sem lög ákváðu, og koma í veg fyrir, að þetta ranglætisverk væri framið.

Hæstv. dómsmrh. sagði um mig í þessari ræðu sinni, að ég hefði reynt að hindra, að landhelgin væri varin. Þetta eru hin mestu ósannindi; því að ég hefi alltaf reynt að vinna að því eftir megni, bæði innan þings og utan, að landhelgin væri vel varin. Hvort skyldi sá maður starfa að því, að landhelgin sé varin, sem barizt hefir fyrir því af fremsta megni að koma af stað íslenzkri landhelgigæzlu, eins og ég hefi gert, þótt ég hafi ekki haft eins góða aðstöðu til að vinna þessu máli gagn eins og hæstv. dómsmrh.? Hvort skyldi sá maður vinna að bættri landhelgisgæzlu, sem á þingi, og eftir því, sem hann hefir fengið áorkað utan þings, hefir stutt að því, að varðskipin uppfylli hlutverk sitt, m. a. með því að benda á það hér á þingi, þegar einmitt þessi ráðh. misnotar þau? Hvor skyldi þá meira hafa gert að sínu leyti til þess að verða þess valdandi, að landhelgin sé varin, ég eða hann, sem ráðið hefir yfir varðskipunum nú í nokkur ár og misnotað þau eins og allir vita? Ég segi ekki eins og hann um mig, að illgirni og eigingirni hafi ráðið gerðum hans. Það er hégómagirni hans og valdafíkn, sem valdið hefir því, að hann hefir látið varðskipin flytja sig í pólitíska leiðangra; hann hefir gert það til þess að lyfta undir sig og sína, keypt sér vini með því að láta flytja þá milli hafna og tekið skipin frá landhelgigæzlunni vikum saman til að dútla við þessháttar snatt. Allir, sem vilja sjá það, geta séð, hvað mikil heilindi liggja á bak við, þegar maður úr sessi dómsmrh., sem þannig hefir notað aðstöðu sína, slöngvar því framan í þm., sem eftir megni hafa barizt fyrir að halda landhelgigæzlunni í góðu horfi, að þeir vilji hindra, að landhelgin sé vel varin.

Það hefir fyrr skorizt í odda með mér og þessum hæstv. ráðh. út af landhelgigæzlunni eða einhverju í sambandi við hana. Ég hefi orðið að halda uppi vörnum fyrir tvo af skipstjórum varðskipanna, sem hæstv. ráðh. hefir haft fyrir olnbogabörn. Það voru þeir Jóhann P. Jónsson, sem nú er skipstjóri á Óðni, og Friðrk Ólafsson, sem var skipstjóri á Þór. Aftur á móti hefir hæstv. ráðh. tekið einstöku ástfóstri við sérstakan mann á einu af varðskipunum, nefnilega skipherrann á Ægi. Hæstv. ráðh. hefir borið afskaplega mikið hól á þennan mann, og það er eins og vanalega hjá honum, að hann hefir farið þar út í öfgar. Það er alltaf svo hjá honum, að þegar einhverjir eru eitthvað öðruvísi en hann vill, þá eru þeir hjá honum til einskis nýtir, og jafnvel þjófar og ræningjar, þegar honum tekst upp með lýsingarnar. Þetta er nú vitnisburðurinn um þá, sem eru ekki hans fylgifiskar, en þegar flokksmenn hans eiga í hlut, eins og skipherrann á Ægi, þá eru það þeir duglegustu, beztu, árvöknustu og á allan hátt fullkomnustu menn, sem til þekkist.

Ég sagði í umr. um þetta mál, að það væri farið mikið að ganga á tréfótum í þessari landhelgigæzlu undir stj. þessa hæstv. ráðh:, og svo segir hann, að ég sé að fara með rógburð um þennan duglegasta skipstjóra varðskipanna. Þetta fullyrti hæstv. ráðh., af því að ég drap á það, sem allir vita, að það er mikið ólag orðið og ósamkomulag á einu varðskipinu, nefnilega Ægi.

Um brottrekstur stýrimanna, sem hæstv. dómsmrh. og formaður ríkisútgerðarinnar hafa framið í sameiningu. vita menn það, að nú vill hæstv. ráðh. fá sjútvn. til að samþ. þá ráðstöfun með sér. Hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið gert vegna yfirstandandi fjárkreppu. Þessu skýtur dálítið skökku við það, sem stendur í bréfi frá Skipaútgerð ríkisins. Þar er því haldið fram, að þurfi að reka einn stýrimanninn af Ægi og annan, sem sé á Óðni, sökum þess, að þeir hafi óhlýðnazt fyrirskipunum útgerðarstjóra. Þetta kemur dálítið úr annari átt en það, sem hæstv. dómsmrh. segir, að hafi verið ástæðan. Þetta eru merkilegar upplýsingar fyrir þá menn, sem eiga sæti í sjútvn., og gott, að þær eru komnar áður en n. hefir látið uppi álit sitt, hvort hún vill fallast á, að þurft hafi að reka þessa menn.

Ég hefi minnzt á þennan njósnara, sem Hæstv. ráðh. hefir haft til að hlusta á skeytaviðskipti milli togara, og að ég vissi ekki, hvar hann væri. Ég spurði um það í dómsmrn., en það kannaðist ekkert við hann, og formaður sjúvn., sem þessu ætti að vera kunnugur, vissi ekki heldur neitt um hann. En út af þessu sagði Hæstv. ráðh., að hann og forstjóri skipaútgerðarinnar hefðu tíðindamenn víða í veiðistöðvum. „Þetta er eins og í stríði“, sagði hæstv. dómsmrh. Hann var ákaflega hróðugur að tala um þetta stríð, þar sem væru njósnir og gagnnjósnir milli hans og togaranna. Eftir þessum orðum hans er ekki eingöngu einn hlustari, heldur margir, a. m. k. gat ég ekki skilið orð hans öðruvísi en svo, að þeir væru margir og víðsvegar. Má það þó merkilegt heita, þegar þess er gætt, að hæstv. ráðh. gaf þær upplýsingar, að allt þetta hlustarafyrirkomulag hefði engan árangur borið, því að ekki er hætt við, að hæstv. ráðh. hefði ekki notað sér upplýsingarnar, ef hann hefði fengið þær frá þessum mönnum. Svo mikið kappsmál er honum að telja mönnum trú um, að hér sé um glæpsamlegt athæfi að ræða af togaranna hálfu, sem bæði ég og aðrir slíkir menn vilji halda verndarhendi yfir o. s. frv.

Hæstv. ráðh. talaði um þessa miklu svikara og stórbrotamenn, sem hann vissi af hér innan þings. Ég spurði hann, hverjir þessir menn væru, en fékk vitanlega ekkert svar við því. Yfir höfuð var ræða hæstv. ráðh. einn langur reiðilestur yfir mér fyrir það, að ég hafi gerzt svo djarfur að benda á galla á þessari lagasmiði, sem bæði hann og hv. form. sjútvn. þykjast trúa á og mér er sagt, að flokksmenn hans ætli nú að gera honum til geðs að samþ. að þessu sinni.

Ég vil ekki vera eins og hæstv. ráðh., að vera kallaður rógberi an þess að reyna að bera það af mér. Ég kann ekki við annað en að bera hönd fyrir höfuð mér, þegar ég er borinn sökum, er ég skýri frá staðreyndum, sem eru svo augljósar, að það er hægt að staðfesta og sanna þær skjallega hér á þingi. Og ég tel mig hafa fullan rétt á því sem þm. að geta um það í sambandi við þetta mal, þegar hægt er að sanna jafnmikil mistök og virðast hafa komið fram í sambandi við annað varðskipið nú upp á síðkastið. Það er talsvert alvarlegt mál, þegar stofnun eins og Skipaútgerð ríkisins leitar til sjútvn. til að fá samþ. brottrekstur tveggja manna, og annar þeirra er barnamaður með sex menn í heimili.

Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki tekizt að hefja sjólögregluna upp í hærra veldi en hún var í, þegar hann kom í ráðherrasæti. Mér virðist, að afskipti hans af landhelgigæzlumálunum hafi heldur dregið úr áliti landhelgigæzlunnar og fært hana á lægri svið en hún var á áður. Það er vitanlegt, að nýlega voru 3 stýrimenn, einn loftskeytamaður og bryti af Ægi því sem næst reknir, a. m. k. var eitthvað bogið við þeirra landgöngu. Þetta allt stafar af því mikla ósamkomulagi, sem er um borð. Það getur verið, að einhverjir þessara manna sett komnir um borð aftur, en a. m. k. eru þeir það ekki allir. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að halda sér betur við efnið). Ég varð að svara því, sem Hæstv. dómsmrh. var að bera á mig. Hann bar á mig, að ég hefði verið með rógburð, og ég vona, að hæstv. forseti leyfi mér að bera hönd fyrir höfuð mér, fyrst ég get með hægu móti sannað, að þau ummæli voru ómakleg.

Einn af þessum stýrimönnum er sá, sem ríkisútgerðin hefir leitað til sjútvn. um að koma burt af skipinu. Frá honum liggur fyrir bréf, dags. 29. marz, þar sem hann getur um það, að vegna þess, hve að honum er þrengt af yfirboðurum hans, hafi hann ekki séð sér annað fært en að ganga af skipinu, þó að hann eigi sér ekkert víst um atvinnu og hafi að sjá fyrir 6 manna heimili. Tilefni þessa ósamkomulags virðist vera kæra, er 8 menn af Ægi senda til forstjóra útgerðar ríkisskipanna, Pálma Loftssonar, rann 4. des. síðastl., þar sem þeir kæra skipstjóra sinn. Með leyfi Hæstv. forseta vil ég lesa þessa kæru upp. Hún hljóðar þannig:

Reykjavík, 4. desember 1931

Herra útgerðarstjóri

Pálmi Loftsson.

Eins og útgerðarstjóranum mun kunnugt, hefir samkomulagið um borð í varðskipinu ekki alltaf verið eins og vera skyldi milli skipstjóra og annara yfirmanna skipsins. Aðalástæðan fyrir því er sú, að skipstjóri hefir ekki sýnt mönnum almenna kurteisi og oft látið sér um munn fara orð, sem siðuðum mönnum eru að öllu leyti ósæmandi. Skipanir sínar hefir hann oft gefið með blótsyrðum, og jafnvel látið spark fylgja.

Hingað til höfum vér ekki viljað kæra þetta vegna yfirboðara hans, en l. desember kom fyrir það atvik hér um borð, sem vér allir erum sammála um að þola ekki.

Aðstoðardrengur bryta er prúður unglingur, einhver sá bezti, er í þessari stöðu hefir verið. Umræddan dag eftir matartíma var hann í borðsalnum með bræðrum sínum tveimur, syni fyrsta stýrimanns og Ólafi nokkrum Magnússyni, hálfvita. Drengjum þessum hafði hann gefið kaffi. Í þessu bar skipstjóra þarna að, og spurði hann eftir bryta eða matsveini, en þeir voru ekki viðstaddir. Lét skipstjóri það gott heita, og ekki bannaði hann drengnum þá að veita þetta kaffi. Daginn eftir kallar skipstjóri drenginn til sín og rekur hann af skipinu. Drengurinn biður skipstjóra hágrátandi að fyrirgefa sér, en fær það svar, að hann hafi gott af því að fara í land; aðrir sem kæmu eftir hann, mundu af því læra. Fyrsti stýrimaður, faðir eins drengsins, gerði sér þá ferð til skipstjóra, bauðst hann til að greiða hið umrædda kaffi, ávíta drenginn og ábyrgjast, að þetta kæmi ekki fyrir aftur, en skipstjóri kvaðst reka drenginn. Brytinn fór einnig til skipstjóra í sömu erindagerðum, og varð árangurinn hinn sami.

Oss finnst atvik þetta lýsa hreinni og beinni mannvonzku, og þar sem vér sjáum ekki annað en að vér eigum á hættu að verða reknir fyrir jafnsmávægilegar yfirsjónir, sem öllum getur orðið á, treystum vér oss ekki til að vera á skipinu áfram, nema þessu sé kippt í lag. Er það áskorun vor, að útgerðastjórinn sjái svo um, að umræddur drengur haldi stöðu sinni á skipinu, að öðrum kosti er það ósk vor að verða afskráðir nú, áður en skipið fer í næsta túr, því að núv. ástand er með öllu óþolandi“.

Kæran er undirskrifuð af mönnum þeim, er hér segir:

Þ. A. Þorsteinsson. Guðbjörn Bjarnason, Jens Stefánsson, Adolf Guðmundsson, Kristján Sigurjónsson, Pétur Guðmundsson, Guðmundur Þorsteinsson, Sigmundur Pálmason.

Ég ætla, að hæstv. ráðh. haldi á frekar tæpu máli, þegar hann, eftir að ég hafði gert þá aths., sem ég gerði, vitandi það, hversu mjög allt gekk þarna á tréfótum, segir mig vera með rógburð. Mér virðist þessi kæra sanna, að eitthvert ólag sú þarna undir handarjaðri hæstv. ráðh. Ég veit ekki, hvað réttlætistilfinningu hefir boðið honum að gera í þessu efni, en ekki er vitanlegt, að neitt hafi gerzt annað en brottganga þessara manna, sem ég drap á aðan. Svo virðist, a. m. k. að því er snertir einn mann, eiga að draga sjútvn. Alþingis inn í þetta mál og láta þær samþ. hefnd ráðh. á þessum manni, eða tveimur þó.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um, að togaraeigendur, sjómenn og ef til vill fleiri vildu halda hlífiskildi yfir lögbrotum; menn langaði til að græða ólöglega. Það getur vel verið, að menn langi til að græða, en ég veit, að suma menn langar líka til að ráða, og horfa ekki mikið í að raða ólöglega. Hæstv. dómsmrh. á ekki hvað sízt skilið þessa málagrein. Það getur verið, að hann sé ekki mikið fyrir að græða, en þó hygg ég, að hann þiggi fóðrið sitt, eins og aðrir. Hitt er vist, að hann svífist lítils til að geta ráðið. Mætti henda á mörg dæmi um lögbrot hans og yfirtroðslur, þegar hann hefir langað til að koma sínum vilja fram.

Ég held, að ég hafi þá lagt inn hjá hæstv. ráðh. fyrir það, sem hann beindi til mín í ræðu sinni, en þrátt fyrir það er enn nóg eftir á að minnast í sambandi við þetta mal. Ég mun samt láta hér staðar numið að sinni, en áður en ég lýk máli mínu vil ég minna hv. þd. á, að það er ekki aðeins ég, sem held því fram, að „ömmufrv.“ sé með öllu gagnslaust. Allir þeir sérfræðingar í loftskeytasendingum, sem vinna á íslenzka togaraflotanum, vita og hafa sýnt fram á, að frv. kemur ekki að nokkru minnsta haldi. Menn geta farið í kringum ákvæðin án þess að stofna sér í nokkra hættu, bara ef þeir vilja.

Hv. 1. þm. S.-M. byggir allt á drengskaparheitinu, en menn þurfa ekki að rjúfa það drengskaparheit. Þó að þeir komi skeytum milli togara viðvíkjandi varðskipunum. Það er glompa í þessu frv., sem hefir ekki verið lagfærð, því að það verður eftir sem áður opin leið til að senda hvaða, skeyti sem er til útlendra togara, og þaðan lengra, ef vill.

Það er náttúrlega rétt af Alþingi að setja löggjöf um mál, er almenning varðar, þó aðeins þau lög, sem eru til bóta, en ekki fyrirsjáanlega til spillis. En ég hygg, að löggjöf sú, er hér ræðir um, með þeim forsendum, sem henni hafa fylgt þing eftir þing, sé frekar til að spilla fyrir en bæta úr. Það mun reynslan sýna, ef þessi ákvæði koma til framkvæmda.