29.02.1932
Neðri deild: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í C-deild Alþingistíðinda. (4000)

40. mál, prestakallasjóður

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það er alveg rökrétt hugsun, að ef einhver starfsgrein ríkisins er ekki fullskipuð því liði, sem henni er ætlað af löggjafar- og fjárveitingarvaldinu, þá skuli verju því fé, sem við þetta sparast, til þess að bæta starfsgreininni upp hallann á annan hátt.

Þetta frv. er fram komið vegna þess, að upp á síðkastið hefir borið nokkuð á því, að einstakar starfsgreinir hins opinbera hafa ekki fullum starfskröftum á að skipa. Einkum hefir þetta átt sér stað um presta og lækna, og á sumarþinginu voru þess vegna flutt tvö frv., sem og bæði eru fram komin á þessu þingi, nefnilega þetta frv. og frv. um læknishéraðasjóði, og bæði miða að því að gera þessa rökréttu hugsun að veruleika. Í báðum þessum frv. er meginhugsunin alveg sú sama, en útfærsla e. t. v. eitthvað öðruvísi. Starfsemi kirkjunnar er að því leyti öðruvísi en læknastéttarinnar, að með almennu starfi má bæta upp það, sem tapast vegna vantandi starfskrafta. Þess vegna er í þessu frv. gert ráð fyrir, að fénu verði varið til slíkrar starfsemi.

Frv. er að mestu óbreytt frá því á sumarþinginu, nema að teknar hafa verið til greina þær raddir, sem fram komu í sumar; um að nefna útvarpið sérstaklega, er góðs skuli njóta af fé sjóðsins. Ákvæði um þetta hefir verið tekið upp í 1. gr. frv., og vona ég, að sú breyt. verði ekki frv. að trafala.

Að sjálfsögðu eru í orðalagi og útfærslu frv. ýms atriði, sem þurfa umbóta við, og vænti ég, að hv. n. taki það til athugunar. Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.