13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í C-deild Alþingistíðinda. (4049)

70. mál, ábúðarlög

Einar Arnórsson:

Það kann nú að þykja óþarft, að kaupstaðarmaður, sem líka er þm. fyrir kaupstaðarkjördæmi, fari að blanda sér í umr. um mál eins og þetta, sem eingöngu varðar sveitir landsins og þá atvinnu, sem þar er rekin. En ég býst þó við, að það sé réttlætanlegt, að ég tefji tímann dálítið með því að ræða þetta. Hér er um stórmal að ræða, sem í raun og veru er hverjum borgara landsins viðkomandi. Ég vona því að mér fyrirgefist, þó ég segi nokkur orð.

Ég sagði, að þetta væri stórmál. Það hefir líka sýnt sig í framkvæmdinni. Fyrst var skipuð mþn. til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Hún skilaði bæði frv. og áliti, sem svo var lagt fram á þingi. Það hefir þó ekki hlotið afgreiðslu, og mun þetta vera fjórða þingið, sem hefir það til meðferðar, og stundum hefir verið lögð í það mikil vinna í nefnd. En þrátt fyrir það, þó svona mikil alúð hafi verið lögð í þetta mal, þá finnst mér þó ýmislegt á það skorta, að afgreiðsla þess sé enn orðin svo fullkomin sem vera ber um slíkt mal. Það er vitanlegt, að í frv. eru atr., sem aldrei verður fullt samkomulag um. Þar kemur til greina stefnumunur. En þó því sé sleppt, þá eru að minni hyggju í frv. mörg atr., sem ástæða er að taka til nánari athugunar. Sérstaklega þó, þegar þess er gætt, að enda þótt frv. kæmi heilsteypt frá mþn., eru nú fram komnar margar brtt. við það frá landbn., sem vafalaust verða samþ. að meira eða minna leyti. En þá er líka hætt við því, að í því flaustri og málamergð, sem einkennir síðustu daga þingsins, gefist ekki tími til að afgreiða málið svo, að ekki verði ómynd. Ég geri því ráð fyrir, að þm. hafi ekki fullan tíma til að bera saman ákvæði frv., eftir að búið er að umskapa þau, með því að samþykkja brtt. landbn. Það fengjust þá að vísu landbúnaðarlög, en sem strax yrði að fara að krukka í á næsta þingi. En að þurfa strax að breyta l., veldur óvissu hjá almenningi og erfiðleikum í framkvæmd laganna. Er það svo auðskilið mál, að ekki þarf að rökstyðja það. Ég mun þó ekki fara út í mörg atriði frv., þar sem ég hefi ekki haft tíma til að athuga það nákvæmlega í sambandi við brtt. n. En á þær verður að minnast um leið og frv., þar sem efni þeirra og frv. er svo mjög samtvinnað.

Í 2. brtt. á þskj. 680 er talað um sameiningu jarða. Í sömu gr. er og bann við því, að einn maður hafi samtímis ábúð á tveimur eða fleiri jörðum. Og loks er í sömu brtt. ákvæði um að landeiganda sé heimilt að skipta jörð sinni í 2 eða fleiri jarðir. En allt þetta — að sameining jarða eða samtímis ábúð sama manns á tveimur eða fleiri jörðum skuli því aðeins leyfa, að úttektarmenn mæli með slíkum ráðstöfunum og Búnaðarfél. Ísl. samþykki, og skipting jarðar í tvær eða fleiri jarðir verði ekki leyfð nema með samþykki Búnaðarfél. Íslands — um allt þetta er það sama að segja, að með þessu er stofnað til óþarfa skriffinnsku. Ég held, að ef einhver takmörk á að setja um þetta, sem vel má vera, að sé rétt, séu úttektarmennirnir manna kunnugastir og færastir að meta, hvort sem um er að ræða, að einhver maður skuli búa á tveimur jörðum, jarðir sameinaðar í eina, eða jörð skipt í fleiri jarðir. Um allt þetta hafa úttektarmennirnir langbezt skilyrði að jafnaði til að dæma um og meta, hvort slíkar ráðstafanir eru réttmætar og nauðsynlegar. Í stjórn Búnaðarfél. Íslands eru að vísu góðir menn, en þá brestur oftast kunnugleika á hverju einstöku slíkra mala og yrðu í langflestum tilfellum að byggja á umsögn og till. úttektarmanna. Með brtt. hv. landbn. er því ekki annað unnið en að málið er tafið fyrir hlutaðeiganda og honum bakaðir skriffinnskutorveldleikar með því.

Það hefir verið talað um fyrirmæli 9. gr., þar sem svo er ákveðið, að allar jarðir skuli leigðar æfilangt. En þetta ákvæði „æfilangt“ er ekki aðeins miðað við hann mann, sem tekur jörð á leigu, heldur fær ekkjan ábúðarréttinn og maður sá er hún kynni að eignast, ekki aðeins í annað sinn, heldur nær þetta einnig til þeirra manna, sem hún kynni að giftast í þriðja og fjórða sinn o. s. frv. Með þessu móti er auðsætt, þegar landsdrottinn byggir jörð manni, sem ekki er ómögulegur til að giftast, og um leið er mögulegt, að hann byggi jörðina manni eða mönnum, sem hann hefir aldrei seð eða veit engin deili a. Eftir þessu ákvæði 9. gr. getur landsdrottinn aldrei reiknað út, hvort góður maður fær jörðina eða ekki, því hann getur aldrei vitað um, hvaða menn komi til að hafa ábúðarréttinn æfilangt.

Eftir núg. lögum er það svo, að ekkja heldur ábúðarrétti manns síns á meðan hún getur. En sá persónulegi réttur ekkjunnar helzt þó ekki, ef hún stofnar til ráðahags af nýju. því að þá er kominn nýr maður í spilið, sem landsdrottinn hafði ekki gert ráð fyrir, er hann byggði jörðina. Það er eftir þessari grundvallarreglu, sem maður leigir nú eign sína. því hann verður að byggja á, hver það er, sem fer með hlutinn. Samkv. ákvæði 9. gr. veit hann ekkert um, hvaða maður kann að fara með eign hans. Ég hafði þó hugsað, að meira máli skipti, hver bóndinn er en konan, þegar um er að ræða, hvernig jörð er setin, án þess þó að ég vilji á nokkurn hatt gera lítið úr kvenfólkinu.

Annars segir um ábúðarrétt ekkju, án tillits til hvað marga menn hún kunni að eignast, að skilyrði til áframhaldandi ábúðar sé, að hún hafi aðskilinn fjárhag. En mér virðist sem allerfitt kunni að verða að leysa úr því, hvort kona hafi aðskilinn fjárhag við mann sinn eða ekki, því það er nú svo, að eftir núg. lögum getur fjárhagur hjóna verið með mörgu móti.

Í fyrsta lagi er hugsanlegt, að hjón hafi enga sameign,. heldur sé allt, sem þau búa með, séreign hvors þeirra um sig, og er þá þessu skilyrði fullnægt, að þau hafa aðskilinn fjárhag.

Í öðru lagi geta hjón eftir l. um fjármál hjóna frá 3. jan. 1900 haft algert félagsbú, og er þá auðsætt, að ekkjan mundi eigi fullnægja skilyrði 9. gr. frv. um aðskilinn fjárhag.

Í þriðja lagi er það enn eftir gamla fyrirkomulaginu, að hjón hafi nokkra séreign, en jafnframt nokkurt félagsbú. Hafa hjónin þá aðskilinn fjárhag að nokkru, ef konan á nokkra séreign og bóndinn sömuleiðis, en hafa svo félagsbú að öðru leyti, og þannig ger það hjá mörgum hjónum hér á landi ennþá. Ef svo er, þá skal ég ósagt lata, hvort konan fullnægir áðurnefndu skilyrði 9. gr. frv.

Fjórða tilvikið er, að hjón búi saman eftir l. frá 1923. Eftir heim hafa þau e. t. v. enga séreign, heldur svokallaða hjúskapareign. Þetta er óþekkt hugtak áður og þýðir, að konunni teljist eignir þær, sem hún átti áður en hún giftist, en það, sem þau eignast saman í hjónabandinu, er svo ætlazt til að verði hjúskapareign þeirra hvors um sig. Þetta er aðalreglan, sem byggja verður á, því að svo hefir hvort hjónanna forráð hjúskapareignar sinnar, en þó takmarkað. Ef þau skilja, borgast skuldir hvors þeirra af hjúskapareigninni, en það, sem afgangs verður fram yfir skuldir, er þá lagt saman og síðan skipt í tvennt. Þau hafa því á þennan hátt að nokkru aðskilinn fjárhag, en vafasamt er þó, hvort kona, sem við þessa skipun byggi, fullnægði skilyrði 9. gr. frv. Loks er enn hugsandi það tilvik, að t. d. hjónin geti átt hjúskaparsameign eftir l. frá 1900,og séreign einhverja. Og er þá enn vafasamt, hvort konan hafi aðskilinn fjárhag í merkingu 9. gr. frv. (MG: Þau eiga að hafa fullkomlega aðskilinn fjárhag.). Ef þetta er rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., þá mega hjónin ekkert eiga nema séreignir. En eina og ákvæði þetta er orðað í 9. gr., þá geta verið ýmis tilvik, sem deila má um.

Annars sé ég ekki, hvaða raunverulega þýðingu það ætti að hafa, hvort t.d. konan á 5 kýr sér og maðurinn aðrar 5 kýr sér, og svo einhverjar hjúskapareignir eða félagsbú. Sannleikurinn er sá, að það, hvernig jörð er setin, fer ekki eftir því, hvort hjónin hafa aðskilinn fjárhag eða ekki, heldur ræður þar mestu um, hvernig þær manneskjur eru, sem á jörðinni búa, hvort þær eru rádeildarsamar eða ekki. Það ræður engu um, hvernig jörð er setin, hvort konan á séreign í tveimur kúm og maðurinn í tveimur hrossum og nokkrum kindum, eða þau hafa að öllu leyti sameign með sér.

Mér finnst ákvæði 9. gr. um lífstíðarábúðina óviðkunnanlegt og langt frá þeirri hugmynd, sem ég hefi gert mér um samningafrelsi manna, þar sem sett er sú aðalregla, að ekki megi byggja land skemmri tíma en lífstíð landseta, ekkju hans og manna hennar. (BSt: Það má taka jörð úr ábúð, þegar eigandi þarf þess með.). Já, ég kem að því síðar, en ég hefi ekki alveg lokið aths. minni um þetta atr.

Oft mun það vera svo, að maður kærir sig ekki um að fá jörð byggða til langs tíma, og ætti það þá að vera leyfilegt að byggja hana tiltekinn tíma. Ef í byggingarbréfi stendur, að jörð sé t. d. byggð til 5 ára, þá ættu báðir aðilja að vera bundnir við það eftir almennum samningsreglum. En til þess mun ekki ætlazt eftir þessum fyrirmælum 9. gr. frv. þótt jörð sé byggð tiltekinn tíma, þá getur landseti víst hlaupið frá slíku samningsákvæði eftir frv. En sú aðferð í skiptum manna á milli er almennt kölluð svik eða prakkaraskapur. Mér skilst þó, að þessi löggjöf geti ekki haft þann tilgang, að menn, sem beðið, hafa um jörð vissan og ákveðinn tíma, geti gengið frá öllu, er heim bezt gegnir.

Einhver skaut því fram áðan, að eigandi gæti losað jörð sína úr ábúð. Það er rétt, að ýmis ráð eru til þess. Það er þá fyrst og fremst, ef leiguliði vanefnir skyldur sínar, uppfyllir ekki þá skilmála, sem hann hefir undirgengizt. Við það hefi ég ekkert að athuga, enda eru þau ákvæði aðalefni núg. laga um ábúð jarða. Þó er þar atr., sem mjög orkar tvímælis, sem sé það, að maður fyrirgerir aldrei strax ábúðarrétti sínum eftir þessu frv., hversu svívirðilega, sem hann fer með jörðina. Þó að upp komist, að landseti fari illa með jörð eða nytji hana óleyfilega, t. d. strax að vorinu, þá verður eigandi að bíða fram undir jól með uppsögn sína, og fær þó manninn ekki burt fyrr en í næstu fardögum. Raunverulega yrði það svo eftir frv., að 2 ár gæti t. d. óreiðumaður, sem alls ekki greiddi eftirgjald eftir leigujörð sína, setið leigulaust á henni og niðurnítt hana í tilbót. Slík ákvæði eru vitanlega alveg ótæk.

Þá er það ákvæði 45. gr., sem áður hefir verið talað um. Eftir þessari gr. getur landsdrottinn boðið landseta jörðina til kaups við fasteignamatsverði, og greiðist andvirðið innan 6 mán. Geti hann það ekki, missir hann ábúðarréttinn til handa hinum nýja eiganda jarðarinnar, ef hún er öðrum seld. Þar finnst mér hallað á rétt landseta og hann óþarflega hart leikinn. Efnuðum landseta, sem býr á jörð, er honum býðst til kaups við fasteignamatsverði, eða fyrir sannvirði, gerir þetta ákvæði ekkert til, því að hann mundi þá kaupa jörðina, ef hann vill búa á henni áfram. Aftur á móti getur öðrum reynzt það tilfinnanlega ójafn leikur. Ef fátækur landseti á í hlut, þá getur þetta orðið til þess, að hann missi af jörðinni, ekki aðeins, að hann verði af kaupunum; heldur tapi þeim ábúðarrétti, er hann hafði, vegna þess að hann getur ekki útvegað fé á heim tíma, er til var settur. Jafnvel má gera ráð fyrir á slíkum tímum sem nú eru, að það standi í mörgum að útvega fullt kaupverð á 6 man., og jafnvel þó að sá tími yrði framlengdur í eitt ár, eins og hv. landbn. leggur til með 28. brtt. sinni á þskj. 680.

Þá er að athuga, að vel getur verið, að þótt ýmsar jarðir fyrir 1–2 árum hafi verið metnar þetta og þetta, þá geta þær verið farnar að falla í verði eftir nokkur ár, og ekki sízt, ef landbúnaðurinn á við áframhaldandi kreppu að búa. Þá getur vel verð, að abúanda þyki ekki gefandi fyrir jörðina fasteignamatsverð og neyðist því til að segja nei við kaupunum, sem þýðir venjulega það sama og að hann verði þá að fara frá jörðinni. Með þessu er auðséð, að landsdrottinn hefir opna leið til þess að koma ábúanda burt af jörðinni, og getur ákvæði að því leyti verkað illa. Hinsvegar, ef fasteignamatið er lægra en kaupverðið, þá verkar ákvæðið ekki eins og hugsað er, því eigandi kýs þá að halda eignarréttinum og ekki losna við ábúanda.

Um þriðju leiðina til þess að losna við ábúanda segir svo í 9. gr. frv.: Heimilt er þó landsdrottni að taka jörð úr ábúð handa sjálfum sér, o. s. frv. Ef maður, sem á jörð öðrum byggða, ætlar að taka hana úr ábúð handa sjálfum sér, þá er ákvæðið skýlaust, og skal ég játa, að þetta er bót í sjálfu sér og réttlátt. En þetta má misnota eða nota til að ónýta aðalregluna. Ekki vil ég þó lasta, að aðalreglan, sem mér þykir hörð, verði að víkja fyrir þessu ákvæði. En hentugra væri fyrir leiguliða að taka jörð til ábúðar eitthvert ákveðið árabil, í stað æfilangt og eiga alltaf yfir höfði sér, að landsdrottinn komi og tilkynni, að að ári liðnu verði ábúandi að víkja af jörðinni. Annars skal ég ekki mæla á móti því, að þetta standi í frv., en tek þó fram, að ákvæði þetta getur orðið til þess að ónýta aðalregluna.

En svo er landsdrottni einnig heimilt að taka jörð úr ábúð handa „foreldri sínu, barni, fósturbarni eða barnabarni til eignar og ábúðar, nema landsdrottinn hafi skuldbundið sig til annars í byggingarbréfi“.

Nú vil ég spyrja: Ber þetta að skilja á þann veg, að ef faðir vill losa leigujörð úr ábúð, t. d. handa syni sínum, á hann þá fyrst að selja syni sínum jörðina og síðan byggja honum hana? Líklega á að skilja þetta svo, að til þess að landsdrottinn geti tekið jörð úr ábúð handa syni sínum, þá sé ekki nóg að byggja syninum jörðina, heldur verði jafnframt að selja honum hana eða gefa. En ef faðir þarf fyrst að afsala syni sínum jörðina áður en hann byggir honum hana, þá þykir mér of langt gengið, því að réttmæt virðist vera, að hann byggi syni sínum jörðina, en sé hvorki skuldbundinn til að selja hana eða gefa. En mér finnst vanta ýmsa fleiri nákomna menn landsdrottni, sem falla ættu undir þetta ákvæði, svo sem kjörbörn, stjúpbörn og tengdabörn, sem allt eru nánir vandamenn, en falla þó ekki alltaf undir orðið barn. En þetta er smáræði, sem auðvelt er að lagfæra í meðferð malsins hér á þingi.

Annars yrði það of langt mál, ef ég færi aðfara inn á hvert einstakt atr. frv., sem ég hefi eitthvað að athuga við. Þó vil ég geta þess, að samkv. ákvæðum 36. gr. finnst mér óþarflega mikið umstang að setja gerðardóm um það atr., sem nefnt er þar. Það ætti að nægja að láta úttektarmenn meta slíkt, enda er ekki um erfiðara mat að ræða eftir þessari gr. en í ýmsum öðrum gr. frv., sem úttektarmönnum er ætlað að gera.

Þá er eitt atr. í ábúðarlöggjöf okkar, bæði í þeirri, sem gildir og þessari, sem nú á að lögleiða, sem ég verð að telja mjög ósanngjarnt, sem sé það, að leiguliði að nokkru leyti beri áhættu af eign, eða komi á hans bak, ef eign eyðist eða skemmist af völdum nátttúrunnar, svo sem af snjóflóðum, vatnsgangi, skriðum, sandfoki, jarðskjálfta og eldgosum. Að vísu mun það ekki vera almenn regla, að leigutakar beri slíka áhættu. Reglan mun vera, að eigandinn beri slíka áhættu og tryggi sig fyrir henni. En bæði er svo sagt í gildandi lögum og ætlazt til með þessu frv., að landseti heri að nokkru leyti þá áhættu af því tjóni, sem eignin kann að verða fyrir af völdum náttúrunnar. Ég bendi á þetta hv. landbn. til athugunar, ef hún vildi taka það til greina. Annars eru ýmis orðatiltæki í lagafrv. þessu, sem ástæða væri til að tala um, þó að ég leiði það hjá mér að þessu sinni.

Í upphafi 26. gr. frv. segir: „Leiguliði skal greiða alla skatta og skyldur, sem á leigujörð hans hvíla, og halda uppi öllum lögskilum af henni landsdrottni kostnaðarlaust“. Þó að þetta sé gamalt í lögum að leiguliði greiði skatta og skyldur af leigujörð sinni, þá getur það trauðla átt við nú á tímum, þó að svo þætti mega vera um 1880. Þá voru aðeins fá gjöld og smá, jarðartíund og annað, og mátti því segja, að litlu skipti, þó að lagt væri á landseta að greiða þau. En nú hafa þessi gjöld nokkuð hækkað og þeim verið fjölgað og eftir þessu frv., ef að lögum verður, á landseti að greiða fasteignargjald af jörðinni í ríkissjóð, sem er að vísu ekki stór summa. En hvað eignarskatt af leigujörð snertir, virðist mér ekki hægt að gera landseta að skyldu að greiða hann, því hann er ekki annað en einn hluti af þeim skatti, sem landsdrottinn á að greiða af eignum sínum í einu lagi, og getur ekki verið, að landseti eigi að greiða hann. En eftir frv. er þetta svo að skilja, nema landsdrottinn greiði landseta þann hluta af eignarskattinum, sem hvílir á jörðinni. Svo segir, að leiguliði eigi að halda uppi öllum lögskilum af jörðinni landsdrottni að kostnaðarlausu. Þetta er líka gömul regla og sjálfsagt að mestu leyti rétt. En það er líka í annari grein en 26. gr., að orðið lögskil er notað og þá í annari merkingu. Í 26. gr. hygg ég, að lögskil sé látið merkja skatta og skyldur. En í gömlu máli merkir orðið lögskil fjallskil, fátækraflutning, smalamennsku o. s. frv. Ég sé ekki ástæðu til að rugla þannig orðinu lögskil, að nota það sitt í hvorri merkingu sitt í hvorri grein. (MG: Hvaða grein er það?). Ég man það ekki í svip, en skal síðar benda á það. (StgrS: Það er víst 2. gr. eða jafnvel 1. gr.). Þetta er að vísu ekki neitt stórt atr., en þó væri réttara að laga það.

Ég skil vel, að hv. landbn. hafi ekki haft tíma eða tækifæri til þess að athuga þetta mál eins og skyldi í þeim málaflaumi, sem hún hefir orðið að synda í á þessu þingi, en það gerir það auðvitað ekki að verkum, að frv. þurfi minni athugunar við.

Í 52. gr. er talað um, að úttektarmenn skuli gera fjárnám í munum þeim, er fráfarandi á jörðinni, ef hann vill ekki greiða þær bætur, sem úttektarmenn hafa gert honum að greiða. Þetta heitir ekki fjárnám, heldur lögtak, og það er það líka kallað í lögunum frá 1884.

Ég skal endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég álít, að það væri bezt fyrir þetta mál, að það væri ekki afgr. til fulls á þessu þingi, heldur undirbyggi stj. það ennþá betur fyrir næsta þing. Það væri þessu máli fyrir beztu, ef vera mætti, að það yrði afgr. sem lög, er gætu síðan staðið óhreyfð um langan tíma. Annars er ég hræddur um, að komi fram ýmsir agnúar á þessum lögum og jafnvel mótsagnir í ákvæðum einstakra greina frv., ef málinu verður nú flaustrað af með þeim brtt., sem hv. landbn. hefir borið hér fram.