13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í C-deild Alþingistíðinda. (4054)

70. mál, ábúðarlög

Einar Arnórsson:

Hv. síðri flm. frv. (BSt) hafði verið eitthvað úrillur út af því, sem ég sagði áður um þetta frv. Ég heyrði ekki ræðu hans alla og get því ekki svarað honum nema að nokkru leyti.

Hann sagði, að öll lög hefðu í sér fólgin höft á athafnafrelsi manna og það væri því ekkert sérkenni á þessu frv. Núg. ábúðarlög bindu líka hendur manna. þessa frumlegu speki hans þekki ég. Það vitanlega ofmælt, að öll lög hafi í sér fólgin höft á athafnafrelsinu. Stundum segja þau aðeins, að svo þau eða svo skuli fara, ef málsaðilja er ekki á annað sáttir. Það má að vísu jafna saman frv. og ábúðarlögunum frá 1884, en þó kemur þar fram æðimikill munur. Ábúðarlögin 1884 segja að vísu, að jörð skuli byggð æfilangt, nema annað sannist. Hér er öðru máli að gegna; það má ekki semja öðruvísi en um lífstíðarábúð. Samkvæmt gömlu lögunum hefir landsdrottinn aðeins sönnunarbyrðina fyrir því, að jörð hafi ekki verið byggð æfilangt. Hér er því ólíku saman að jafna.

Hv. 2. flm. virtist gramur yfir því, að ég og ýmsir aðrir höfum leyft okkur að gera aths. við frv. Það er ástæðulaust, því aths. hafa verið hóflegar og til þess eins að upplýsa málið, en á engan hátt til að gera lítið úr verkum mþn. eða hv. þm.

Út af því, sem hv. aðalfrsm. sagði, hefi ég ekki margt að segja. Hann talaði af fullri skynsemd að því að ýmsu leyti ólíkt hv. samflm. sínum. Ef svo er, að samþykki Búnaðarfélags Íslands til að sameina megi jarðir sé aðeins form, þá er það í raun og veru það sama, sem ég vildi halda fram. Ég taldi, að Búnaðarfél. sakir ókunnugleika mundi almennt samþ. tillögur úttektarmanna. En ef svo er, þá er engin ástæða til að leggja þessa kvöð á herðar mönnum. Það er aðeins óþörf skriffinnska og getur stundum valdið mönnum bagalegum drætti.

Um 9. gr. get ég bætt því við fyrri aths. mína, að kjörbörn og fósturbörn eru sitt hvort hugtakið. Mörg fósturbörn eru ekki kjörbörn og það er ekki víst, að kjörbörn séu ávallt einnig fósturbörn. N. ætti líka að athuga, hvort ekki væri ástæða til að taka tengdabörn og stjúpbörn inn í frvgr.

Þá er það ekki allskostar hentugt eða réttlátt ákvæði, að landsdrottinn, sem vill láta barn sitt fá jörð til ábúðar, verði líka að afhenda því hana til eignar. Þegar maður á mörg börn og fáar jarðir, er það ekki hentugt að neyða hann til að afhenda einu þeirra jörð sína til eignar. Það má að vísu segja, að hann geti haldið hinum börnunum skaðlausum með því að taka skuldabréf fyrir jarðarverðinu. En það getur verið, að fleiri af bornum hans vilji eignast jörðina. Ef það þykir nauðsynlegt að halda þessu ákvæði um eignarafhendingu, þá má skjóta því fram til athugunar, hvort honum ætti ekki að vera leyfilegt að láta eignarréttinn ganga til fleiri barna sinna, en með áskildum ábúðarrétti handa einu þeirra.

Um skattskyldu leiguliða af leigujörðum sínum hefi ég litið að segja fram yfir það, sem ég sagði áður. Mér finnst hún óeðlileg. Það má að vísu taka tillit til hennar þegar leigumálinn er ákveðinn, en ósanngirnin getur komið fram í því, að leiguliðar beri áættuna af breyt. á skattalöggjöfinni. Ef nú væri t. d. lögleiddur mjög þar fasteignaskattur, mundi hann ekki verka réttlatlega að þessu leyti.

Þessi atriði finnst mér ekki svo stórvægileg, að ekki mætti afgr. málið þeirra vegna. Ég skal játa það, að þessar aths., sem ég hefi gert, eru ekki nema fáar einar, en þær eru ekki fleiri vegna þess, að ég vil ekki tefja tímann. Einnig verð ég að játa, að ég hefi, vegna tímaskorts, eigi getað kynnt mér frv. og brtt. eins og æskilegt væri. Geri ég ráð fyrir, að hægt hefði verið að benda á mjög margt fleira en það, sem við, er nú höfum hreyft andmælum, höfum komið fram með.

Úr því að ég er staðinn upp á annað borð, vil ég minnast ofurlítið á húsaskyldur landsdrottins. Það er mikil ástæða til að bæta úr því fyrirkomulagi, sem nú er í þessu atr. Samt sem áður virðist mér, að ákvæðin, sem hér er verið að lögleiða, fari of langt, séu of undantekningarlaus. Ég get hugsað mér það tilfelli og það hefir áreiðanlega komið fyrir, að hús séu reist á jörð og miðuð við þá búnaðarháttu, sem þá eru á jörðinni. Hugsum okkur t. d., að landsdrottinn byggði á jörð, sem þætti sérstaklega hæf til kúabús. Svo byggir hann handa leiguliða dýrt og vel gert fjós. Nokkrum árum síðar breytast búnaðarhættir þannig, að leiguliða þykir sér nú hentara að reka aðallega sauðfjárbú. Þar af leiðandi hyggst hann að fækka kúnum allverulega, en efla í þess stað sauðfjáreign. Nú er ekki víst, að þetta dýra og myndarlega fjós verði hentugt fyrir sauðfé og oft mun það algerlega ónothæft til þess. Þá myndi landseti heimta, að landsdrottinn byggði handa honum fjárhús. Þannig gæti vel komið fyrir, að menn yrðu að tvíbyggja á jörð, þó að þau hús, sem upphaflega hefðu verið byggð, væru ennþá í góðu standi. Ég veit, að slík tilfelli geta komið fyrir, og ég skýt því þess vegna til hv. flm., hvort þeir vilji ekki athuga þetta mál nokkru nánar en gert hefir verið.