19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í C-deild Alþingistíðinda. (4069)

70. mál, ábúðarlög

Magnús Guðmundsson:

Það er alveg rétt hjá hv. þm. V.-Húnv., að, jarðir eru til skiptis í leiguábúð og sjálfsábúð. Má því vel taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að láta þetta ákvæði ná einnig til jarða, sem eru í sjálfsábúð. En því verður ekki neitað, að það er síður hætt við, að þær jarðir, sem eru í sjálfsábúð, komist í niðurníðslu, heldur en hinar, sem eru í leiguábúð. Annars er ætlazt til, að sjóð þennan megi ekki skerða, þó að jarðir, sem eru í leiguábúð, komist í sjálfsábúð, nema ef byggt er upp á þeim.

Ég get ekki verið sammála hv. þm. um, að það skipti ekki mali, hvor aðilinn, leiguliði eða jarðeigandi, greiði þetta gjald, því að það eru sett ákvæði um þetta í frv., hvert afgjald skuli vera af jörðum, og getur landsdrottinn því ekki sett það eftir vild. Mér finnst því réttlatt að skipta þessu og láta leiguliða borga eðlilega fyrningu og landsdrottin jafnmikið á móti af eftirgjaldinu. En þegar endurbyggt er, á hann að láta allt, sem til vantar. Ég er því viss um, að það kemur sér betur fyrir hann að láta árlega lítinn hluta af landskuldinni. Það safnast þegar saman kemur.

Ég þykist þess fullviss, að verði þetta skref tekið, þá verði fyrir framtíðina ráðin bót á því stóra og vandasama spursmáli, sem er hýsing jarðanna.