20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í C-deild Alþingistíðinda. (4074)

70. mál, ábúðarlög

Einar Arnórsson:

Því miður gat ég ekki verið við umræður þessa máls í gær. En þar sem hæstv. forseti sýndi þá biðlund að fresta umræðulokunum þangað til í dag, fæ ég nú tækifæri til þess að tala fyrir þeim brtt., sem ég hefi leyft mér að flytja við frv. En ég get til að byrja með tekið undir það með hv. l. þm. S.-M, að þó að þær brtt., sem fram eru komnar við frv., bæði frá hv. landbn. og einstökum þm., yrðu samþ., yrðu samt ýms ákvæði í frv., sem ég er ekki ánægðum með og get ég hvað það snertir vísað til þess, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls hér í hv. d.

Ég ætla þá að ganga stuttlega gegnum brtt. mínar, sem eru á þskj. 760. Brtt. þær, sem ég flyt við 1., 2. og 4. málsgr. 2. gr. talaði ég eiginlega um við 2. umr. Ég skal geta þess, að inn í 1. brtt. hefir slæðzt ofurlítil villa. Hún ætti að hljóða þannig: „Orðin „og Búnaðarfélag Íslands samþykki hana“ falli burt“. Og við e-lið stendur: „Í 3. málsgr.„ o. s. frv., en á að vera: „Í 4. málsgr.“ o. s. frv.

Ég benti á það við 2. umr., að það væri ekki nema til tafar og óþæginda að leggja þau atr., sem 1., 2. og 4. málsgr. 2. gr. ræða um, undir úrskurð Búnaðarfélags Íslands. Ég ætla, að úttektarmönnunum sé eins vel trúandi til þess að meta það, hvort menn eiga að fá að sameina jarðir, hafa ábúð á fleiri en einni jörð samtímis, eða skipta jörðum í fleiri býli, eins og svo margt annað, sem þeim er falið að meta. Ef ég man rétt, eru þessi atr. ekki lögð undir Búnaðarfél. í frv. eins og mþn. gekk frá því, svo ég get vænzt þess, að hv. flm. hafi ekkert á móti þessari brtt. minni, þar sem hún er í samræmi við ráð, sem þeir sjálfir lögðu upphaflega til.

Þá er 2. brtt. mín, sem er við 3. gr. frv. Í henni segir, að „ef enginn hefir not jarðarinnar, er landsdrottni óskylt að greiða af henni opinbera skatta eða skyldur eða önnur lögskil“.

Eftir frv. á maður, sem ekki hefir fengið jörð sína byggða, að inna af hendi till lögskil fyrir hana. Ég veit nú ekki, hvernig koma á því við. Það er e. t. v. hægt að láta eiganda eyðijarðar sjá um fjallskil eða borga smalamennsku þar, en það er ómögulegt að láta hann bera þingboð þaðan og þvíumlíkt. Þingboð koma alls ekki þangað sem enginn er til þess að heyra þau og enginn til að flytja þau. Eigandi eyðijarðarinnar getur átt heima í öðrum hreppi og þarf ekki að eiga þar eina einustu sauðkind, er þá litil sanngirni að skylda hann til þess að ganga á fjöll og firnindi til að smala kindum nágrannanna, sem nota sér land hans í óleyfi.

Það getur verið, að þetta sé ekki stórvægilegt atr., en í eðli sínu er það rangt að skylda jarðeiganda undir öllum kringumstæðum til þess að inna af hendi þessi lögskil, hvort sem hann getur haft nokkur not af jörðinni eða ekki.

Þá er brtt. við 6. gr., 2. málsgr. Þar segir í frv., að í byggingarbréfi skuli „nákvæmlega taka fram um leiguliðanot samkv. lögum þessum, skyldur leiguliða og fyrir hverjar vanrækslur hann missir rétt sinn til ábúðar“. Með þessu er eiginlega sagt, að í byggingarbréfi eigi að taka upp mikinn hluta af ábúðarlögunum, og myndu byggingarbréfin með því móti verða óþarflega löng. Ég hefi seð nokkuð mörg byggingarbréf um æfina. Ég hefi séð byggingarbréf, þar sem málsaðilar hafa reynt að taka upp sem mest úr frá 1884, og hefir mér virzt það takast misjafnlega. Og ég hefi líka séð, og sjálfur útbúið, byggingarbréf, þar sem beint hefir verið sagt, að um ráð, sem ekki er sérstaklega tekið fram um í bréfinu, skuli fara eftir ábúðarlögunum. Það er sú regla, sem ég hugsa mér, að sett verði með 3. brtt. minni á þskj. 760. Þá þurfa málsaðiljar ekki að taka annað fram í byggingarbréfinu en hverjir þeir eru, hver jörðin er, sem byggð er, og hver leigumálinn er; um flest annað nægir að vísa til ábúðarlaganna, eða þá taka ekkert fram um það, því að ef ágreiningur verður, er vitanlega úr honum skorið eftir ábúðarlögunum.

Við 9. gr. 1. málsl. hefi ég líka komið með, brtt. Ég skal geta þess, að hún gengur skemmra heldur en ég hefði viljað. En ég bjóst ekki við, að brtt., sem lengra gengi, hefði byr hér í hv. d. Þessi brtt. felur það í sér, að ekkja, sem giftist aftur, eða hennar maður, hafi ekki lengur ábúðarrétt, sem hún hefir fengið eftir fyrri mann sinn. Ég talaði um þetta atr. við 2. umr. og ætla ekki að endurtaka það.

Sömuleiðis hefi ég gert brtt. við 10. gr. Hv. 1. þm. N.-M. hefir flutt brtt. við 9. gr. sem ég er samþykkur, þess efnis, að orðin „eignar og“ falli burtu, þ. e. a. s., ef t. d. faðir tekur jörð úr ábúð handa syni sínum til ábúðar, þá þurfi hann ekki endilega að afhenda honum hana til eignar. En hv. þm. hefir ekki tekið eftir, að þessi orð eru endurtekin í 10. gr. og þurfa að falla niður þar líka, ef brtt. hans er samþ., sem ég vona að verði.

Þar næst hefi ég gert brtt. við 16. gr., um að landsdrottinn, sem lagt hefir til nægileg peningshús, sem eru eru í nothæfu ástandi, en notast ekki lengur vegna breyttra búnaðarhátta á jörðinni, sé ekki skyldur til að láta landseta sínum í té ný hús. Ég held, að ég hafi talað um þetta við 2. umr. Mig minnir, að ég tæki dæmi af því þá, ef landsdrottinn hefði t. d. upphaflega látið landseta sinn fá gott fjós, nýlegt og nægilega stórt fyrir þær kýr, sem þá var hægt að hafa á jörðinni, en svo breytti landsetinn þannig til, að hann fargaði kúnum og keypti sauðfé í staðinn, þá heimtaði hann ný fjárhús af landsdrottni, en fjósið stæði ónotað. Þetta fannst mér ósanngjarnt, að láta landsdrottna verða svo algerlega háða kröfum landseta, að þeir verði að byggja peningshúsin upp af nýju, ef landseta dettur í hug að skipta um búnaðarháttu, þótt það sé á engan hátt jörðinni eða eiganda hennar að kenna.

Brtt. mín við 17. gr. er að vísu lítils virði. En mér finnst óviðfelldið að setja það í lagateksta, að einn maður geti falið öðrum manni að fara með umboð sitt til þess að gera þetta eða hitt, því það er svo sjálfsagt frá sjónarmiði heilbrigðrar skynsemi, að ekki þarf að taka það fram í lögum.

Þá er 8. brtt., við 27. gr. Mér finnst rétt að taka það fram, að það séu einungis skattar og skyldur, sem telja má, að sérstaklega hvíli á leigujörðinni, sem leiguliði á að greiða. Fasteignagjaldið í ríkissjóð hvílir nú t. d. á jörðunum, því það er lögveð í þeim því til tryggingar. Aftur á móti er ómögulegt að segja, að eignarskattur af verðmæti jarðar og tekjuskattur af þeim tekjum, sem eigandinn hefir af henni, hvíli sérstaklega á jörðinni sjálfri. Með brtt. minni vil ég gera það glöggt, að ábúandi eigi aðeins að greiða þá skatta og gjöld af ábúðarjörð sinni, sem eingöngu eru við hana miður, en ekki aðrar eignir eða tekjur jarðeigandans jafnframt.

Þá er í sömu brtt. falin önnur breyt. á 27. gr., sem meiru máli skiptir. Eins og hún er nú orðuð í frv., þá er eftir henni eindagi jarðarafgjalda fyrir fardaga ár hvert. Það er ekki fullkomlega augljóst, hvort gjalddaginn á eftir þessu að vera fyrirfram eða eftir á, en ég þykist vita, að meiningin sé, að hann eigi að vera eftir a. Nú er gert ráð fyrir í frv., að ef leiguliði geldar eigi eftir jörðina næsta missiri eftir að leigan fellur í gjalddaga, þá hafi hann fyrirgert ábúðarrétti sínum frá næstu fardögum. Eftir þessum reglum getur hver óreiðumaður sem vill fengið sér byggða jörð og setið á henni 2 ár, án þess að borga eftir hana einn eyri. Það er fyrst þegar tvö ár eru liðin, sem jarðeigandinn getur losnað við hann af jörðinni. Þetta finnst mér óhæfilegt og réttur landsdrottna með því ofurseldur; ég er viss um, að ýmsir óreiðumenn myndu nota sér það. Ég legg til, að ákvæðunum um þetta verði breytt þannig, að jarðarafgjöld skuli greidd eftir á ár hvert fyrir veturnætur og gjalddagi sé síðasti sumardagur. Þetta er ekki mikil breyt. frá því, sem nú er, því kúgildisleigur á, að mig minnir, að greiða 29. september, en landskuld þar á móti í fardögum eftir á, nema öðruvísi sé um samið. En hausttíminn mun vera einna hentugastur gjalddagi fyrir bændur, því þá hafa þeir venjulega komið í verð afurðum sínum, svo sem ull og kjöti. Það mun því hvorki verða gengið á rétt leiguliða né landsdrottins með því að ákveða gjalddagann síðasta sumardag.

Einnig sú efnisbreyt. felst í þessari brtt., að hafi leiguliði ekki greitt að fullu jarðarafgjöldin fyrir næstu jól eftir eindaga, þá geti landsdrottinn byggt honum út, enda geri hann það fyrir 15. jan. næstan á eftir. Þó að þessi brtt. verði samþ., orkar það að vísu ekki að koma í veg fyrir, að óreiðumenn geti haft jörð til afnota eitt ár án þess að gjalda eftir hana, en þeir geta það þó ekki lengur, ef landsdrottinn notar sér þann rétt, sem í brtt. minni felst.

Brtt. mínar við 29. og 30. gr. eru eðlilegar lagfæringar. Eins og greinarnar eru nú, finnst mér þær ekki falla vel við önnur fyrirmæli frv.; geri ég ráð fyrir, að hv. þm. hafi tekið eftir því, svo ég þurfi ekki að fara nánar út í það.

Þá á ég brtt. við 36. gr. Ég legg til, að er meta skuli upp leigumála, þurfi ekki aðrir um það að fjalla en úttektarmenn. Gerðardómur virðist hér óþarfur, þar sem slíkt mat getur ekki verið vandasamara en að ákveða hæfilegt eftirgjald eftir 1. málsgr. 3. gr. Þetta er ekkert stefnuatr. Eins og gerðardómurinn er skipaður eftir 36. gr. myndu þessir tveir menn, sem aðiljar nefna í dóminn, verða hlutdrægir hver á sína vísu. Reynsla við matsgerðir og fleira hefir sýnt, að slíkir menn skoða sig fremur sent málsvara en óvilhalla dómendur. Málsaðiljum er ekki heldur fyrirmunað að tala sínu máli, þótt úttektarmenn einir framkvæmi matið.

Þá er lítil brtt. við 37. gr. Mér skilst svo, að sá einn leiguliði, sem bjargar reka undan sjó, skuli fá álnarlöng kefli og þar undir. Ef það á að vera aðalreglan, að leiguliði fái einn 1/3 rekans, þá ætti það ekki að fara eftir því, hvort trén eru stór eða lítil. En eigi leiguliði ávallt að fá þessi kefli, á mín brtt. ekki við. Veit ég ekki, hvernig flm. hafa hugsað sér að gera grein fyrir þessu.

Þá er orðabreyt. á 41. gr. Ég álít að úr því að úrlausn úttektarmanna er kölluð „mat“ eigi það einnig við hér.

Þá er 14. brtt., við 44. gr. Mér virðist ákvæði hennar vera helzt til óákveðin í frv. Eftir greininni getur landsdrottinn boðið leiguliða jörð við fasteignamatsverði og árs gjaldfresti til kaups, en vilji leiguliði ekki kaupa, verður hann að víkja fyrir nýjum eiganda. Hér er gert ráð fyrir, að jarðeigandi hafi annan kaupanda, og ef hann selur honum, verður landseti að víkja fyrir honum, en í frv. er ekki tekið fram, með hvaða fyrirvara, en það hlýtur að vera ársfrestur. Ef leiguliða er t. d. boðin jörð til kaups 1. des. á hann að fá frest til 1. des. næsta ár og víkja í næstu fardögum þar á eftir.

Þá er brtt. við 46. gr. Hún er aðeins til skýringar. Í gr. er talað um, að varamaður komi í stað úttektarmanns, en ég vil orða þetta svo, ef hann sé svo nákominn aðilja, að hann mætti eigi dómkveðja til dómsstarfa í máli hans.

Brtt. við 51. gr. eru svo einfaldar, að ég sé ekki ástæðu til að tala um þær. Í a-liðnum felst, að fyrir „fjarnám“ komi „lögtak“. Í enda greinarinnar legg ég til, að orðin „nema á annan hátt hafi verið um samið“, falli niður, þar sem búið er að taka hið sama fram áður. Annars er mér sama, hvort b-liðurinn verður samþ. eða ekki.

Ég hafði sent í prentsmiðjuna brtt. við 9. gr., en hún hefir fallið niður á þskj. Hún er um það, að landsdrottinn megi afhenda jörð tengdabarni sínu, kjörbarni og stjúpbarni. Býst ég við, að enginn hafi móti þessu, hvorki flm. né aðrir, en af því að greinamunur er gerður á þessum vandamönnum og þeim, sem frv. greinir, í fátækralögunum og dómaskipan, er ljósara, að þetta sé tekið fram.

Þá hefi ég flutt orðabreyt. við 6. brtt. landbn. á þskj. 758. Hún virðist hafa ruglazt eitthvað í meðförunum, því að þar stendur, að „úttektarmenn skuli lýsa nákvæmlega stærð og ásigkomulagi húsa, hvað þeim sé áfátt sem fullgildum jarðarhúsum“. Þetta finnst mér að geti ekki staðizt, því að „fullgildum jarðarhúsum“ getur ekki verið áfátt, en meiningin er sú, að úttektarmenn meti, hvað skorti á, að húsin séu fullgild. Orðinu „þau“ er ofaukið á fyrri staðnum, og bið ég hæstv. forseta að athuga það.

Ég vil að endingu vekja athygli á brtt. landbn. á þskj. 765, um að leiguliðabót sé færð úr 1% og 2% í 1/2% og 1%. Ég efast um, að þetta sé til bóta. Eftir gildandi lögum til Skattlags er ætlað 2% af timburbyggingum og 1% af steinbyggingum. Býst ég við, að þetta hafi vakað fyrir flm. og n. og meðan ekki koma fram ný rök, mun ég greiða atkv. á móti brtt. þessari.