10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (4108)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Tilgangurinn með stofnun utanríkismálan. var fyrst og fremst sá, að fá þannig fram stofnun, þar sem allir flokkar gætu mætzt og fylgzt með um meðferð utanríkismálanna. Slík stofnun er eðlileg út frá þeirri staðreynd, að utanríkismálin eru svo vaxin nú orðið, að þau eru ekki lengur deilumál milli flokkanna, og hinsvegar eru þau svo mikilvæg mál, að oft er ekki heppilegt að ræða þau fyrir opnum dyrum, því að opinberar umr. um þau geta leitt til þess, að ýmislegt komist á kvik í blöðum og berist jafnvel út fyrir landsteinana, sem betur færi á, að tægi í þagnargildi. Nú er auðvitað því aðeins hægt að ræða um slíka stofnun sem utanríkismálan., að flokkarnir hafi aðstöðu til að fylgjast með í þessum málum, en eins og stendur hafa jafnaðarmenn engan fulltrúa í n., og vil ég því taka undir það með hæstv. fjmrh. að lýsa gleði minni yfir því, að hv. 2. landsk. hefir látið það í ljós, að jafnaðarmenn muni nú aftur taka þátt í störfum n., því að ég tel víst, að hægt verði að finna eitthvert form til þess, að fulltrúi úr þeirra flokki geti tekið sæti til samstarfs í n.

Út frá því, sem ég áður sagði, að ekki er heppilegt, að umr. um einstök atriði í aðstöðu okkar til erlendra ríkja fari fram fyrir opnum dyrum, teldi ég rétt, að þessum málum yrði vísað til utanríkismálan., enda n. kosin af Alþingi, en af einstökum atriðum, sem fram hafa komið hér í umr. um afstöðu okkar út á við, vil ég geta þess viðvíkjandi kjöttollssamningunum, að þeim var sagt upp 1. febr. síðastl., með þriggja mánaða fyrirvara, en hafa nú fengizt framlengdir til 1. júlí í sumar. Um það, hvort þessi framtenging boðar annað og meira í málinu, verður ekki fullyrt, en hitt er mér óhætt að fullyrða, að unnið er að málinu eins vel og unnt er af fulltrúa okkar í Kaupmannahöfn.