10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (4112)

223. mál, viðskiptasamningar við erlend ríki

Bjarni Ásgeirsson:

Það mætti líta svo á, að það væri yfirgangur af utanríkismálanefnd að draga til sín fleiri mál en þau, sem hún verður nauðsynlega að láta til sín taka. Mér virðist þó, að ef nokkurt gagn er í skipun þessarar n., þá eigi hún að hafa með höndum meðferð mála sem þessara, er hér ræðir um. Ég vil því leggja það til, að annaðhvort sé n. falið þetta mál, eða þá blátt áfram, að n. verði lögð niður. (Forsrh.: Það er komin fram till. um að vísa málinu til nefndarinnar). Ef utanríkismálanefnd getur ekki annazt starf eins og þetta, þá sé ég ekki, að hún hafi neitt að þýða.

Með þessari till. hefir aðallega verið haft á móti því, að einn stjórnmálaflokkurinn hefði ekki fulltrúa í utanríkismálanefnd og þess vegna sé svo fyrir mælt í till., að leita skuli álits fulltrúa flokkanna um þessi mál. En nú hefir hæstv. stjórn lýst því yfir, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að sá flokkur, sem nú er utan við n., fái fulltrúa í henni. Út af þessu vil ég taka það fram, að það er síður en svo, að ég hafi á móti því. Ég álít þvert á móti mjög eðlilegt, sérstaklega um þessi mál, að allir þingflokkar eigi sinn fulltrúa til að vinna að slíkum málum. Það skal ekki standa á mér að gefa eftir mitt sæti í n. til að þetta geti orðið.

Í till. eins og hún liggur fyrir nú eru aðeins tilnefnd einstök ríki, en ég álít, að á þessum tímum veiti ekki af, að við höfum augun opin fyrir öllu, sem okkur má að gagni koma. Við eigum að gefa gaum að öllum ríkjum, sem við höfum einhver viðskipti við, en ekki binda okkur eingöngu við England og Rússland. Ég vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við till., þar sem það er tekið fram, sem ég álít, að eigi að felast í till. eins og þessari.