18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (4292)

634. mál, húsaleigustyrkur handa gagnfræðaskólum

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Í lögum um gagnfræðaskóla er svo fyrir mælt, að ríkissjóður skuli greiðá 2/5 hluta af stofnkostnaði gagnfræðaskólanna, sem aðallega mundi verða kostnaðurinn við að byggja yfir þá. En það er enn óvíða eða hvergi, að byggt hafi verið yfir gagnfræðaskóla, og meðan svo er, verða þeir að vera sér úti um húsnæði á annan hátt, stundum að vísu í byggingum, sem kaupstaðirnir eiga, en stundum verða þeir að leigja húsnæði hjá öðrum og gjalda fyrir hátt verð. Nú þykir sanngjarnt, þar sem ríkissjóður mun ekki vera við því búinn að leggja fram fé til að byggja yfir alla gagnfræðaskóla á næstunni, að hann greiði á meðan tilsvarandi hluta af leigunni eftir húsnæði þeirra, miðað við það, sem hann á að greiða af verði bygginganna á sínum tíma. Flestir gagnfræðaskólarnir munu hafa sótt um slíkan húsaleigustyrk til stj., og eftir því, sem ég veit bezt, fengið góðar undirtektir og jafnvel ádrátt. Þó hefir þetta fé ekki fengizt greitt og síðustu svör stj. munu hafa orðið þau, að þó að þessi tilmæli væru sanngjörn, þá væri ekki full heimild til þess í lögum að verða við þeim. Ég hygg því, að ef þessi till. fæst samþ., þá muni ekki standa á stj. að greiða styrkinn. Ég vona, að ekki verði ágreiningur um það í hv. d., að hér sé um sanngjarna kröfu að ræða, sérstaklega þegar þess er gætt, að með gagnfræðaskólalögunum voru lagðar allþungar kvaðir á bæjarfélögin, sem að sumu leyti eru ekki allskostar sanngjarnar, miðað við þau kjör, sem héraðsskólunum eru búin. Um það ætla ég ekki að ræða frekar, en vona, að till. fái góðar undirtektir og að hún gangi fyrirstöðulaust til 2. umr. og síðan áfram.