10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (4334)

540. mál, áfengisbruggun og önnur áfengislagabrot

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þegar bannlögin voru sett fyrir hér um bil aldarfjórðungi síðan, er enginn vafi á því, að sá mikli meiri hl. þjóðarinnar, sem greiddi þeim atkv., ætlaðist til, að með þeim yrði áfenginu útrýmt úr landinu. En það er ekki til neins að neita því, að mikið vantar á, að svo hafi orðið. Þetta játa allir, hvort sem þeir eru með eða móti banni.

Höfuðmeinsemdirnar, sem hafa rýrt gildi bannlaganna, eru Spánarvínaundanþágan og áfengiseinkasala ríkisins, sem rekin er eins og gróðafyrirtæki ríkissjóði til hagnaðar. Í skjóli áfengisverzlunarinnar þróast svo allskonar brot á áfengislögunum, sem torvelt er að útrýma eða koma í veg fyrir. Og það verður að viðurkennast, að meðan Spánarvínaundanþágan er í gildi, þá næst aldrei það takmark, sem stefnt var að með bannlögunum. En þó tjáir ekki að neita því, að með sæmilega ströngum lögum og fullkomnu eftirliti um að þeim sé hlýtt má draga mikið úr drykkjuskaparóreglunni í landinu og hafa hemil á ýmiskonar siðleysi, sem henni er samfara, og það má koma í veg fyrir brot á áfengislögunum miklu meira en gert er. Ég skal í þessu sambandi benda á, að bætt hefir verið úr nokkrum göllum, sem voru á bannlögunum, með því að herða á refsiákvæðum og auka eftirlitið með framkvæmd laganna. Hinar ströngu reglur, sem læknum og lyfjabúðum hafa verið settar um meðferð áfengis, hafa dregið mikið úr notkun læknabrennivínsins í landinu, og með auknu eftirliti á skipunum hefir nálega tekizt að útiloka vín um borð í skipum, sem sigla með ströndum fram, og þurrka strandferðaskipin. En það, hvernig farið hefir um þessi tvö atriði, er sönnun þess, að halda má áfengislögunum í heiðri með sæmilega röggsamlegu eftirliti, þrátt fyrir Spánarvínaundanþáguna og áfengisverzlunina. Eitt vil ég taka fram, að þrátt fyrir þá þverbresti, sem verið hafa á áfengislöggjöfinni og eftirlitinu, þá verður því ekki neitað, að drykkjuskapurinn hefir stórum minnkað hér á landi og er miklu minni en í þeim löndum, sem áfengi er látið frjálst í. Það má segja, að heilar stéttir hér á landi hafi ekkert vín um hönd. Allur þorrinn af verkamönnum við landvinnu drekkur ekki vín, og heil héruð á landinu eru þurr, þannig að þar sést varla áfengi, þrátt fyrir það, þó eftirlitið sé víða lítið eða ekkert. Ég segi þetta ekki til þess að gera lítið úr brotum á áfengislögunum fyrir augum hv. þm. Þau brot eru stórfelld meðal vissra stétta þjóðfélagsins víðsvegar um landið. En jafnframt því, að við athugum gallana á framkvæmd áfengislaganna og afleiðingar þeirra, þá verður líka að gera sér ljósa grein fyrir því og viðurkenna það, sem unnizt hefir, borið saman við það, ef engin bannlög eða áfengislög hefðu verið sett.

Hér í þessari hv. þd. hefir talsvert verið rætt um áfengismálin og um það, hversu drykkjuskapurinn er ískyggilega mikill í landinu. Og ýmsir þdm. hafa bent á næsta undarleg ráð til bóta á þeim ófögnuði. Hér í Nd. hafa nokkrir þm. flutt tvö frv. um áfengismálin. Hið fyrra um að leyfa ölgerð og sölumeðferð á sterku, áfengu öli, en hið síðara um að leyfa innflutning á sterkum vínum, svo sem brennivíni, whisky o. þ. h. Hv. flm. beggja þessara frv. hafa aðallega borið það fram til stuðnings sínu máli, að með þessum frv. vildu þeir bæta úr drykkjuskaparóreglunni í landinu. Sumir þeirra hafa haldið því fram, að þau leiddu til þess að minnka drykkjuskapinn, aðrir að þau myndu draga mikið úr áfengisbruggun í landinu, og allir hafa þeir haldið því fram, að vínsmyglun mundi þverra.

Ég hygg, að engum heilskyggnum manni geti dottið í hug, að drykkjuskapur minnki í landinu, ef þessi frv. verða að lögum. Með því að leyfa bruggun á sterku öli í landinu hlýtur að verða meira drukkið af áfengi. Og verði leyfður innflutningur á sterkum vínum, til viðbótar þeim, sem fyrir eru, hlýtur drykkjuskaparóregla að aukast. Ég lít svo á, að gera þurfi allt aðrar ráðstafanir til þess að draga úr víndrykkju landsmanna. Reynslan hefir sýnt og sannað, að allar tilslakanir á áfengislöggjöfinni, hafa leitt til þess eins að auka drykkjuskap í landinu og brot á lögunum sjálfum. En á hitt hefi ég áður bent, að í hvert skipti, sem röggsamlega hefir verið gripið í taumana og hert á eftirliti með bannlögunum, þá hefir það borið góðan árangur. Ég hefi nefnt þar t. d. læknabrennivínið og takmörkun á áfengisútlátum lyfjabúða og um útrýming vínsölu á skipum hér við land, og er þá talið það tvennt, sem mestum spjöllum olli á fyrri árum á bannlögunum, að undanskildri vínsmygluninni, sem þó hefir talsvert verið hamlað á móti á síðari árum. Nú á síðustu missirum hefir tvennt annað bætzt við, en það er áfengisbruggunin í landinu og launsala á áfengi, og á ég þar við vínsölu þeirra manna, sem ekki hafa opinbert vínsöluleyfi, og sölu þeirra, sem vínveitingaleyfi hafa, á þeim tímum, þegar vínsala er ekki leyfð. Þetta hefir langmest aukið drykkjuskapinn í landinu upp á síðkastið. Hvorttveggja hefir þróazt í skjóli hinnar lögleyfðu vínsölu ríkisins. Víst er launsalan ill, en þó munu flestir telja, að heimabruggunin sé erfiðust viðfangs. Þeir, sem bezt þekkja til, munu játa, að það sé tiltölulega auðvelt að hamla á móti vínsmyglun, ef eftirlitið er röggsamlegt. Það kom í ljós þegar lögreglustjórarnir framkvæmdu fyrirskipanir stjórnarráðsins um eftirlit með því, að vín væri ekki selt í skipunum, hvað umskiptin voru mikil og gagngerð, a. m. k. sumstaðar á landinu. Ég get t. d. um það nefnt kjördæmi mitt, Seyðisfjörð. Síðastl. ár þar til um haustið í nóvember var eftirlit með áfengislögunum þar falið sérstökum löggæzlumanni, og reyndist það svo, að ekkert bar á drykkjuskap í sambandi við skipakomur. Þó að erlend skip kæmu þar inn, varð enginn var við vín úr þeim. Í nóv. síðastl. var svo þessi maður látinn fara, sennilega af „sparnaðarástæðum“, og nú er ekki nema einn eftirlitsmaður í öllum Austfirðingafjórðungi. Eftir að þessi tollþjónn eða gæzlumaður fór frá Seyðisfirði, streymdi vínið þar aftur í land úr erlendum skipum, svo að stórkostlega ber á drykkjuskap eftir komu erlendra skipa. Þetta eina dæmi sýnir það glöggt, að fullkomið eftirlit getur komið að verulegu gagni gagnvart áfengissmyglun. Að því er snertir vínsölu á veitingahúsum utan hins leyfilega sölutíma, þá er mér sagt, að á stærsta hótelinu hér í bænum, sem hefir vínveitingaleyfi, hafi þessi óleyfilega sala stöðvazt, þegar skipaður var sérstakur gæzlumaður til þess að hafa eftirlit með vínsölunni og loka fyrir vínbirgðirnar á tilsettum tíma. Þetta bendir einnig á það, að með öflugum ráðstöfunum sé hægt að fyrirbyggja launsöluna á víninu.

Það er enginn vafi á því, að mikið hefir dregið úr vínsmyglun til landsins síðan Eimskipafél. Íslands tók upp þá reglu að vísa þeim skipverjum burt af skipunum, sem urðu uppvísir að vínsmyglun, enda er það skiljanlegt, að starfsmenn á skipunum vilji ekki eiga slíkt á hættu. Ég tel víst, að hægt sé að semja við hin eimskipafélögin, Sameinaða fél. og Bergenska fél., sem hafa skip í förum hér við land, um að taka upp sömu reglu og vísa úr vistinni þeim skipverjum, sem sekir verða um vínsmyglun. Og þá eru aðeins eftir vöruflutningaskip og fiskiskip, sem hægt væri að hafa undir ströngu eftirliti stjórnarvalda, lögreglustjóra og tollþjóna. Á þennan hátt ætti að mega með aukinni röggsemi draga úr þessu tvennu, launsölu og smyglun áfengis.

Um heimabruggið er mér ekki eins kunnugt, en mér virðist, að löggæzlumennirnir í landinu hreyfi hvorki hönd né fót til þess að hefta það, nema þá helzt hér í Reykjavík. Ég veit, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefir oft skotið vínbruggurunum skelk í bringu, og þó er hér örðugast að fást við það eftirlit og rannsóknir, vegna fjölmennis í bænum og annríkis á verksviði lögreglustjóra. Þess vegna vil ég skjóta því til stj. að taka til athugunar, hvort ekki muni vera rétt að skipa sérstakan rannsóknardómara til að annast rannsóknir í málum, er rísa af áfengislagabrotum þar, sem annríki lögreglustjóranna er mest. Það segir sig sjálft, eins og ég áður benti á, að þegar lögreglustjórarnir utan Rvíkur hreyfa hvorki hönd né fót til þess að sporna við brugguninni, þá er það næstum furðulegt, að ekki skuli vera gert miklu meira að henni en nú er. Úti um sveitir er því þannig háttað, að þar er ómögulegt að fara leynt með, ef bruggað er áfengi og selt í atvinnuskyni. Þess vegna er engu hægt um að kenna öðru en slóðaskap og sinnuleysi stjórnarvalda og lögreglustjóra, ef atvinnubruggunin heldur þar áfram.

Aðalefni þessarar þáltill. er því að skora á stj. að leggja fyrir lögreglustjóra að ganga röggsamlega fram í því að uppræta áfengisbruggunina í landinu. Sú uppástunga, sem ég varpaði fram um sérstakan eftirlitsmann með áfengismálum hér í Reykjavík, er aðeins frá mér einum. En þó hygg ég, að meðflm. mínir að þáltill. muni vera mér sammála um hana. Verði hinsvegar ekkert að gert í þessum efnum, og ef ríkisstj., lögreglustjórar og hreppstjórar halda áfram að loka augunum fyrir vínbrugguninni í landinu, þá er sennilegt, að andbanningar, sem vilja eyðileggja áfengislöggjöfina og allar varnir gegn drykkjuskap í landinu, fái vilja sínum framgengt fyrr en varir. Þeim virðist vera það kappsmál, að áfengislögunum sé ekki framfylgt, til þess að almenningur hætti að meta þau að nokkru. Kenna svo lögunum um drykkjuskapinn og áfengisbruggunina í landinu og telja fólkinu trú um það, til þess að lögin verði dæmd dauð og gagnslaus, þegar tækifæri gefst til að bera þau undir þjóðaratkvæði. Þeir, sem vilja afnema áfengislöggjöfina sem fyrst, byggja vonir sínar á því, að lögin verði að engu höfð af þeim, sem eiga að framfylgja þeim. Bannlögin voru upphaflega sett samkv. kröfu mikils meiri hl. þjóðarinnar; síðan var veitt Spánarvínaundanþágan að þjóðinni fornspurðri, og það var stærsta skemmdarverkið á lögunum. En þegar um er að ræða lög, sem sett eru samkv. óskum meiri hl. þjóðarinnar við almenna atkvgr., þá verður að krefjast þess, að stjórnarvöld landsins geri sitt ýtrasta til þess að hafa eftirlit með því, að lögunum sé framfylgt. Annað væri að svíkjast um að verða við yfirlýstum vilja þjóðarinnar.

Hér er komin fram till. frá hv. 1. þm. Reykv., á þskj. 665, um það, að leyfa ekki veitingu áfengra drykkja á veitingahúsum eftir kl. 9 að kvöldi. Ég er samþ. þeirri till. og hygg, að hinir flm. séu það líka. Þegar það fréttist, að stj. hefði lengt vínsölutímann að kvöldinu, var það öllum vitanlegt, að það mundi auka mjög á sölu vína og þar af leiðandi drykkjuskap.

Brtt. hv. þm. Dal. á þskj. 679 get ég ekki greitt atkv., nema þá að ég fái frekari skýringu á því, hvað við er átt með henni, en það þykir mér ekki vera ljóst. Þar stendur: „Ef sennilegt þykir, að sú breyting frá núverandi tilhögun komi til leiðar hóflegri vínnautn“. Hér stendur ekkert um það, hver dæma á um þetta. Líklega er það ríkisstj., en á það má þá benda, að hún hefir þegar fellt sinn dóm, þar sem hún hefir fært til vínsölutímann, og er það gagnstætt því, sem ég vildi láta dóminn falla. Ef það er hóteleigandinn, sem um þetta á að dæma, þá er auðsætt, hvernig sá dómur mundi falla. Vitanlega er það hans hagur að selja sem mest. Eins mundi það sennilega verða með áfengisneytendur, sem gjarnan vilja drekka lengur. Það er ekkert sagt um það, hver á að dæma, en ég bíð eftir upplýsingum um það. Og eitt enn: Hvað er átt við með „hóflegri áfengisnautn“?

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar till. En í þessu sambandi vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. stj., hvort hún muni ekki sjá sér fært að setja reglur um sölu pressugers hér á landi. Mér er sagt, að með sölu þess og notkun sé það gert auðvelt að brugga áfengi. Ég vil því spyrja stj., hvað hún telur sér fært að gera í þessu; hvort hún telur sig þurfa lagasetningu til þess að takmarka þá sölu, eða hvort hún treystir sér til að gera það t. d. í sambandi við áfengisverzlun ríkisins, eða þá með bráðabirgðalögum.