29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í C-deild Alþingistíðinda. (4350)

154. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 2. þm. Reykv. dró þá ályktun af fyrri ræðu minni, að ef þetta embætti hefði ekki komið að því gagni, sem til var ætlazt, þá væri fjmrh. um að kenna, en ekki eftirlitsmanninum. Þetta er svipuð ályktun og að segja, að hv. þm. væri lélegur lögfræðikennari og draga það af því, að einhver, sem hann hefði kennt lögvísi, reyndist lélegur lögfræðingur.

Það er ekki rétt, að ég hafi hér blandað saman malefni og manni. Ég hefi aðeins sagt, að embættið hefði ekki komið að notum, en nefndi ekkert, hvort það væri manninum eða fyrirkomulaginu að kenna.

Hv. þm. spurði mig, hvort ætti að leggja okkar stöður niður, ef einhver kvartaði um, að embætti okkar kæmu ekki að gagni. ég vil svara honum því til, að ef almenn kvörtun kæmi fram um það í landinu, að stöður okkar eða embætti kæmu ekki að neinu liði, þá, býst ég við, að við myndum báðir heldur kjósa þann kostinn að álykta, að fyrirkomulagi embætta okkar væri um að kenna, heldur en því, að við værum að öllu óhæfir til að gegna þeim.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði viðurkennt, að eftirlitið væri bráðnauðsynlegt. ég sagði það alls ekki, heldur sagði ég, að ég gæti ímyndað mér, að eftirlitið ætti í vissum tilfellum að geta komið að gagni, en í þeim tilfellum, sem komið hafa fyrir að undanförnu og hafa verið bæði alvarleg og þýðingarmikil og vel til þess fallin, að þetta embætti hefði sýnt notagildi sitt, hefir ekki sézt nokkur minnsti árangur af þessu starfi.

Hv. 2. þm. Skagf. sagðist upphaflega hafa verið á móti stofnun þessa embættis. Fyrst svo er, þá eigum við flm. þar vísan stuðning í þessu máli, því að ég get ekki ímyndað mér, að nokkur maður, sem var á móti stofnun embættisins, áliti það nú nauðsynlegt, eftir þá reynslu, sem fengin er af því.

Þá var hv. þm. G.-K. aftur að staglast á því, að Framsóknarflokkurinn hefði lagt mikla áherzlu á að ná völdum og yfirráðum yfir bönkum landsins, og þess vegna væri mjög óviðeigandi fyrir hann að leggja niður þetta eftirlitsmannsembætti með bönkunum. Ég sagði það áðan í minni fyrri ræðu, að ef þetta embætti kemur ekki að neinu haldi, eins og reynslan því miður bendir til, þá er verra að láta það haldast að forminu heldur en að hafa það ekki. (ÓTh: Hvað sagði hæstv. fjmrh. um það?). Ég kem að því síðar. Það hefir skaðlegar afleiðingar að halda við embætti, sem reynzt hefir gagnslaust, og ætla að treysta á það; þess vegna viljum við leggja það niður og afla upplýsinga um hag banka og sparisjóða á annan hátt. því að það hefir líka þráfaldlega sýnt sig undanfarið, að frá núv. eftirliti er engrar hjalpar að vænta og engar upplýsingar hefir það gefið í tæka tíð til þings og stjórnar, þegar bankastofnanir voru að komast í þrot. Ég skal ekkert deila við hv. þm. G.-K. um, hvað hann hafi sagt þessu viðvíkjandi; ég get verið ánægður með, að hann hefir nú fallizt á, að embættið hafi verið vanrækt.

Mér þykir það einkennilegt, ef ekkert má leggja upp úr því, sem stjórnir banka og sparisjóða segja um þetta eftirlitsstarf, vegna þess að eftirlitið sé á þá sjálfa og þeim til höfuðs. Ég get ekki hugsað mér annað en að bankastjórar tækju fegins hendi við því eftirliti, sem þeir álitu einhverja stoð í fyrir stofnanirnar og almenning, hvaðan sem það kæmi., Ég ber það traust til bankastjóra okkar yfirleitt, að þeir meti réttlatlega, hvað bönkunum má að gagni verða í þessu efni.

Þá sagði hv. þm. G.-K., að eftir því sem við flm. þessa frv. hefðum talað, þá gætum við ekki ætlazt til, að starfið yrði lagt niður, heldur að sá maður, sem því gegnir nú, verði latinn fara og starfið betur rækt eftirleiðis. Ég skal ekki deila um það, hvernig sá maður, sem gegnir þessu starfi nú, er hæfur til þess, en ég er sannfærður um, að ef á að rækja þetta starf vel, þá þarf eftirlitsmaðurinn að hafa sérþekkingu í þessum efnum og helga starfinu alla sína krafta, en blanda sér ekki við önnur störf. Ég geri ráð fyrir, að við eigum ekki völ á mörgum mönnum, sem til þess séu kjörnir, þegar frá eru taldir bankastjórar og æfðir yfirmenn í bönkunum.

Hv. þm. G.-K. taldi það lítilsvert, þó að bankaeftirlitsmaðurinn gæti gefið bönkum og sparisjóðum upplýsingar um innieignir einstaklinga eða ábyrgðir þeirra og skuldbindingar í öðrum bönkum og annað, er orðið gæti þeim til leiðbeiningar við útlánastarfsemina, en ég hygg, að þetta sé einmitt verulegt atriði, sem ætti að geta komið að gagni, ef lögð væri rækt við það. Ef það á að vera aðalatriðið í starfi eftirlitsmannsins að gefa fjmrh. á hverjum tíma upplýsingar um hag banka og sparisjóða, þá hefir það aðalatriði verið hrapallega vanrækt. Hv. þm. G.-K. sagði, að þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. hefði gefið um störf eftirlitsmannsins, hefðu gefið það til kynna, að þetta frv. okkar væri einber vitleysa. Ég heyrði það nú ekki á ræðu hæstv. ráðh., en hinsvegar

lýsti hann yfir því, að eftirlitsmanninum hefði aldrei verið sett neitt erindisbréf, og verður því varla öðruvísi á það litið en að aðalstarf eftirlitsmannsins hafi verið að hirða laun sin. (ÓTh: Þetta er hörð áras á Framsóknarstjórnina). Ég hugsa, að þessi hv. þm. sé nú ekki ákaflega hörundssár fyrir því, ef svo væri. — Þá hafði hv. þm. Það eftir hæstv. fjmrh., að eftir að bankaeftirlitsmaðurinn hefði látið uppi álit sitt um ástæður Útvegsbankans í vetur, þá hefði stjórnin getað ráðið ráðum sínum betur en ella. Hv. þm. vildi leggja ákaflega mikið upp úr þessu. Ég skrifaði orð hæstv. ráðh. eftir honum, og fann ég ekki, að í þeim fælust sérlega sterk rök fyrir því, að álit eftirlitsmannsins hefði verið merkilegt. Það felst ekki mikið í því, þó að sagt sé, að betra hafi verið að ráða ráðum sínum að fengnum einhverjum upplýsingum en ella. Þær upplýsingar gátu vel hafa komið, þótt embættið væri ekki til. Hv. þm. G.-K. sagði ennfremur, að þetta eftirlitsembætti hefði verið rækt þannig, að ekki væri ástæða til að kvarta yfir því og vill hann láta halda því í sama horfi og áður. En hv. þm. getur á engan hátt samræmt það við fyrri ummæli sín um sama efni, og segir það vitanlega nú eingöngu vegna þess, að hann sér þó að nú, að á annan veg er ekki hægt að réttlæta mótstöðu gegn afnámi embættisins.

Að lokum skal ég minnast á fjármálahugleiðingar hv. þm. G.-K. í sambandi við þetta frv. Hv. þm. gerði lítið úr því, að ráðstafanir eins og þessi um fækkun embætta yrði til þess að draga úr fjármálaóreiðu ríkisins, eins og hann orðaði það. (ÓTh: Þessa eina embættis). Já, við skulum segja það, en ef hv. þm. vill fylgja okkur um sparnað á þessu embætti og á fleiri sviðum, þá mundi það koma að verulegu haldi fyrir ríkissjóð. Hv. þm. hefir oft talað um fjármalaspillingu ríkisins hér í þessari hv. þd., en ég hygg, að sú fjármálaspilling komi víðar fram en gagnvart ríkissjóði. Má í því sambandi t. d. benda á fjármeðferð bankanna og ýmsra viðskiptamanna þeirra. Sá sparnaður; sem þetta frv. hefir í for með sér, á því að geta komið að fullu gagni, þó að bankarnir njóti þess jafnframt að nokkru leyti.