06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í C-deild Alþingistíðinda. (4422)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Við flm. þessa frv. lítm svo á, að það hafi sýnt sig, að sú heimild, sem veitt var ríkisstjórn með 1. frá 1905 og 1907 til þess að selja jarðir úr eign hins opinbera, þjóðjarðir og kirkjujarðir, án sérstakrar heimildar þingsins í hvert skipti, hafi ekki orðið til hagsbóta fyrir þjóðina sem heild, heldur þvert á móti hafi hún orðið til þess, að þjóðfélagið hefir verið rúið verðmætum eignum og að það sé fátækara eftir en áður. Það var látið í veðri vaka þegar þessi lög voru samþ., að með þeim ætti að stuðla að því, að sem flestir íslenzkir bændur gætu orðið sjálfseignarbændur, og var svo lítið á af mörgum þá, að með því væri landbúnaðinum komið í bezt horf. nú hefir það sýnt sig, að það fer fjarri því, að þessi ráðstöfun hafi náð tilætluðum árangri. Ég skal ekki ræða um það að svo stöddu, hvort það sé heppilegt að stefna að því, að sem flestir bændur eigi jarðir sínar, en benda á, hvaða áhrif jarðasala hins opinbera hefir haft í þá átt, eftir nýjustu skýrslum um þetta efni, sem gerðar eru eftir fasteignamati því, sem gert var á árunum 1916–18. Eftir því telst svo til, að leiguliðar á opinberum eignum hafi verið 1234, leiguliðar á jarðeignum einstaklinga 2328 og sjálfseignarbændur alls á landinu öllu 3212. Bændur eru samtals taldir rétt í kringum 6700 á öllu landinu. Af þeim voru aðeins 47% sjálfseignarbændur, eða nokkuð innan við helming. 53% voru leiguliðar. Síðan þessi skýrsla var samin kann að hafa orðið einhver breyt. á þessu, en áreiðanlega ekki meiri en svo, að enn er fullur helmingur íslenzkra bænda leiguliðar, og af þeim helming mun láta nærri, að tveir fimmtu hlutar búi á jörðum, sem eru í eigu hins opinbera, að meðtöldum jarðeignum sveitarfélaga og sýslufélaga. Samkv. sama fasteignamati eru jarðeignir ríkissjóðs metnar á 3600 þús. kr. Jarðeignir einstakra manna á sama tíma eru metnar 18200 þús. kr. Af þeim lætur nærri, að tvær af hverjum fimm hafi verið í leiguábúð.

Við flm. þessa frv. lítum svo á, ég hygg báðir, að hagur bænda væri bezt tryggður í raun og veru, ef allar jarðir væru í eign hins opinbera. Hvort sveitarfélögin, sýslufélögin eða ríkissjóður ætti þær, skiptir að okkar hyggju minna máli; það er aðeins fyrirkomulagsatriði, sem alltaf má um ræða.

Þá kem ég að því, hvort heppilegt sé að jarðirnar séu einkaeign. Eins og ég sagði áðan, er talið, að nálega helmingur bænda hér á landi séu sjálfseignarbændur. En í raun og veru eiga flestir þeirra ekki jarðir sínar nema í orði kveðnu. Þeir eru svo hlaðnir skuldum, að þeir eru jafnvel verr settir sumir hverjir, og því miður allt of margir, heldur en þó þeir væru leiguliðar. Aðalgallinn á einstaklingseign á landi yfirleitt, hvort sem heldur er um að ræða jarðir eða lóðir, er frá sjónarmiði okkar flm. þó sá, að hverskonar umbætur, sem gerðar eru á landinu, hvort heldur sem er fyrir atbeina eigandans sjálfs eða tilverknað hins opinbera, og í öðru lagi sú verðhækkun, sem stafar af fólksfjölguninni eða hagnýtingu gæða, sem áður hafa verið óþekkt eða menn ekki kunnað að færa sér í nyt, allt þetta kemur fram sem skattur á þá, sem landið nytja. Verðhækkunin rennur öll til einstakra manna, sem síðan við eigendaskipti taka hana í hækkuðu söluverði eða, ef um leigu er að ræða, í hækkuðu eftirgjaldi. Þetta vita menn og því reyna margir hverjir að ná í gróða á þann hátt að sprengja verð landsins meira upp heldur en svarar til hins aukna verðmætis og þeirrar verðhækkunar, sem landið getur þar af leiðandi borið. Segir sig þá sjálft, að landeignin verður þeim til byrði, sem hana vill nota. Þess eru mörg dæmi, t. d. þar, sem hið opinbera hefir lagt veg um hérað, að jarðirnar þar hafa verið sprengdar upp í fjárgróðaskyni meira heldur en það, sem svarar til aukins afrakstrar þeirra vegna vegarins, og hefir þar af leiðandi orðið verra að búa á heim eftir en áður. En jafnvel þó ekki sé gengið svona langt, þó verið jarðanna hækki ekki meira en svarar til aukinna framleiðslumöguleika, þá liggur það í augum uppi, að ef þetta tvennt, auknir afurðamöguleikar og verðhækkun jarðarinnar, helzt í hendur, þá eru þeir, sem jarðirnar sitja, engu betur staddir þrátt fyrir umbæturnar heldur en þeir, sem jarðirnar sátu áður. Það, sem jarðirnar gefa af sér fram yfir það, sem áður var, fer þá allt í vexti og afborganir af verðhækkuninni, eða í hækkaða leigu, ef þær eru ekki í sjálfsábúð, því að maður verður að gera ráð fyrir, að jarðirnar haldist ekki alltaf í eigu sömu manna. Eftir skýrslum lætur nærri, að jarðir hér á landi skipti um eigendur að meðaltali á 15 til 20 ára fresti. Eftir fasteignamati mun verð allra jarða hér á landi vera um 30 millj. kr. Setjum svo, að þær gengju allar kaupum og sölu einu sinni á hverjum 15 árum. Það svarar til þess, að bændur þurfi að greiða tvær millj, kr. á ári í afborganir af verði jarðanna, auk allra vaxta.

Ég skal svo ekki hafa þetta forspjall mitt lengra. Það, sem ég hér hefi sagt um jarðir og verðhækkun þeirra, gildir líka um lóðir í kaupstöðum, og það þó öllu frekar, því að þar hefir verðhækkunin orðið miklu stórfelldari en í sveitum, vegna hinnar miklu fólksfjölgunar þar og af því þar hafa sameiginlegar umbætur, sem auka verðmæti lóðanna, verið stórfelldari en í sveitunum. Nægir í því sambandi að minna á lóðaverðið hér í Rvík, sem mun vera komið upp í 300 kr. fyrir hvern fermetra þar sem það er hæst.

Ég vil mælast til, að frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr.

Ég skal taka það fram að lokum, að við lítum svo á flm. frv., að með því að setja sæmilega ábúðarlöggjöf sé auðvelt að tryggja ábúendum á jörðum hins opinbera fullan afnotarétt á þeim og að arðurinn af öllum umbótum þeirra á jörðunum falli þeim sjálfum og afkomendum þeirra í skaut. Við játum það, að eins og ábúðarlöggjöfin er nú, er þessi réttur leiguliða ekki nægilega tryggður. þess vegna flytjum við jafnframt þessu frv. till. til þál. um að skora á hæstv. stj. að undirbúa ný lög um ábúð á jörðum hins opinbera. Við lítum í sjálfu sér svo á, að æskilegra sé að setja sérstök lög um þetta efni, en mundum þó ekki hafa á móti því, að settur væri sérstakur kafli um það inn í ábúðarlögin. Í frv. því til ábúðarlaga, sem nú liggur fyrir þinginu, er ekki gerður sérstakur munur á, hvort jarðirnar eru í eigu einstaklinga eða ekki, og ekki tekið sérstakt tillit til landseta hins opinbera.