11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

7. mál, lax- og silungsveiði

Magnús Torfason:

Það eru aðeins örfá orð út af ákvæði 2. gr. frv., þar sem lagðar eru hömlur a, að menn skilji veiðirétt frá jörðum. Hv. 4. landsk. gerði þetta ákvæði að umtalsefni og taldi það stjórnarskrárbrot. Ég vil aðeins geta þess, að í 6. gr. vatnalaganna er ákvæði um það, að ekki megi skilja frá jörð vatn til heimilisþarfa, búsþarfa og jarðræktar. Ákvæði, sem miða í sömu átt og ákvæði 3. gr. frv., eru því til í löggjöfinni. Þó er ég ekki að segja, að þau falli alveg saman, en þau víkja að sama punkti. Ákvæði það, sem hér er um deilt, getur haft mjög mikla þýðingu, svo mikla, að óhætt mun að fullyrða, að jarðir, sem veiðirétt hafa, myndu margar hverjar fara í eyði, ef hann yrði af þeim tekinn. Mér er t. d. óhætt að segja, að sumar jarðir í Grafningi og Þingvallasveit myndu ekki vera byggðar, ef veiðirétturinn hefði verið af þeim tekinn. Eins og menn vita, er ófögnuður mikill af mýbiti í Grafningnum. Kveður svo mjög að þessu, að ókunnugir fast tæplega í vinnu austur þangað; menn vilja nefnil. ógjarnan leggja sig undir varginn. Það er því það eina, sem heldur mönnum við jarðirnar þarna, að gnægð góðfiskjar er í vötnunum. Yrði veiðirétturinn tekinn frá þeim, myndu þær þegar fara í eyði. Það þarf því ekki að lýsa því, hvaða ófarnaður það yrði fyrir hlutaðeigandi hreppsfélög, ef þetta yrði gert. En eins og vitanlegt er, eru menn alltaf meira og minna að seilast eftir veiðirétti hér á landi, og því mætti búast við, að það færi í vöxt, að veiðiréttur væri tekinn frá jörðum, ef ekki verða setta sérstakar hömlur gegn því.

Ég get verið sammála hv. 4. landsk. um það, að frv. Þetta viki að því, að gera veiðina jafnari í ánum; þó myndi ekki svo verða alstaðar. Ég er t. d. ekki í vafa um, að það yrði veitt eins mikið í Ölfusá upp að Sogi og nú, ef þá ekki meira.

Það, sem okkur, hv. 4. landsk. og mig, greinir á um, er það, hvort bændur þeir, er ofar búa við árnar, meti meira að afla sér lítilfjörlegra húsþæginda í svipinn, heldur en að vernda veiðina fyrir framtíðina. — Ég sagðist hafa litla trú á því, að bændur væru svo skammsýnir að sópa árnar fyrir litla stundarhagsmuni. Ég sé því ekki betur en að ágreiningur okkar botni í því, að ég hefi betri trú á bændum en hann, trú, sem mér hefir alltaf orðið vel að, en hann fer eftir þeirri reynslu, sem hann hefir fengið af bændum. Hér er því það haf staðfest milli okkar, sem ekki verður yfir stigið.