19.05.1932
Efri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

7. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Ég játa, að brtt. hv. 2. landsk. hefir nokkuð til síns máls. Þó finnst mér hún gera helzt til mikla takmörkun á rétti jandeigenda samkv. 1. mgr., og ég sé ekki beina ástæðu til að setja svona skilyrði. En sérstaklega vil ég mælast til þess við hv. flm., að hann breyti „veiðifélagi“ í „fiskiræktarfélag“. Mér skilst, að hugmyndin sé sú, að tryggja það, að eins vel verði séð fyrir fiskirækt og áður, og það verður bezt tryggt með stofnun fiskiræktarfélags. Ég vona, að hv. flm. fallist á þessa breyt., annars mun ég sjálfur bera fram brtt. þessa efnis við brtt. hans.

Þá vil ég víkja að hv. 4. landsk. Út af 1. brtt. sinni hefir hann nú sjálfur komizt á þá skoðun, að frestur sinn sé helzt til stuttur, og hér því sjálfur fram brtt. við sína fyrri till. um að hafa hann 5 ár. Þetta er vitanlega til bóta. En hitt er þó öruggara, að hafa frestinn 10 ár. Það er sjálfsagt að veita mönnum nægan frest til innlausnar, og hann þarf að vera nokkuð langur, fyrst og fremst vegna kreppunnar nú og í öðru lagi vegna þess, að fiskirækt öll er í framför og skilningur á henni fer vaxandi og því ekki víst, að menn bregði svo skjótt við.

Þá minntist hann á brtt. sína, 3.a, um takmörkun haustveiða. Hann hélt því fram, að ég hefði einungis talið hana bagalega vegna silungsveiðanna. En það er ekki rétt. Það er ekki síður vegna laxveiðanna. Lax gengur víða ekki upp í árnar fyrr en síðast í ágúst, bæði hér austanfjalls og eins uppi í Borgarfirði. Það er því óhæfa vegna eigenda slíkra vatnsfalla að takmarka veiðina svo mjög. Efast ég um, að þetta sé rétt, að því er tekur til alls landsins. Ég þekki ósabændur, sem veiða 3 mánuði, og fyllilega það stundum, og væri æskilegt, að þeir veiddu ekki lengur, en hinsvegar veitir þeim, sem ofar búa, ekki af að fá að stunda veiðina lengur, því að það hefir viljað ganga svo, að uppbændurnir hefðu litla laxveiði fyrr en hinir eru hættir.

Hv talaði hv. þm. um það, að ekki væri nein hætta í því fólgin, þó að lagt væri svo langt út í ósana. Hefi ég að vísu ekki nóga þekkingu á þessum hlutum, því að ég hefi ekki stundað ósaveiðar, en mér hefir þó skilizt það, að um því meiri takmörkun væri að ræða, því lengra sem lagt væri út í ána, og sá maðurinn, sem mest hefir haft með þetta að gera, leggur mikla áherzlu á það, að þetta sé ekki takmarkað meira en nú er í frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vil aðeins að lokum endurtaka þau tilmæli mín til hv. 2. landsk., að hann setji „fiskiræktarfélag“ í stað „veiðifélags“ í brtt. sinni.