05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Rang., að frv. Þetta tiltekur ekki neitt ákveðið ár, sem verkið verði framkvæmt á. Hann var nú svo sanngjarn að játa það, að ég gæti ekki gefið neitt ákveðið fyrirheit um þetta. En hv. þm. óskaði þó að heyra, hver minn hugur væri til þessa máls. Hvort hér væri einungis um fyrirslátt að ræða eða hvort það væri vilji minn að koma þessu verki í framkvæmd svo fljótt sem ástæður leyfa. Ég er fús til að láta í ljós minn hug til málsins. Ég hefi lyst því yfir þar eystra, og ég hefi lýst því yfir hér, að ég hefi fullan vilja á að gera mitt til að leysa þetta samgöngumál á viðunandi hátt. Og ég tel það eitt af meiri nauðsynjamálum þjóðarinnar að gera það svo fljótt sem unnt er.

Ég hefi sannfærzt um það af rannsókn vegamálastjóra, sem hann hefir framkvæmt að minni ósk, að hægt sé að fá viðunanlega lausn á því á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Það er von mín, að þetta verk geti komizt í framkvæmd í náinni framtíð, og mér er það áhugamál, að þetta verði gert svo fljótt sem hægt er.