07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Halldór Stefánsson:

Hæstv. ráðh. segir, að hann geri sér von um, að þetta verði endanleg lausn á þessu máli, en að hann geti ekki ráðið við, hvernig aðrir líti á það. Mér þykir það höfuðmunur, hvort þessi fyrirhugaði nýi vegur er hugsaður sem bráðabirgðalausn eða menn hugsa sér, að það sé sú lausn, sem endanlega eigi að taka í þessu máli. Og ég vil ákveðið segja það, að ef það kemur ekki fullkomlega ákveðið fram, að þetta sé sú endanlega lausn, sem eigi að taka á þessum tíma — ég er ekki að tala neitt um það, hvað menn muni gera einhverntíma í framtíðinni, eftir mannsaldra, en miðað við þann tíma, sem rétta er gert — þá get ég ekki séð, að það sé að neinu leyti forsvaranleg afstaða að fylgja því, að leggja milljónir í að leggja nýjan veg við hliðina á öðrum vegi — að færa til veg, sem þó er í betra lagi þeirra vega, sem við höfum. Aðeins til að fá hann á betri stað, og eiga það svo yfir höfði sér, að þetta sé alveg ófullnægjandi samgöngubót fyrir þessi héruð. Ég verð að segja það, að afgreiðsla málsins á þeim grundvelli er alveg óviðunandi og óforsvaranleg.