08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1933

Steingrímur Steinþórsson:

Ég á aðeins eina litla brtt. við þennan kafla fjárlaganna og þarf ekki að fara um hana mörgum orðum. Það er till. XX. á þskj. 334, og er þar mælzt til, að Baldvin B. Bárðdal verði veittur 300 kr. styrkur sem eftirlaun. Þessi maður er nú hálfáttræður, og hefir stundað barnakennslu mestan hluta ævi sinnar. Hann stendur nú uppi févana, heilsan að þrotum komin, og án nokkurra ættingja, sem gætu séð fyrir honum. Þarna er því full þörf fjárhagsstuðnings, og gamlir barnakennarar eiga engu að síður rétt til örlítilla eftirlauna en ýmsir þeirra, sem taldir eru upp í 18. gr. fjárlaganna, enda er hér farið fram á lítilræði, 300 kr. — ég vænti þess, að hv. dm. neiti ekki um þessa smávægilegu upphæð, þar sem maðurinn einnig er orðinn háaldraður, og mest líkindi til, að hann þurfi ekki styrksins lengi með. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að mæla meira með þessari litlu till.; þetta er ekkert fjárhagsmál fyrir ríkið, hvort sem það,verður samþ. eða ekki.

Aðrar till. hefi ég ekki við þennan kafla fjárlaganna, sem mér ber að mæla fyrir, en ég er meðflm. að till. nr. III. á þskj. 302 ásamt hv. 4. þm. Reykv., um það, að tónlistarskólinn fái að halda þeirri upphæð, sem hann hafði í síðustu fjárlögum, en nú hefir verið færð niður. Ég ætla ekki að tala langt mál um þessa till.; hv. aðalflm. mun mæla svo með henni, að ekki þurfi við það að bæta. Ég vil þó benda á það, að viðleitni þeirra manna, sem komið hafa upp tónlistarskólanum, er mjög virðingarverð. Hún stefnir að því, að allt það mikla fé, sem nú fer árlega út úr landinu til erlendra hljómlistarmanna, geti orðið kyrrt í landinu sjálfu. Og það er bæði heilbrigt og sjálfsagt, að Alþingi stuðli að því, að hægt sé að nema þessa list til nokkurrar hlítar hérlendis. — Ég vil því eindregið mælast til, að fjárveitingin verði látin óhreyfð.

Þá held ég, að óþarfi sé að taka fleira fram viðvíkjandi þessum till., sem ég er riðinn við.