23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég ber fram brtt. á þskj. 505, og get ég sagt um þær það sama og síðasti ræðumaður, að þær eru bornar fram af mikilli nauðsyn. Ein þessara áa er sjaldan reið nema um hásumarið, annars verður að sæta sjávarföllum og komast yfir hana á fjöru. Mér heyrðist á hv. dm. við 2. umr., að þþeir hefðu í hyggju að bera fram margar brtt., því að vafalaust eru um allt land illfærar ár óbrúaðar. En ég sé ekki ástæðu til þess að lata ganga til atkv. um þessar brtt. mínar, því að ég vil ekki rjúfa það góða samkomulag, sem verið hefir í n. um þetta atriði, og því frekar, sem allir hv. dm., að undanskildum hv. þm. Dal., hafa látið sitja við hótanirnar frá 2. umr., og bera engar brtt. fram, og mun ég því taka brtt. mínar á þskj. 505 aftur. Ég held, að það sé aðeins til tafar að hrúga þessum ósköpum í Ill. kafla 2. gr. brúarlagafrv. Hér eru komin inn svo risavaxin fyrirtæki, að engin von er til þess, að sýslurnar rísi undir því að borga 1/4 hluta þess kostnaðar. Ég vil þar nefna til Jökulsá á Fjöllum, sem áætlað er, að kosti 200 þús. kr., og hafa Norður- og Suður-Þingeyjarsýslur vafalaust ekki bolmagn til þess að standa undir 1/4 hluta þess kostnaðar. Þessi brú er þó nauðsynleg til þess að tryggja vegarsamband við Austurland.