19.02.1932
Efri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Einar Árnason:

Þegar hv. 2. landsk. þm. talaði um mistökin á stj. Síldareinkasölunnar í sumar, að það hefðu verið veitt of mikil söltunarleyfi, þá vildi hann halda því fram, að Framsóknarflokkurinn hefði haft svo sterka aðstöðu í stj. einkasölunnar, að hann hefði getað ráðið miklu um þetta. Nefndi hann þar til, að síðasta þing hefði kosið framsóknarmann í stj. einkasölunnar í stað jafnaðarmanns. nú er því til að svara, að þó að það hefði verið rétt, að 2 framsóknarmenn hefðu átt sæti í stj. einkasölunnar, þegar ákvörðunin var tekin um að auka söltunarleyfin, þá voru það þó aldrei nema 2 atkv. af 5. Hitt er því aukaatr., en þó rétt að taka það fram, að sá nýi maður, sem kosinn var í sumar, tók ekki sæti í stj. fyrr en um miðjan sept., en ákvarðanir um söltunarleyfi voru teknar miklu fyrr á sumrinu. Ég vildi gefa þessa skýringu, af því að ræða hv. 2. landsk. gat gefið mönnum tilefni til að halda, að Framsóknarflokkurinn hefði öllu ráðið um þetta.

Hv. 1. þm. Reykv. þóttist sjá ósamræmi í ræðu minni og afstöðu minni til þessa frv. Hann hélt því fram, að ég væri með síldareinkasölu og hlyti því að vera á móti frv. Þetta er auðvitað hinn mesti misskilningur. Þótt ég væri með því, að síldarverzlun og síldveiði sé skipulögð, þarf ég ekki að vera fylgjandi sama skipulagi og var á Síldareinkasölunni, enda myndi ég vera því algerlaga mótfallinn, að sama fyrirkomulag yrði tekið upp aftur. Því er það álit mitt, að Síldareinkasalan hafi farið inn á víðara verksvið en til var ætlazt í fyrstu. Skipulag getur verið með ýmsu móti, heppilegt og óheppilegt. Hv. 1. þm. Reykv. lýsti yfir því, að hann væri á móti allri skipulagningu, jafnt á síldarverzlun sem öðru, því er sú afstaða hans eðlileg að fylgja þessu frv. án þess að vilja láta nokkuð annað koma í staðinn. Hann segist trúa eingöngu á útsjón og framtak einstaklingsins. mér þætti nú viðkunnanlegra, úr því að menn fara að lýsa yfir trú sinni á annað borð, að sú trú kæmi ekki í bága við alla reynslu liðins tíma. Mín trú í þessum efnum er ekki óhagganleg. Ég vil læra af reynslunni. Hún hefir sýnt, að blind trú, á hvora sveif sem hún snýst, er ekki heppileg til þroska og þróunar á þeirri framfarabraut, sem allir vilja ganga. Ég vil leita leiða, sem kynnu að reynast betri en hinar gengnu götur. Annars þýðir ekki að deila um þetta atr. Eins og frv. liggur fyrir, þarf ekki að taka ákvörðun um framtíð síldarverzlunarinnar.