26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Halldór Stefánsson:

Ég tel, að aðalatriði þessa máls sé það að hefja nú þegar þann undirbúning, sem nauðsynlegur er til þess, að hægt sé á sínum tíma að reisa byggingu fyrir háskólann. Um það er ekki ágreiningur milli mín og hæstv. dómsmrh. eða hv. 4. þm. Reykv. Það eru aðeins tvo atriði; sem ber á milli frv. og till. minna, og þau eru ekki mjög stórvægileg. Það er sem sé, hvort nú á þessum tíma á að binda það, eða gefa fyrirheit um það, sem ég tel það sama, því þingið getur ekki gengið frá því, sem gefið er ákveðið fyrirheit um, að ríkið leggi fram ákveðið fjármagn á ákveðnu arabili til þess að byggja háskólahús. Í öðru lagi er ég mjög í vafa um það, hvort hægt er að ákveða nú, hvað þessi bygging á að vera dýr, þó ekki liggi fyrir neinar áætlanir um, hvað hún þarf að kosta, eða hvort það verð, sem tiltekið er í frv., fer nokkuð nærri lagi eða ekki.

Ég tel ekki, að málinu væri spillt eða brugðið fyrir það fæti á nokkurn hátt, þótt brtt. mínar væru samþ. Ég vil setja það fyrst, sem fyrst á að vera og er aðalatriðið, eins og málinu er nú komið, sem sé þann undirbúning, sem góður er og gagnlegur, svo sem að útvega heppilegt land, gera kostnaðaraætlanir og því um líkt, en láta óbundið, hvenær þingið leggur fé fram í þessu skyni. Ég tel ekki rétt, að þingið ákveði að reisa þessa byggingu á fastákveðnum tíma, áður en fyrir liggja nokkrar ábyggilegar áætlanir um kostnaðinn við hana. Á tímum eins og nú eru, þegar svo erfiðlega horfir um hag. ekki einungis ríkissjóðs, heldur einnig alls almennings í landinu, þá get ég ekki álitið, að það sé rétt að vera að ákveða að leggja fram stórar upphæðir í ákveðnu skyni á vissum tíma, an þess nokkuð sé hægt að segja um, hvort það verður hægt eða ekki. Við skulum nú segja, að þetta yrði hægt og að búið yrði að gera þann undirbúning, sem gert er ráð fyrir í till. mínum. Þá á það ekki að þurfa að seinka neitt framkvæmdunum, þó till. mínar væru samþ. Ef hinsvegar fjárhagurinn yrði þannig bæði hjá ríkinu og einstaklingunum, að ekki þætti fært að leggja fé til þessarar byggingar t. d. árið1934 ef þá yrði svo þröngt í búi, að velja yrði milli þess að leggja 100 þús. kr. í háskólabyggingu, sem ekki kæmi að notum fyrr en eftir sex ár með jöfnu framlagi á hverju ári, eða hins, að leggja það fé til nauðsynlegra og aðkallandi umbóta á þjóðarhögum, sem strax gætu komið að gagni, þá mundi ég a. m. k. vilja hafa óbundnar hendur um að velja á milli.

Það verður að viðurkenna það, að sá húsakostur, sem háskólinn hefir haft frá byrjun og hefir enn, er ófullnægjandi. Þó hefir ekki mikið heyrzt kvartað um, að það væri svo ófullnægjandi, að skólinn væri ekki starfhæfur af þeim sökum, með þeim deildum, sem hann nú hefir. Og jafnvel þó svo væri í raun og veru, að hann gæti ekki verið starfhæfur í því húsnæði, sem hann nú hefir, þá verður að jata, að eftir því sem ætlað er í þessu frv., verður hann að búa við það í átta ár enn, eða til ársins 1940.

Hv. 4. þm. Reykv. hafði orð á því, að ef brtt. mínar væru samþ., þá yrði frv. í rauninni líkara þáltill. Það má vel vera, að svo sé, ég skal ekki deila við hann um það. En frv. yrði ekki þýðingarlaust fyrir það. Það er altítt, að undirbúningur mála er hafinn með þáltill. Og ég mundi ekki gera neinn ágreining út af því, ef menn vildu heldur láta efni frv. með þeirri breyt., sem ég legg til, að gerð sé á því, koma fram í þál.formi. En ég held, að það spilli engu, þó frv.forminu sé haldið; það er þó heldur fastbundnara, sem þannig er sett fram heldur en með þál.

Ég legg það svo undir dóm hv. þm., hvort þeim þykir réttara að afgreiða þetta mál þannig að samþ. frv. óbreytt, eða að samþ. brtt. mínar. Eins og ég hefi áður tekið fram, tel ég ekki rétt að binda hendur Alþ. á ókomnum árum með loforðum um fjárframlög. hér er ekki um að ræða fjárframlag eitt ár, heldur sem svarar 100 þús. kr. útgjöldum á ári í 6 ár, eða e. t. v. meira, ef byggingarkostnaðurinn yrði meiri en tiltekið er í frv., sem sumir telja ekki ólíklegt að yrði, um það skal ég ekkert segja. En ég álít, að þingið ætti a. m. k. að gera kröfu til þess, að fyrir liggi ákveðin og ábyggileg kostnaðaráætlun, þegar samþ. er svo stórvægileg áyktun sem hér er um að ræða, að frv. óbreyttu.