26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

0878Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er óþarfi að deila á mig fyrir þau ummæli mín, að mér þyki mikið unnið með frv. Mér þykir það sjálfan allt of óákveðið. Vildi ég taka höndum saman við hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. V.-Húnv. um það, að kveða fastar á. En það liggur ekki hér fyrir. Finnst mér, að því óákveðnara sem frv. er, því minni hætta ætti að vera að samþ. það. Þótt lítið felist í því, er þar þó alltaf þingyfirlýsing um þetta, enda þótt þingið hafi að svo stöddu ekki heimild til að veita fé.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að ég hefði lýst yfir því, að ástandið væri þannig, að ekki myndi hægt að byrja á verkinu á hinu tiltekna árabili. Ég minnist þess ekki að hafa sagt þetta. En ég viðurkenni, að eitt af því, sem við höfum fyrir það hve miklu fé hefir verið eytt, sé það, að slæmt útlit sé um bygginguna. En ég held, að fyrir 1940 muni verða búið að leggja fram fé til verksins eða annara nauðsynlegra verka. Þykir mér það fengur fyrir háskólann, ef ákveðið er, að þetta verk skuli ganga fyrir öðrum, svo framarlega sem fé sé til. Er þetta hliðstætt við l. um brúagerðir og símalagningar.

Með því að samþ, frv., álít ég að þingið hafi lýst yfir því, að það vilji láta framkvæmd þessa verks ganga fyrir öðrum erkum á þessu árabili. Og ég álít, að gengið sé á yfirlýstan vilja þessa Alþingis, ef aðrar hliðstæðar byggingar verða byggðar á þessu árabili. Þetta er hinn efnislegi vinningur við, að frv. sé samþ. nú. Það er að vísu satt, að útlitið er ekki gott nú sem stendur, um að ráðizt verði í framkvæmdir á næstu árum. En þó má gæta þess, að hér er ekki um svo afarstóra fjárhæð að ræða, 600 þús. kr., eða máske upp undir 800 þús. kr. Má því segja að ástandið verður slæmt hér á landi, ef ekki verður búið að verja miklu stærri upphæð en þessari til nýrra framkvæmda við lok þessa tímabils. Ég vil hreint ekki spá svo aumlegu ástandi, að ekki verði búið að vinna af hálfu ríkisins fyrir miklu meira fé. En fari svo, sem ég vona, þá er gott að hafa yfirlýstan vilja þessa þings um að þetta verði gert.

Hv. þm. V.-Húnv. leizt hreint ekki á þessa óútreiknanlegu stærð, sem hann helt, að háskólinn yrði. Í sambandi við það, hvaða stofnanir gætu heyrt háskólanum til, taldi hann, að ég hefði gleymt bæði vitlausraspítala og gamalmennahæli. Hv. þm. sagði nú þetta víst í gamni. En þetta er vitanlega engin fjárstæða. Það er ekkert óeðlilegt við það, að geðveikrahæli standi í sambandi við háskóla. Þar er þó um efni að ræða til vísindalegra rannsókna. Og hvað gamalmennahælin snertir, þá er skiljanlegt, að hv. þm. V.-Húnv. sé kunnugri því, hvað gera má fyrir gamalmennin en aðrir, vegna þess, hvar hann er búsettur. (Rödd af þingbekkjum: Þetta er flutt á Blönduósi! ). Það var nú samt víst á Hvammstanga, sem þessi undur skeðu fyrst.

En svo að öllu gamni sé sleppt, þá fannst mér hv. 2. þm. Skagf. ekki gera það ósennilegt, að betra sé að hafa lögin í höndunum, þegar komið er til bæjarfulltrúanna með beiðni um land handa háskólanum. Hann kannaðist við, að reglan væri sú, þegar lóð væri afhent, að þá væri skylda að byggja á henni. Hv. þm. vildi aðeins halda því fram, að annað gildi utan bæjarins, vegna þess að þar kæmi gatnagerðin ekki til greina. En þótt svo sé, að nokkuð annað gildi um það land, sem er utan við aðalbæinn, þá er þó varla þess að vænta, að bæjarfulltrúarnir verði fúsir að láta land af hendi, nema sýnt sé, að vilji sé til þess að byggja á þessu landi. Og það er afareðlilegt. Það land, sem látið væri af hendi, gæti einnig verið hagkvæmt til afnota fyrir aðra, sem þurfa á landi að halda og geta sýnt, að þeir ætli að nota það. Samþykkt þessa frv. væri því eðlileg trygging fyrir Rvíkurbæ um að það væri vilji þingsins að sinna þessu máli. Að vísu játa ég, að þessi trygging er ekki lagalega bindandi fyrir síðari þing. En maður verður þó að vona, að það sé yfirleitt vilji þingsins, að þetta verði gert, og þá einnig síðari þinga. Og þeir sem álíta, að þetta mál komi ekki að neinu gagni, vegna þess að ekki er hægt að hefjast handa í bráðina, ættu þó ekki að setja það fyrir sig, heldur ættu þeir að lofa málinu að ganga fram, svo að það mætti þó gera það gagn, sem vera má, án þess eða áður en ríkissjóður leggur fram fé til þess.