10.03.1932
Efri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

21. mál, geðveikrahæli

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vildi segja ofurlítið út af daggjöldunum. Ég tók svo eftir, að hv. frsm. n. segði, að þau hefðu verið kr. 1,50 á dag á Gamla-Kleppi. En hvorki hv. frsm. né aðrir hafa látið neitt í ljós um, hver þau skuli vera eftirleiðis. En vegna þess, að ákvæði fátækralaganna ná ekki til geðveikrahælanna, þykir mér rétt, að bending komi fram um það í umr., hvernig haga skuli daggjöldum þessara sjúklinga framvegis.

Sjúkdómi þeim, sem hér um ræðir, er svo háttað, að sumir eru ólæknandi, eða þá að þeir þurfa að vera á spítala svo árum skiptir. Það mundi því koma hart við fátæka framfærendur eða hreppsfélög, ef daggjöld væru hækkuð til muna frá því, sem nú er.

Þess er getið í nál., að á Nýja-Kleppi hafi fátækum mönnum verið synd einhver linkind frá daggjöldum. Ég lít svo á, eins og ég sagði fyrr, að þegar um sjúklinga er að ræða, sem eiga fátæka aðstandendur, en eru haldnir þeim sjúkdómum, að þeir verða að dvelja á spítalanum árum saman, þá megi ekki ákveða daggjöldin hærri en þau eru nú á Gamla-Kleppi. Hitt er annað mál, þótt þau séu ákveðin nær því, sem þau kosta í raun og veru, þegar um stuttan tíma er að ræða. Slíkan kostnað borga menn einatt möglunarlaust.

Það er mikil þörf á því að haga svo fyrirkomulagi spítalanna, að þar megi leggja inn óða sjúklinga. Eins og nú þagar, þá eru slíkir sjúklingar lagðir inn á spítalana báða jöfnum höndum. En miklu heppilegra væri að samræma svo starfsemina, að þeir væru lagðir inn í sérstaka deild, sem til þess væri ætluð. Mér þætti æskilegt, að það kæmi skýrar fram frá hv. frsm. n., þótt ekki væri nema um hans persónulegu skoðun að ræða, að ætlazt væri til, að daggjöld þeirra sjúklinga, sem ólæknandi eru, væru ákveðin lægri en þeirra, sem aðeins dvelja stuttan tíma á spítölunum.