15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

21. mál, geðveikrahæli

Pétur Ottesen:

Ef frv. þetta verður samþ., virðist mér þar með felld úr gildi ákvæði núgildandi laga um það, hvaða daggjöld beri að greiða með sjúklingum þeim, sem eru á eldra geðveikrahælinu, sem almennt er kallað „Gamli-Kleppur“. Ég ætla, að í þeim lögum, sem hér er farið fram á að fella úr gildi, sé gert ráð fyrir, að daggjöld sjúklinga skuli vera 50 aurar eða svo, en með fjárlagaákvæðum hafa þau á síðari árum verið ákveðin kr. 1,50. Það er því ljóst, að með samþykkt þessa frv. eru aðstandendur þeirra sjúklinga, sem í Gamla-Kleppi eru, sviptir þeirri vernd, sem lögin veita þeim um að meðgjöf með sjúklingum fari ekki fram úr settu marki.

Á Nýja-Kleppi eru daggjöldin miklu hærri, kr. 3,50, að ég held, og má því búast við, að þau hækki einnig tilfinnanlega á Gamla-Kleppi, ef þátt eru engum takmörkunum bundin. Ég vil benda á, að að þeim vesalingum, sem þarna verða að vera, standa í flestum tilfellum hreppsfélög eða fátækir einstaklingar, sem mjög erfitt ættu með að bæta á sig gjöldum á þessum erfiðu tímum, því að það er svo um alla eða flesta sjúklingana, sem þarna eru, að þeir verða að vera þar til langframa. Ég vil því biðja þá n., sem væntanlega fær þetta mál til athugunar, að finna leið til þess, þó að frv. þetta verði samþ., að þá sé samt ekki kippt burt þeim ákvæðum úr löggjöfinni, sem tryggja það, að daggjöld með sjúklingum á Kleppi verði ekki sett svo há, að aðstandendum þeirra verði um megn að greiða þau.