03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þegar þetta frv. var tekið hér til umr. síðast, óskaði ég eftir því, að málið yrði tekið út af dagskrá, af því að ég hafði orðið þess var, að í lögum um stofnun veðurstofunnar voru ákvæði um birtingu veðurfregna. Eftir að n. hafði athugað þessi fyrirmæli telur hún ekki ástæðu til breyt. á frv. vegna þeirra ákvæða. Hv. dm. munu hafa tekið eftir því, að hv. Nd. hefir gert nokkrar breyt. á frv., og hefir sjútvn. fallizt á sumar þeirra, en aðrar ekki. Þessar breyt. eru fyrst og fremst þær, að nýrri gr. hefir verið bætt framan við frv., sem verður 1. gr. Þar er ákveðið, að útvarpsstöðin í Rvík skuli útvarpa veðurfregnum eftir þar til settum reglum. Sjútvn. fellst á þennan viðauka. Í 2. gr. frv. eru felld úr fyrirmæli, sem voru í frv. þegar það fór héðan, að á þeim stöðum, þar sem útræði og sjósókn eru sérstaklega hættuleg, skuli veðurfregnirnar birtar stöðugt. þessu hefir hv. Nd. breytt á þá leið, að nú stendur þar, að veðurfregnir skuli verða birtar þar, sem útræði er. — Það væri ekki eins mikil ástæða til að fetta fingur út í þessa breyt. ef hv. Nd. hefði ekki líka gert þá breyt. á frv., að ríkissjóður skuli engan kostnað hafa af birtingu veðurfregna, heldur skuli viðkomandi sveitar- og bæjarfélög greiða allan kostnaðinn. Þar sem kostnaðinum er þannig ráðstafað, þykir mér fulllangt gengið að lögskipa, að veðurfregnir séu birtar alstaðar þar, sem útræði er. Við vitum það, að útræði er á það mörgum stöðum á landinu, að með þessu er sveitarfélögunum bundinn allþungur baggi á herðar. N. leggur því til, að þessum atriðum, sem ég nú hefi fundið að, verði breytt aftur í sitt upprunalega form. N. lítur svo á, að þar sem hér er um mál að ræða, sem ekki er hægt að segja, að snerti hvert einstakt sveitarfélag eingöngu, heldur allt landið, sé það óviðeigandi, að allur kostnaður af því greiðist úr bæjar- og sveitarsjóði. N. leggur því til, að þetta ákvæði um kostnaðinn verði sett aftur inn í frv., eins og það var í upphafi. Það má segja, að þessi kostnaður verði aldrei svo mikill, að hann skipti nokkru verulegu fyrir ríkissjóð. Samkvæmt rannsókn, sem forseti Fiskifélags Íslands hefir látið fara fram, eru það ekki tiltölulega margir staðir, sem hafa verulega þörf fyrir birtingu veðurfregna. Í ár hefir Fiskifélag Íslands annazt þessa birtingu gegn vissu gjaldi úr ríkissjóði. Sú upphæð mun vera 5000 kr. Veðurfregnir eru nú birtar að staðaldri á nærfellt 60 stöðum á landinu, og kostnaður á hverjum einstökum stað hefir orðið frá 80–120 kr. og þar sem sá varnagli er sleginn í frv., að tillag ríkissjóðs skuli ekki nema meiru en 50 kr. á hvern stað, má gera ráð fyrir, að kostnaður ríkissjóðs af þessu fari aldrei fram úr 5000 kr., þó að stöðunum, sem veðurfregnirnar eru birtar á, væri fjölgað allmikið. Þar sem þetta er að nokkru leyti bjargrað fyrir sjávarútveginn, finnst mér ekki rétt að leggja um leið kvöð á sveitar- og bæjarfélögin, heldur sé nær að leggja þessa litlu upphæð fram, úr þeim sameiginlega sjóði, ríkissjóði. — ég geri ráð fyrir því, þar sem Ed. var einhuga um þetta frv., þegar það var hér síðast á ferðinni, að hún fallist á till. sjútvn. og færi frv. aftur í sitt fyrra horf, að því leyti sem n. óskar.