21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

23. mál, breyt. á vegalögum

Halldór Steinsson:

Þegar þetta mál var til umr. í samgmn., leit n. svo á, að með stjfrv. væri ráðin mikil bót á þeim misrétti, sem hingað til hefir ríkt í einstökum héruðum landsins um þjóðvegi. N. þótti líklegt, að ef allar þær brtt., sem þá lágu fyrir, yrðu samþ., þá mundi það hindra framgang málsins. Þess vegna var það, að n. lagði til, að frv. yrði samþ. óbreytt, og þess vegna tóku nm. till. sínar aftur til 3. umr. En eins og kunnugt er, þá voru samþ. við 2. umr. allar þær brtt., sem þá voru bornar upp, og þegar svo var komið, sáum við enga ástæðu til að kippa till. okkar til baka fyrir fullt og allt, þar sem þær eiga eins mikinn eða meiri rétt á sér en sumar þær till., sem samþ. voru við 2. umr. A. m. k. hefir vegamálastjóri látið það uppi viðvíkjandi tveimur af þessum vegum, sem nú eru bornar fram till. um, að svo framarlega, sem nokkrar breyt. eigi að gera á frv., þá séu þessar till. réttmætar.

Ég hefi nú borið fram till. um að taka 2 vegakafla í þjóðvegatölu. Annar er Eyrarsveitarvegur, frá Kerlingarskarði um Eyrarsveit að Búlandshöfða. Hinn er Skógarstrandarvegur, frá Skildi í Helgafellssveit á Vesturlandsveg í Miðdölum. Viðvíkjandi Eyrarsveitarveginum vil ég taka það fram, að ætlazt er til, að hann liggi um endilanga Eyrarsveit, sem er langfjölmennasta sveitin á öllu Snæfellsnesi, að kauptúnunum undanskildum. Sú sveit liggur mjög vel við að því leyti, að segja má, að þar megi hafa jöfn not lands og sjávar, enda lifa hreppsbúar á því hvorutveggja jöfnum höndum. En það hefir verið sveitarbúum mjög til baga, að þeir hafa orðið að hafa mestalla aðdrætti á sjó. Aðallega hafa þeir haft viðskipti við Stykkishólm, og þar er einnig héraðslæknir þeirra, og hafa þeir oftast orðið að sækja hann sjóleiðis. Og þó að sjóferðirnar geti verið góðar, þá eru þær það þó engan veginn alltaf, því að þegar veður eru vond, þá getur mönnum legazt í Stykkishólmi allt að því vikutíma. Er því mjög bagalegt, að ekki skuli vera neinn sæmilegur vegur þarna, svo að hægt sé að ferðast þar jafnt á sjó sem landi.

Um Skógarstrandarveginn má í rauninni segja alveg það sama. Þar eru aðalviðskiptin við Stykkishólm; og mestallar ferðir þaðan verða að fara fram á sjó, af því að vegir eru þar svo slæmir. Þess vegna er það einnig bráðnauðsynlegt fyrir þessa sveit að fá þennan veg. Ég skal geta þess, að Eyrarsveitarvegurinn er 53 km., en Skógarstrandarvegurinn 68 km., og þar af eru 50 km. í Snæfellsnessýslu, en 18 í Dalasýslu. Vegamálastjóri hefir látið þess getið, að þetta væri tiltölulega ódýr vegur, af því að á stórum svæðum væri aðeins um ruðningu að ræða. Ég tel því bráðnauðsynlegt, að þessar sveitir fái þá vegi, sem hér um ræðir, svo framarlega sem þær eiga ekki að verða út úr um allar framfarir, en það teldi ég mjög illa farið, því að þær eru búnar meiri gæðum en flestar aðrar sveitir sýslunnar.

Þá vil ég aðeins minnast á till. hv. 5. landsk. á þskj. 75 að því, er snertir vegi á Snæfellsnesi. Þar leggur hann til, að í staðinn fyrir það, sem nú stendur í frv., að þjóðvegur skuli vera „frá vegamótum Stykkishólmsvegar austan við Straumfjarðará um Staðarsveit og Fróðárheiði til Ólafsvíkur“, skuli koma: „Frá vegamótum Stykkishólmsvegar austan Straumfjarðarár um Staðarsveit og Breiðavík til Hellissands“. Ég skyldi ekkert hafa á móti því, að þessi vegur yrði lagður frá Búðum til Hellissands. Við hann yrði sérstaklega sá kostur, að hann lægi um byggð og að því leyti greiðari en vegurinn yfir Fróðárheiði, að þar á heiðinni er ekki fært nema að sumri til, en aftur á móti yrði hann miklu dýrari. Þessi leið er 67 km., og kostnaður er áætlaður 200 þús. kr., en vegurinn frá Búðum til Ólafsvíkur er ekki nema 21 km. og kostar því margfalt minna.

Það er auðvitað gott, að báðar þessar leiðir komi í tölu þjóðvega. En það, sem mér finnst sérstaklega að athuga við þessa till., er það, að samkv. henni fellur Fróðárheiði alveg úr frv., en ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir ætlazt til þess. Eins og menn vita, er Fróðárheiðin fjallvegur og viðhald vegarins kostað af ríkissjóði, svo að nú síðustu ár hefir verið bílfært

yfir heiðina. Beggja megin heiðarinnar er þjóðvegur, og finnst mér því ófært að fella þennan kafla úr þjóðvegakerfinu. Ég vil því mælast til, að hv. þm. taki þessa till. aftur, en vilji hann það ekki, þá mun ég bera fram brtt. um, að þessi vegarkafli verði ekki felldur burt.