21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

23. mál, breyt. á vegalögum

Jónas Jónsson:

Ég hafði flutt nokkrar brtt. við þetta frv. við 2. umr., sem ég tók aftur þá, en flyt nú aftur, og skal ég leyfa mér að gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum. Áður en ég kem að mínum eigin till., vil ég þó styðja með nokkrum orðum 2 brtt., sem mælt var hér fyrir í dag, frá hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. Eyf.

Sumir hv. þm. halda því fram, að samþ. eigi þetta frv. óbreytt, og byggist þessi skoðun á því, að vegamálastjóri hafi náð út yfir allt það, sem ástæða og þörf var til að setja í vegalögin að þessu sinni. Nú hlýtur það þó alltaf að vera vafamál, hvaða vegur á að vera þjóðvegur og hvaða vegur á að vera sýsluvegur, og eins hvaða vegir eiga að bíða utan vegal. enn um stund, en hvaða vegir að koma strax. Brtt., sem fram hafa verið bornar við frv., sýna áþreifanlega, að vegamálastjóra hefir hinsvegar ekki tekizt að fullnægja þeim þörfum og kröfum, sem kjördæmin gera í þessum efnum. Eftir eðli sínu eru vegalögin aðeins áætlun um það, hvernig vegakerfi landsins á að vera í framtíðinni, enda geyma vegal. ekki fjárveitingarheimildir til þeirra vega, sem teknir hafa verið upp í l., heldur verður hver vegur að bíða, þar til Alþingi veitir fé til að leggja hann með sérstakri fjárveitingu í fjárl. Þar sem vegamálastjóri leggur á móti þeim till., sem hér liggja fyrir, hlýtur það nánast að stafa af því, að honum er ekki ljóst, hvert er hið eðlilega takmark vegal. Vil ég taka það fram, að till. hv. 2. þm. Eyf., sem fer fram á að tengja Siglufjörð við Skagafjarðarsýslu, er einmitt hugsunarrétt af því, að hér er um að ræða einn af stærstu kaupstöðum landsins, sem miklu skiptir að komast í bílsamband við landið. Að fella þessa till. er sama og að synja Siglufirði um fræðilega viðurkenningu á því, að hann eigi að fá þennan veg, og getur ekki verið nein meining í því að vera á móti því, að þessi viðurkenning fáist. Annað mál er það, að þessi vegur kemur ekki til með að vera uppi nema yfir sumarið.

Þá vil ég bæta nokkrum orðum við það, sem hv. þm. Snæf. sagði fyrir sínum till. Báðir þeir vegir, sem hann gerir till. um, eru sjálfsagðir, og Skógarstrandarvegurinn er að kalla sjálfgerður, vantar aðeins að leggja kafla og kafla, sem heldur sveitinni niðri, að látið er ógert, því að Skógstrendingar mundu fá ágætt samband við Stykkishólm, ef til vill allt árið, með þessum vegi, sem auk þess tengir saman Dalaveginn og Stykkishólm á þann hátt, að ferðamönnum frá Búðardal t. d., sem nú þurfa að krækja til Dalsmynnis og þaðan ofan í Borgarnes, til þess þannig að komast til Stykkishólms, verður þetta ekki steinsnar, eftir að þessi vegur er kominn á. Þessi vegur er því þjóðvegur í eðli sínu, og því þá ekki að viðurkenna það.

Þá kem ég að mínum eigin till. á þskj. 75. Fjallar fyrsta till. mín um það, að Fljótshlíðarvegurinn, sem samkv. frv. á að ná til Hlíðarenda, verði lengdur og látinn ná að Múlakoti. Hagar svo til í þessum parti Fljótshlíðarinnar, sem kæmist í vegasamband með þessu móti, að þar er sá hluti landsins, sem flestir ferðamenn sækja til. Árlega koma þarna svo skiptir þúsundum af ferðamönnum, þ. á m. útlendir gestir, en þarna vantar 2—3 km. veg. Sérstaklega er þó erfitt yfir klifið hjá Hlíðarenda, en eftir að því sleppir, má heita sjálfgerður vegur inn eftir. Verða menn því nú, meðan enginn vegur er þarna, að fá sér hesta í Hlíðarenda eða ganga. Þetta er því þjóðvegur í eðli sínu, og sjálfsagt að viðurkenna það. Vil ég ennfremur minna á það í þessu sambandi, að þessi kafli veldur því, að bændur í Fljótshlíðinni eru afskornir frá því að vetrinum til að koma mjólk sinni á markaðinn í rjómabúin í Flóanum og Ölfusinu, og mundi það því gerbreyta búskapnum þarna, ef vegur verður lagður yfir klifið. Er og enginn vafi á því, að þessi vegur kemur, og er það því ekki hugsunarrétt hjá vegamálastjóra að vilja ekki viðurkenna þennan veg strax.

Önnur brtt. fer fram á það, að lagður verði nýr vegur, Þykkvabæjarvegur, frá Ægissíðu að Hábæ í Þykkvabæ. Þykkvabærinn er eina sveitarþorpið, sem til er hér á Íslandi, og ef það væri sjóþorp, er lítill vafi á, að þangað væri kominn þjóðvegur fyrir löngu. En við Íslendingar erum óvanir sveitarþorpunum, og því hefir þetta gleymzt. Vegurinn er að vísu slarkfær eins og er, en hann þarf að vera opinn allt árið, og til þess vantar viðgerð á honum. Þykkvabæingar byggja sína lífsafkomu fyrst og fremst á því, að koma mjólkinni, sem þeir framleiða, í mjólkurbúin í Ölfusinu, og fólksfjöldinn, sem að þessum vegi liggur að öðru leyti, réttlætir það fullkomlega, að viðurkenning á þessum vegi fáist á þennan hátt.

Þá legg ég til, að Borgarfjarðarbraut verði ákveðin yfir Kláffossbrú um Reykholtsdal að Lambá, í stað þess að liggja yfir Hvítárbrú á Kálffossi, eins og frv. segir. Vegurinn um Reykholtsdal er mjög fjölfarinn, sérstaklega af Reykvíkingum, en til þess að hann geti notið sín, þarf að gera upp kafla af Kaldadalsveginum, kaflann frá Húsafelli upp að þeim eiginlega fjallvegi; er þessi kafli um 5 km., mestmegnis grundir, sem ófærar verða í rigningum. Er því full ástæða til að taka þennan kafla upp í frv.

Við hv. þm. Snæf. erum ekki fyllilega sammála um fyrirkomulagið á einum vegarspotta í kjördæmi hans, Snæfellsnesbraut. Vil ég láta þennan veg liggja eftir láglendinu sunnan á nesinu, um Staðarsveit og Breiðavík til Hellissands. Stjfrv. gerir hinsvegar ráð fyrir, að þessi vegur hverfi úr byggðinni sunnan á nesinu norður yfir fjallgarðinn yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur, og verði þaðan lagður um Ennisdal til Hellissands. Byggist þetta ekki á réttri hugsun. Fróðárheiði er viðurkenndur fjallvegur, og enda þótt upphlaðinn vegur verði gerður yfir heiðina, liggur hann undir snjó mestallan veturinn, og eru sjóþorpin norðan Fróðárheiði þannig lokuð frá öllu vetrarsambandi við Borgarfjörðinn, ef vegurinn verður hafður svona. Hinsvegar hefir Fróðárheiði verið rudd nú fyrir nokkrum árum, svo að heiðin er akfær yfir sumarið, og að því leyti stendur eins á um Fróðárheiði og Siglufjarðarskarð og Fjarðarheiði, að yfir heiðina getur aðeins verið um sumarveg að ræða. Þótt till. vegamálastjóra verði samþ., breytir það engu í þessu efni. Fróðárheiði verður lokuð um veturna eftir sem áður. Það er því enginn ávinningur fyrir Ólsara og Sandara, þótt það verði gert, nema síður sé, því að ríkissjóður verður að halda við veginum, sem er yfir heiðina, af fjallvegafé eða fé því, sem inn kemur vegna bifreiðaskattsins, svo að vegurinn verði fær yfir sumarið. Mér þótti vænt um það, að jafnkunnugur maður á þessum slóðum sem hv. þm. Snæf. skyldi viðurkenna, að leiðin kringum nesið meðfram sjónum er mjög snjólétt, enda mikil umferð um hana allan veturinn. Hinsvegar óttaðist hv. þm. Snæf., að slíkur vegur kringum nesið yrði nokkuð dýr, því að leiðin er nokkuð löng, sem um er að ræða. Liggur fyrst fyrir að gera veg yfir Breiðavíkina, sem er auðug sveit, og enda ekki minnsti vafi á því, að bæði Breiðavíkin og Staðarsveitin komast á næstu árum í daglegt flutningasamband til Borgarness á mjólk og rjóma. Og eftir að Breiðavíkinni sleppir, er aðeins um að ræða lítinn kafla, sem gera þarf við. Og það er heldur enginn vafi á því, að þetta verður gert. Í kringum Sand eru einhver beztu fiskimiðin hér við land, og láta Sandarar og Ólsarar ekki bjóða sér það til lengdar, að það sé útilokað jafnvel fræðilega, að þeir fái sæmilegar samgöngur við landið. Till. vegamálastjóra í þessu efni er því ef til vill verri fjarstæða en gamli Þingvallavegurinn yfir Mosfellsheiði var á sínum tíma, sem síðar varð að lagfæra, og kostaði sú lagfæring landið 300 þús. kr., og átti enda að geta legið í augum uppi, að ekkert vit gat verið í því að leggja veg yfir óbyggða heiði, sem aldrei gat orðið nema vetrarvegur. Ég vona því, að hv. þm. Snæf. tengi ekki nafn sitt við það, að þetta gamla hneyksli með Þingvallaveginn verði endurtekið jafnvel á enn hærra stigi, en ég þarf ekki að taka það fram, að það gerir mér ekkert persónulega, þótt brtt. mín um þetta efni verði felld, og ég er jafnsannfærður um það eftir sem áður, að þetta verður á sínum tíma leyst þannig, að vegurinn verður eftir sléttlendinu með sjónum, þar sem byggðin er, en ekki yfir heiðina.

Þá flyt ég till. um það, að lögfesta leiðina um Köldukinn til Húsavíkur sem þjóðveg. Get ég verið stuttorður um þá till. Gamli þjóðvegurinn liggur um Fljótsheiði, og þótt sú heiði sé að vísu ekki há; er hún samt nógu há til þess, að hún er ófær á vetrum vegna snjóa. Hinsvegar liggur Kaldakinn opin við, þegar komið er yfir Ljósavatnsskarð, enda hefir þetta verið viðurkennt með brúnni, sem ákveðið hefir verið að setja á Skjálfandafljót einmitt vegna þessa vegar. Hér stendur því svipað á og um till., sem ég talaði um næst á undan, að um það er að ræða að lögfesta þá leið, sem eðlilegust er allra hluta vegna, eða leið yfir heiði, sem yrði ófær á veturna. Ef þessi leið hinsvegar væri farin, yrði bílfært allan veturinn frá Húsavík að Vaðlaheiði, og síðar alla leið til Akureyrar, þegar vegurinn frá Svalbarðseyri hefir verið lagður allur.

Loks flyt ég svo till. um það á þskj. 154, að Mývatnssveitarvegur verði tekinn í þjóðvegatölu. Eins og stendur er hluti af Mývatnsheiði viðurkenndur sem fjallvegur, og hefir kafli og kafli af heiðinni verið veglagður sumpart fyrir fjallvegafé og sumpart með framlögum úr hrepps- og sýslusjóði. Er svo skemmst frá að segja, að eftir að þannig hefir verið gert slarkfært yfir heiðina af þessum aðilum, hefir ferðamannastraumurinn þarna um vaxið alveg geipilega, svo að þetta er orðinn með fjölförnustu vegum á landinu, sem hundruð bíla fara um, einkum héðan úr Reykjavík. Hlýtur það að vera óviðkomandi litlu sveitarfélagi, sem telur, að ég held, 30 bændur, að halda við fullfærum fjallvegi fyrir hundruð bíla, sem þangað koma vegna „túristadraumsins“. Þetta er því þjóðvegur í orðsins fyllsta skilningi, og getur aldrei annað orðið. Er það fullkomið ranglæti að láta viðhaldskostnaðinn af þessum fjallvegi, enda þótt hann sé ekki mikill, lenda á hlutaðeigandi sýslu- og hreppsfélagi, og veit ég, að þeir allir eru mér sammála um það, sem sammála eru um það, að vegal. eigi að vera hugsunarrétt plan í vegamálunum í framtíðinni, sniðið eftir eðlilegum þörfum landsins og héraðanna.