21.04.1933
Efri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

23. mál, breyt. á vegalögum

Páll Hermannsson:

Ég á hér brtt., sem fer fram á að taka í þjóðvegatölu veginn frá Lagarfljótsbrú að Brekku í Fljótsdal. Þessi vegur liggur um tvær fjölbyggðar sveitir, Fellnahrepp og Fljótsdal, og notin af honum eru því fyrir þessar sveitir báðar og auk þess efri hluta Jökuldals og Hrafnkelsdal. Auk þess er almenn umferð töluvert mikil. Fljótsdalur hefir orð á sér fyrir fegurð, enda hefir verið töluverð umferð yfir Fljótsdalsheiði, sem er ofar en Brekka. Landflutningar á þessa staði munu vera lengri en víðast hvar annarsstaðar á landinu, eða 100—120 km. Þessi leið er nálægt 40 km. Nálega 1/3 er lagður vegur af sýslu- og hreppssjóðum með framlagi ríkissjóðs. Miðparturinn, eða 1/3 leiðarinnar er ólagður, og geri ég ráð fyrir, að sá kafli verði að vera upphleyptur að nokkru leyti. Kaflinn í Fljótsdal, eða um þriðjungur vegarins, er hinsvegar þannig, að víðast þarf ekki nema aðeins að ryðja hann. Kostnaðaráætlun um veg þennan liggur ekki fyrir, enda er svo um fleiri vegi, sem brtt. hafa verið fluttar um að taka upp í frv. En óhætt er að fullyrða, að þessi vegagerð er ódýr í samanburði við það, sem almennt gerist á Austurlandi. Bæði byggðinni og ferðamönnum myndi verða hið mesta hagræði að þessari vegabót, enda býst ég við, að vegurinn yrði lagður, hvort sem hann er tekinn í þjóðvegatölu eða ekki, en ég álít að þessi leið eigi engu minni rétt á sér en margar aðrar, heldur mun meiri. Ákveðnar óskir hafa komið fram frá héraðsbúum um að fá veg þennan tekinn í tölu þjóðvega, enda hafa áður verið bornar fram brtt. um þetta á Alþingi. Ég hefi þá skoðun, að þótt vegalögin séu aðeins áætlun um það, hvaða vegi skuli byggja, eigi sú áætlun ekki að ná yfir lengri tíma en maður sér út yfir. Ég geri ráð fyrir, að margir aðrir vegir gangi á undan þessum. En hv. deild virðist álíta, að þessi áætlun eigi að ná langt fram í tímann, og því tel ég rétt, að þessi vegur sé einnig tekinn upp í frv., og vona ég, að hv. d. taki þessari till. vinsamlega.