10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

23. mál, breyt. á vegalögum

Jónas Þorbergsson:

Ég á brtt. á þskj. 547 um nýjan veg frá Vesturlandsvegi í Miðdölum um Skógarströnd að Skildi í Helgafellssveit. Ástæðan fyrir því, að ég flyt þessa till., er í fyrsta lagi sú, að ég hefi fengið ýtarlegar áskoranir frá sýslubúum um að koma þessari breyt. inn í vegalögin, og í öðru lagi einnig sú ástæða, að hér er um það að ræða, að tengja heila sveit við aðalvegakerfi landsins í tvær áttir, og verður það að teljast sanngjörn krafa. Hv. þm. Barð. minntist á það, að Dalasýsla hefði langa þjóðvegi, samanborið við Barðastrandarsýslu. Þetta er að vísu rétt, en sú ástæða er fyrir þjóðvegunum í Dalasýslu, að í gegnum hann er verið að tengja tvær aðrar sýslur við vegakerfi landsins, en það eru Strandasýsla og Barðastrandarsýsla og svo raunar allir Vestfirðir. Af þessu stafar það, að við lagningu þjóðveganna um Dalasýslu var litið á þetta heildarsamband eigi síður en þörf Dalasýslu sjálfrar. Eins og kunnugt er, liggja tvær höfuðæðar vegakerfisins norður frá Reykjavík. Liggur önnur um Borgarfjörð og Holtavörðuheiði til Norðurlands, en hin um Bröttubrekku og Dali til Vestfjarða. Þriðja æðin liggur svo um Mýrasýslu til Stykkishólms og Snæfellsness. Vestasta sveit í Dalasýslu, Hörðudalur, og svo Skógarströndin á Snæfellsnesi eru algerlega vegalausar og afskornar um samgöngur bæði á sjó og landi, þar sem á aðra hönd eru óbrúaðar og illfærar ár, sem hefta samgöngurnar í austur, en í hina áttina vegleysur einar og hafnleysi á ströndinni. Ég hygg, að fáar sveitir eigi erfiðari aðstöðu en þessar um samgöngur á sjó, og er af þeirri ástæðu enn meiri nauðsyn að bæta úr samgönguörðugleikunum á landi.

Þessi brtt. á nokkra forsögu hér á Alþingi. Hún var fyrst borin fram af þm. Snæf. á sumarþinginu 1931 í Ed. Að vísu lagði hann til, að vegurinn yrði hafinn Snæfellsnessýslumegin, en ég tel eðlilegra, að hann vaxi út frá Vesturlandsveginum í Miðdölum út Skógarströndina og þaðan í samband við Snæfellsnesvegina. Sú till. náði samþykki í hv. Ed., og er ástæða til að taka það til greina nú, þó að vegalögin strönduðu þá, og eins þó þau næðu ekki heldur fram að ganga á þinginu 1932. Enn eru sömu rök fyrir þessari till. Þörfin er enn hin sama og þá. Ég vil því fastlega vona, að hv. d. líti á nauðsynina fyrir þessum samgöngubótum og taki till. með vinsemd og fullum skilningi.