04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það var einmitt út af því atriði, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, sem voru dálítið skiptar skoðanir í n. Það er enginn vafi, að nokkrir læknar missa nokkuð af tekjum vegna þeirra breyt., sem gerðar eru í frv. um eftirlit með aðkomuskipum. En það virðist engin skynsamleg ástæða þess vegna að skirrast við að ákveða það fyrirkomulag, sem betra er í raun og veru, vegna þess eins, að einstöku menn missi við það nokkrar tekjur. Ráðherra nefndi sérstaklega bæjarlækninn í Reykjavík í þessu sambandi. Það má vera, að hann verði alveg sérstaklega hart úti, en ég kann ákaflega illa við, ef á að fara að greiða honum ákveðna upphæð úr þessum sjóði. Hlutverk sjóðsins er ákveðið það í 1., að halda uppi sóttvarnarhúsi í Reykjavík, og er óviðkunnanlegt að veita einstökum lækni upphæð úr sjóðnum fyrir það, sem ekkert kemur því máli við. Ef bæta þarf launakjör hans, er eðlilegast að gera það á annan hátt. Ég skal þó taka fram, að ég hefi ekkert umboð fyrir n. hönd til að láta í ljós þessa skoðun; það er aðeins mín eigin skoðun.