04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal ekki lengja þessar umr. eða blanda mér inn í deilur þeirra hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf. En ég vil gera stutta aths. við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að allshn. hefði litla sérþekkingu á þessu máli eða kunnugleik. Ég skal fúslega viðurkenna það. En n. hefir stuðzt við þau rök, sem landlæknir og læknadeild háskólans hafa látið fylgja þessu frv., og hinsvegar er það vitað, að flestir læknar á landinu eru því fylgjandi.

Ég hygg, að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki heldur neina sérþekkingu til þess að dæma um þessa hluti, en hann hefir þó sett sig á þann háa hest að berjast við þessa sérþekkingu, sem ég hefi nefnt í þessu sambandi.

Þá var það aðeins út af því, sem hæstv. dómsmrh. mælti hér áðan. Ég vil fyrst slá því föstu, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að hann teldi, að það væri aðeins um einn lækni að ræða, sem kröfu gæti átt til uppbótar vegna þeirrar tekjurýrnunar, sem frv. þetta hefði í för með sér fyrir suma lækna. Mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. lítur svo á. Ég tók það fram í minni fyrri ræðu, að ég ætlaði ekkert um það að dæma, nema það gæti verið réttlátt að bæta héraðslækninum hér í Rvík að einhverju leyti upp þann tekjumissi, sem hann yrði fyrir vegna þessa. Ég sagði, að það gæti vel verið, og ég mun ekkert hafa á móti því, að hans laun verði hækkuð, svo að þau verði sambærileg við það, sem aðrir læknar hafa á því sviði. Ég mun að sjálfsögðu styðja hæstv. dómsmrh. í því, að þessi læknir verði gerður hliðstæður við aðra tilsvarandi starfsmenn.

Hitt nær ekki nokkurri átt, að fara að greiða honum launauppbætur úr sérstökum sjóði, sóttvarnarsjóði. Ég sé ekki, að það sé á rökum byggt. Mér skildist á hæstv. ráðh., að ekki væri hægt að vita fyrirfram, hve miklar tekjur læknirinn mundi hafa, og mér skildist, að það ætti að reikna eftir á, hve mikið hann hefði fengið fyrir að hafa lækniseftirlit með aðkomuskipum, og svo ætti að greiða honum úr þessum sjóði það, sem tekjurýrnuninni næmi. Þetta finnst mér ekki geta komið til greina. Eina rétta leiðin í þessu máli er, ef þarf að bæta þessum lækni upp tekjurýrnun vegna frv., þá á beinlínis að hækka laun hans. Það er sú leið, sem mér sýnist rétti þessu máli, og engin önnur. Ég skal að vísu sjá um það skv. ósk hæstv. ráðh., að það verði athugað fyrir 3. umr., hvað allshn. segir um þetta atriði. Það atriði út af fyrir sig hefir aldrei verið rætt í allshn.; en ég get þegar tekið það fram hvað sjálfan mig snertir, að ég get ekki fallizt á þá ráðstöfun, af því að mér finnst hún svo óeðlileg og einkennileg. — Ég held, að það sé svo ekki ástæða til að lengja umr. frekar hvað þetta snertir.