02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2876 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (GÓ):

Mér þykir menn vera furðu viðkvæmir út af þeim fáu orðum, sem ég sagði. Ég lét í ljós, að mér fyndist nefndarstörfin og þingstörfin í deildinni ganga fremur hægt. En ef engum finnst þetta nema mér, þá er það vitanlega vitleysa. Svo að þeir þurfa ekki að vera ákaflega hugsjúkir út af þessum stóryrðum mínum. En fyrst þessi skemmtun, sem hv. 2. landsk. stofnaði til og átti að vera alvarlega meint í fyrstu, hefir nú fengið þá niðurstöðu, að þau mál, sem liggja hjá nefndunum án þess að þær hafi sinnt þeim, séu helzt þau mál, sem eiga ekki að ganga fram, og fyrst allir eru svo ánægðir með þingstörfin, nema ég og hv. 2. landsk., sem kvartar um, að hans eigin málum hefir ekki verið hreyft í nefnd, þá er sjálfsagt ekki mikil ástæða til að átelja hv. deildarmenn.