07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

66. mál, lögreglumenn

Jónas Jónsson:

Ég þarf ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði í minni fyrri ræðu. Því hefir ekki verið mótmælt, sem ég sagði, að þetta væri mál bæjarins, en ríkið ætti aðeins að koma þar sem stuðningsaðili eftir því sem nauðsynlegt kynni að reynast. Deilurnar eru í bæjunum út af málum bæjanna, og þess vegna á kostnaðurinn fyrst og fremst að greiðast af þeim.

Hv. 1. þm. Reykv. vildi afsaka sig með því, að hann hefði engan þátt átt í því, að óeirðirnar urðu svo grimmar í vetur. Hann um það. Það getur verið, að hann sé búinn að gleyma ræðu sinni að einhverju leyti, eða að hann hafi verið í því ástandi, að hann hafi ekki verið sér þess meðvitandi, hvað hann sagði, en aðrir vita það; bærinn veit, að hann kastaði olíu á eldinn, og þar við situr fyrir hann.

Að ég vilji hjálpa kommúnistum með því að lengja umr. um þetta mál, getur hann sagt, ef hann vill, en það vill nú svo til, að kommúnistar deila á mig meira en hv. þm., svo að við höfum þar þeirra vitnisburð fyrir því, hversu geðþekkur ég sé þeim.

Hann virðist ekki vita, hvernig stóð á þessu útvarpi á fundinum. Ég hefi fengið upplýsingar um þetta frá formanni útvarpsráðsins og útvarpsstjóra, að hér hafi ekki í raun og veru verið um útvarp að ræða, heldur hafi meiri hl. bæjarstj. beðið verkfræðing útvarpsins um áhald, sem mátti nota aðeins til þess að kasta umr. út úr húsinu til þeirra, sem úti á götu voru. (JakM: Algerlega rangt! ). Þetta er rétt, og ein sönnunin fyrir því, að bæjarstj. bað um þetta áhald, er það, að hún borgaði fyrir lánið á þessu tæki. (JakM: Það hefir þá verið gert af misskilningi). Og hvaða meining hefði verið í því fyrir útvarpið að heiðast þess að mega lána þetta tæki? Svo var þetta ekki heldur neitt útvarp, heldur bara nokkurskonar glymskratti, sem íhaldið fékk til að kasta sínum viturlegu ræðum út á götuna.

Hv. 2. landsk. vill enn halda því fram, að lögreglan hafi gengið of rösklega frami óeirðunum. Bæjarfulltrúarnir hafa þá á einhvern dularfullan hátt og án aðstoðar lögreglunnar komizt út úr þrönginni, en nú ber öllum saman um, að svo hafi ekki verið, heldur hafi það verið þannig, að lögreglustjóri hafi gengið á undan gegnum þröngina og lögregluþjónarnir á eftir og þannig tekizt að opna leið fyrir bæjarfulltrúana. Þetta var beinlínis sagt í þeim tveim dagblöðum bæjarins, sem annars eru ekki sérlega velviljuð lögreglustjóranum.

Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að það var tilgangur kommúnista að ná sér þarna duglega niðri á bæjarfulltrúunum og þá fyrst og fremst hv. 1. þm. Reykv., eftir því sem frétzt hefir frá þessari viðureign, og þá vegna þessarar ræðu, sem hann hélt, því að hann er annars svo mætur maður, að enginn hefði haft ástæðu til að vera á móti honum.

Hv. dómsmrh. sagði, að ég væri að hverfa frá minni fyrri skoðun, en það kemur sjálfsagt síðar í ljós, hvað satt er í því. Ég hefi lýst minni skoðun, sem er í samræmi við skoðun míns flokks á Alþingi 1925, að við vildum ef með þyrfti auka föstu lögregluna, en ekki koma upp ótakmörkuðum ríkisher. Alveg sama máli gegnir nú. Það þarf að efla föstu lögregluna, eftir því sem bæirnir vaxa og viðfangsefnin stækka, og til þess viljum við hjálpa, en að fara að ganga inn á þennan nýja grundvöll er mjög óráðlegt. Það yrði ekki til annars en að baka ríkinu mikinn kostnað og skapa vandræði, sem hér hafa ekki áður þekkzt.