05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi ekki mörgu að svara. Hv. frsm. minni hl. tók þannig á málinu, að ég sé enga ástæðu til að hefja frekari sókn á frv. heldur en meiri hl. gerir í nál. sínu. En mér virtist kenna nokkurs misskilnings hjá hv. frsm. minni hl. í sumum atriðum. Hann vildi sýna fram á, að ósamræmi væri milli nál. meiri hl. og brtt. hans. Hann sagði, að í nál. teldum við ekki rétt að leggja valdið til að fjölga lögreglumönnum í hendur ríkisstj. einnar, en svo miðuðu brtt. okkar einmitt að því. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum til að mótmæla þessu, því í upphafi ræðu sinnar gat hv. frsm. þess sjálfur, að við með till. okkar vildum draga áhrifavaldið í þessum efnum í hendur bæjanna. Till. okkar eru þannig í fullu samræmi við nál.

Þá er annað atriði í ræðu hv. frsm., sem ég vil víkja að. Hann taldi, að ekki mundi verða minni kostnaður við þá aukningu löggæzlunnar, sem gert er ráð fyrir í till. okkar, heldur en eftir frv.

Það getur vitanlega aldrei orðið annað en spádómur. En ég lít þannig á, að eftir frv. skuli verða sett á stofn ríkislögregla, en eftir okkar till. eigi ekki að gera það fyrr en fullnægt er vissum skilyrðum. Það getur komið fyrir, að þegar búið væri að fjölga bæjarlögreglunni hér í Rvík eins og gert er ráð fyrir í till. okkar, þá verði þörf fyrir meiri lögreglu, og gæti það þá leitt til þess, að ekki reyndist í framkvæmdinni beinlínis fjársparnaður að uppástungum okkar frá því, ef frv. væri samþ. óbreytt. En ef ekki er fullnægt þeim skilyrðum, sem okkar till. gera ráð fyrir, áður en ríkislögregla kemur til sögunnar, leiðir af sjálfu sér, að ríkislögreglan samkv. stjfrv. yrði að vera þeim mun fjölmennari, sem bæjarlögreglan yrði fámennari, og þess vegna hlýtur alltaf að verða sparnaður að því fyrir ríkissjóð, ef till. okkar eru samþ. Hitt er auðvitað rétt, að 60 manna lögregla kostar í sjálfu sér jafnmikið, hvort sem hún er kostuð af bæjarsjóði Rvíkur eða ríkissjóði. En ég lít svo á, að þó það sé rétt, að ríkisvaldið eigi að hafa alla yfirstjórn löggæzlunnar í landinu, þá sé ekki ástæða til að leggja í hendur þess meira af þeim málum en beinlínis þörf krefur. Eftir till. okkar hefir dómsmrh. á hendi æðstu stjórn lögreglumálanna eftir sem áður.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara inn á ræðu hv. frsm. minni hl. Því eins og ég gat um í upphafi, þá vil ég ekki gefa ástæðu til, að umr. fari inn á óhollar brautir. Ég vil, að málið verði rætt með stillingu og gætni, og að þær einar niðurstöður verði framkvæmdar, sem mönnum kemur saman um, að beztan muni gefa árangur.

Að því er snertir aths., sem hæstv. dómsmrh. gerði við nál. meiri hl., þá skal ég segja það strax, að ég finn ekki ástæðu til að fara að pexa við hann um þær.

Í raun og veru gáfu þær aths. ekki tilefni til annars en að pexa um hluti, sem ekki hafa mikla þýðingu. En hvað sem okkur hæstv. dómsmrh. ber á milli að öðru leyti, þá getum við þó verið sammála um það, að engin ástæða sé til þess að tortryggja frekar bæjarlögreglu en ríkislögregla. Það getur vel verið, að ekki sé ástæða til þess að tortryggja ríkislögregluna, eða hvernig henni verði beitt, en það verður eigi að síður að líta á það, að slíkt hefir komið fram á allgreinilegan hátt. Fyrir því höfum við ljós dæmi, þó það máske sé að ástæðulausu.

Þá lagði hæstv. dómsmrh. fyrir mig nokkrar spurningar viðvíkjandi því, hvernig bæri að skilja ýmsar brtt. okkar meiri hl. Það er fyrst um 1. gr., hvort meining okkar sé, að frv. nái aðeins til bæja eða einnig til kauptúna, sem hafa jafnmarga íbúa, 1000 eða fleiri. Ég skal strax viðurkenna, að þegar við sömdum þessar brtt., þá vakti það fyrir okkur, að frv. næði aðeins til kaupstaða, og þess vegna er orðalagið eins og það er. En ég get getið þess, að ég fyrir mitt leyti er því ekki mótfallinn, að frv. nái einnig til kauptúna, sem hafa þessa íbúatölu, en ég lít svo á, að það verði að vera skilyrði, að lögreglustjóri sé á þessum stöðum. En ég álít, að þetta geti ekki orðið ágreiningsatriði, því það er meining okkar meiri hl. manna, að þetta frv. nái til allra þeirra, sem þörf er á.

Þá spurðist hæstv. dómsmrh. fyrir um það, hver væri meiningin með ákvæðum 2. gr. um þennan 1/6 hluta lögreglunnar, sem hér í Rvík á að vera sérstök deild, og hver hefði umráð yfir henni. Ég tel, að í þessu efni sem öðru, þá sé dómsmrh. auðvitað æðsti yfirmaður lögreglunnar. Hinsvegar álít ég, að það muni verða samkomulagsatriði milli hans og lögreglustjórans í Rvík, hvernig þessi deild starfar á rólegum tímum, en á órólegum tímum, þá mun hún vera undir stjórn lögreglustjórans í Rvík eða hans umboðsmanns. Frv. gerir ráð fyrir, að á rólegum tímum geti stj. notað þennan hluta lögreglunnar til sérstakra starfa, og ég lít svo á, að þegar þessi deild er við slík störf, þá heyri hún undir dómsmrh. Þetta tel ég samkomulagsatriði milli dómsmrh. og lögreglustjóra, enda virðist sem þetta þurfi ekki að valda sérstökum ágreiningi, þar sem öllum er vitanlegt, að lögreglustjórinn í Rvík heyrir tvímælalaust undir dómsmrh.

Þá var hæstv. dómsmrh. með fyrirspurn út af 6. gr., hvernig bæri að skilja hana. Ég verð að segja, að mér finnst hún það ljós, að hún geti tæplega valdið misskilningi. Meiri hl. n. leit svo á, að þeir menn, sem væru kvaddir lögreglunni til aðstoðar, þyrftu að fá vernd. Það er ekkert annað, sem meint er með þessari 6. gr., en það má vel vera, að orðalag gr. sé ekki nógu skýrt. Um það skal ég ekki deila, en mér virðist frá leikmannssjónarmiði, að þetta orðalag sé alveg tvímælalaust.

Ég man svo ekki eftir fleirum fyrirspurnum frá hæstv. dómsmrh., og ég get að öðru leyti látið við þetta sitja að sinni.

Það, sem fram kom í ræðu hv. 2. landk., var ekki þess eðlis, að það gæfi mér tilefni til andsvara.