31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

66. mál, lögreglumenn

Lárus Helgason:

Ég þarf bara að benda á hið óskiljanlega framferði hv. 2. þm. Reykv. Þegar ég gríp fram í ræðu hans og bendi á, að þau orð hans séu ósönn, að oft hafi verið óeirðir hér á pöllunum, slíkar sem í gær, þá snýr hv. þm. þegar ranghverfunni út og slettir úr sér orðum, sem þm. eru vart samboðin. Hann segir, að ég sé bæði heimskur og vitlaus. Þetta er nú leiðtogi ungmenna þessa bæjar, sem þannig talar. Það er varla von til þess, að ungmennin hér verði fyrirmyndarfólk. Slík ræða og sú, sem hann hélt hér nú, er vel til þess fallin að vekja hið illa í unglingunum, eins og líka kom fram hér í gær. Hv. þm. væri nær að stilla betur skap sitt. Orð eins og þau, er hann mælti til mín, saka mig ekki. Þau falla á hann sjálfan.