31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég kannast ekki við að hafa mælt nein þau orð, sem gátu valdið því, að fram í var tekið af pöllunum. Að vísu var gripið með meira móti fram í í gær. En af þeim, sem voru að tala, var þó ekki óskað eftir því, að lögreglan skipti sér af því. Og á þeim, sem var að tala, þegar lögreglan hóf afskipti sín, var að heyra, að hann þættist hafa í fullu tré við áheyrendur og án allrar lögreglu. Ég stend því við það, sem ég hefi sagt, að afskipta lögreglunnar var ekki óskað af neinum.

Ég skil það, að dómsmrh. muni ekki hafa haft tíma til að rannsaka þetta mál ennþá. En ég óska, að sú ranns., er hann lofar, hefjist sem fyrst, svo úrslit hennar geti orðið kunn, áður en þingi lýkur.

Ég veit það, þó ekki væri ég viðstaddur, að sögurnar, sem ráðh. hefir fengið af kommúnistafundinum á sunnudaginn var, hafa verið rangar. Það er skiljanlegt, að þeir, sem bera slíkt á milli, geri það sögulegt, þar sem þeir eru að vinna til borgunar. Af kommúnistum getur engum stafað sá ótti, að nauðsynlegt sé að hafa mikið lið.

Mér skildist af orðum dómsmrh., að það væri ekki af hans völdum, að lögreglulið hefði verið kallað hingað, heldur hefði lögreglan sjálf staðið fyrir því. Forsetar hafa sagt, að það væri ekki af hálfu þeirra gert. Og þá fara þessi afskipti lögreglunnar að verða einkennileg. Hver stendur þá eiginlega fyrir því, að hér fylla lögreglumenn og nazistar öll herbergi? Er það Erlingur Pálsson, sem stendur fyrir því, eða er það lögreglustjórinn?

Mér láðist í gær að svara einu atriði í ræðu þm. G.-K. Hann sagði, að stj. byggði þann rétt sinn, að hafa hér varalögreglu, á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég get nú ekki séð, að það geti verið byggt á neinu ákvæði stjórnarskrárinnar. Það væri þá helzt 71. gr., en hún segir svo: „Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins, eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt með lögum“. Þetta er hið eina, sem nálgast. En hér er átt við vörn landsins út á við. Og auk þess er gert ráð fyrir, að nánar verði kveðið á um þetta með sérstökum 1. En þau hafa aldrei verið samin né samþ. Þetta er því algerlega ófullnægjandi heimild.