22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Héðinn Valdimarsson:

Mér finnst nú hæstv. forsrh. hafa farið hringinn í kringum sjálfan sig í þessu máli. Hann sagði upp verzlunarviðskiptasamningnum við Norðmenn á síðastl. sumri til þess að hafa betri aðstöðu í samningunum við þá um kjöttollinn, en nú segir hann, að þessir viðskiptasamningar hafi ekkert að segja, og mundu verða framlengdir jafnt fyrir það, þó samningarnir um kjöttollinn og veiðiréttindi Norðmanna yrðu felldir hér á þinginu. Einnig heldur hann því nú fram, að verzlunarjöfnuður milli þjóða hafi lítið að segja, þegar gengið sé til samninga um verzlunarkjör. Þetta er dálítið annað en hann hélt fram í fyrra, enda er þetta talsvert einkennileg kenning hjá hæstv. ráðh. Það er öllum ljóst, að verzlunarsamningar snúast fyrst og fremst um verzlunarjöfnuðinn, og aðalvopnið, sem við höfum gagnvart Norðmönnum, er það, að við getum keypt þær vörur hjá öðrum þjóðum, sem við fáum nú hjá Norðmönnum. Það hefir ekki komið margt nýtt fram í málinu við þessa umr. annað en það, að hv. þm. Ak. las hér upp úr hagtíðindum órækar tölur um kjötsölu okkar í Noregi hin síðari ár, sem sýna það, að salan fer ört minnkandi vegna þess að möguleikarnir til sölu þverra óðum, og er því salan orðin nær helmingi minni en við höfum tollundanþágu fyrir.

Í öðru lagi hefir hv. þm. lesið einkaskeyti frá Osló til Politiken, þar sem kemur mjög fram gleði Norðmanna yfir þeim réttindum, sem þeir hafa unnið með samningunum. Þá hefir einnig verið hent á erfiða aðstöðu okkar með að segja samningnum upp.

Það er auk þess nýtt í þessu máli, að ljóst er nú orðið um undirtektir hv. þdm. við því á þá leið, að allir stuðningsmenn stj., að einum undanteknum, hv. þm. Ak., fylgja samningunum með samvizkunnar mótmælum þó, eins og hv. þm. Vestm., sem virðist byggja á þeirri von, að Norðmenn noti sér ekki þann rétt, sem þeim er fenginn, og að ísl. menn muni ekki fást til að kaupa síld af þeim eins og hv. þm. G.-K. heldur líka fram. Mér finnst slíkt mjög barnalegt, því auðvitað hafa Norðmenn sótzt eftir þeim rétti, sem samningarnir veita, til þess að nota hann.

Úti um landið hafa samningarnir fengið kaldar viðtökur og mótmæli gegn þeim berast að hvaðanæfa. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. að reyna að villa þdm. sýn um það. Jafnvel í íhaldsfél. Verði hér í bæ, fékk hv. þm. G.-K. svo hörð mótmæli, að hann þorði ekki að bera fram till. um að hylla samningana, því hann vissi, að hún mundi verða felld, og er þó kunnugt um þau völd, er hv. þm. hefir í því félagi. Sýnir þetta, að það er þó hægt að verzla svo með sjálfstæði þjóðarinnar, að blindum fylgismönnum ofbjóði. (ÓTh: Eða benzín og olíu).

Þá vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp grein úr norsku blaði um samningana. Greinin endurbirtist í Alþbl. í gær í þýðingu og heitir:

„Fríhafnirnar fyrir fiskimenn vora á norðurströnd Íslands. — Þýðingarmesta ákvæðið í verzlunarsamningnum fyrir fiskiveiðarnar.

Ákvæðið um fríhafnirnar fyrir norska fiskimenn meðan þeir stunda Íslandsveiðarnar er vafalaust þýðingarmesta ákvæði verzlunarsamningsins. Eins og kunnugt er, eru norskum síldveiðimönnum tryggðar sérstaklega tvær hafnir. Þangað geta þeir leitað til þess að athafna sig með veiðarfæri sín, þurrkað þau og gert að þeim. Einnig umhlaðið afla og búið um veiðarfæri áður en þeir leggja af stað heimleiðis. Þetta ákvæði er því til tryggingar, að undir venjulegum kringumstæðum geta þeir flutt heim meiri veiði en ella af hverju skipi, og haft að sama skapi meira upp úr útgerðinni.

Það er einnig mjög hagkvæmt, að einmitt hafnirnar Akureyri og Siglufjörður hafa orðið fyrir valinu. Því að báðar þær hafnir liggja langbezt við af öllum höfnum á Norðurlandi, h. u. b. í hjarta þess svæðis, þar sem síldveiðin fer fram. Á báðum stöðum eru hafnirnar einkar hentugar og fullkomlega öruggar, með því að þær eru innst í djúpum fjörðum“.

Síðan snýr greinarhöf. sér að norsku þjóðinni:

„Það var á Siglufirði, að Norðmennirnir settust í öndverðu að á Íslandi, nú fyrir 35 árum síðan, til þess að stunda þar síldarútveg. Nokkrir þeirra reistu stöðvar í landi og stunduðu veiðarnar þaðan, en aðrir komu í stórhópum og söltuðu á íslenzkum stöðvum. Staðurinn ber því þann svip af norsku atvinnulífi, að síðan er hann oft í daglegu tali kallaður Norski bærinn. Sumarmánuðina tvo skipti tala Norðmannanna þar 3—4000, en fastir íbúar staðarins voru aðeins nokkur hundruð. Þorpið stækkaði hinsvegar ört eftir að Íslendingar tóku sjálfir að leggja stund á síldarútgerð, og er nú bær með kaupstaðarréttindum og 2100 íbúum. Norðmennirnir hafa átt sinn þátt í því að byggja bæinn, enda ber hann svip af norsku framtaki og kemur nú þaðan meiri hluti þeirrar síldar, sem út er flutt.

Akureyri, annar staðurinn, sem Norðmönnum er nú fenginn til umráða (stillet til nordmennenes raadighet), er höfuðstaður Norðurlands með 4000 íbúum. Þegar þrengjast tók á Siglufirði, hófu Norðmenn síldarútgerð þaðan. Staðurinn liggur ekki eins vel við og Siglufjörður, með því að Eyjafjörðurinn er mjög langur, en höfnin er ágætlega varin, innst í fjarðarbotninum. Akureyri hefir vaxið mjög ört vegna síldarútvegsins, og norskum fiskimönnum finnst þeir eiga þar eins vel heima og á Siglufirði.

Síðan fiskimenn vorir vegna hinna ströngu ákvæða íslenzku fiskiveiðalaganna tóku að leggja stund á síldveiðar frá móðurskipum utan landhelgi, hefir athafnalífið á Akureyri og Siglufirði verið mótað af norskri framtakssemi. En fyrir þá ágætu lausn, sem nú hefir fengizt með samningnum, munu norskir fiskimenn aftur geta notað sér takmarkalaust (i full utstrekning) auðæfi hafsins við norðurströnd Íslands“.

Hér er talað réttilega um samningana frá sjónarmiði Norðmanna, greinin þarf því engra aths. við. Þeir hafa fengið aðgang að Norðurlandi, eins og þeir hafa óskað eftir. Þeir hafa fengið þar sínar fríhafnir, og nú treysta þeir sér til að láta flota sinn ausa upp auðæfum hafsins eftir vild sinni. Það lítur út fyrir eins og ég gat um áðan, að hv. þdm. láti stj. neyða sig til að samþ. samninginn á þessu þingi. Ég geri ráð fyrir, að mótmælin hvaðanæfa af landinu megni tiltölulega lítið við síðari umr.

Það hefir verið hampað fundarsamþykktum frá framsóknarfélagi á Siglufirði og sjálfstæðisfélagi á sama stað, sem eru vínveitt samningunum, en það mun koma brátt í ljós við þá almennu atkvgr. um málið, sem fram fer þar á staðnum, hversu margir þeir leppar þessara flokka eru, sem staðið hafa að fundahöldunum. Það mun koma í ljós, að þeir eru ekki margir þar, sem eru samningunum hlynntir, og sömu fréttir munu berast frá öðrum stöðvum á Norðurlandi. En ég geri ráð fyrir því, að ef á að fella samningana, þá þýði lítið að treysta á þingið. Það eru verkalýðssamtökin, sem yrðu að taka til sinna ráða, til þess að stöðva þennan ófögnuð, og það verður áreiðanlega tekið til athugunar.