22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Bjarni Ásgeirsson:

Það var aðeins örlítil aths. út af orðum hv. þm. Ak., um það, hvort kjötið, sem nú í haust var sent héðan til Noregs, væri allt selt. Ég held, að ég megi fullyrða það, að ég hafi þær upplýsingar frá svo ábyggilegum stað, að ekki þurfi að vefengja það, að kjötið hafi allt verið selt löngu fyrir jól. Hitt atriðið skiptir litlu fyrir okkur Íslendinga, hvort það er allt selt til neytenda; eða m. ö. o., hvort það er allt étið ennþá. En það, að Norðmenn hafi keypt það allt upp og það löngu fyrir jól, sannar það, að þeir eru ekki hræddir um, að það seljist ekki. Eftir áreiðanlegum upplýsingum að dæma, hefir eftirspurn eftir ísl. kjöti í Noregi verið talsvert mikil. Henni er að vísu lokið nú, en það er af því, að Norðmenn vita, að héðan er að þessu sinni ekki meira kjöt að fá.

En þetta sýnir það, að hægt hefði verið að selja til Noregs í haust meira kjöt en selt var. Ég get auðvitað ekki sagt um, hvort það hefði getað orðið þriðjungi eða helmingi meira, en það er víst, að ótrúlega miklir markaðsmöguleikar eru enn fyrir okkar kjöt í Noregi, þrátt fyrir hina miklu auknu kjötframleiðslu þar.

Ég held, að ég hafi ekki þurft að svara fleiru, og get játið þetta nægja.