24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ólafur Thors:

Ég sé ekki ástæðu til að tefja umr. með því að svara þeim hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Ísf., enda voru ummæli þeirra hógvær og aðhylltust þeir ýms ákvæði samninganna.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að andmæla þeim skýringum og rökum, sem færð hafa verið fram í umr. fyrir því, að hlunnindi þau, er Norðmönnum eru veitt með samningunum, komi einnig til handa öðrum þeim þjóðum, sem við njótum beztukjarasamninga hjá. Það liggur ekkert fyrir um þetta. Ég efast ekki um, að þessar þjóðir haldi því fram, að svo eigi að vera, en það er hinsvegar alveg ástæðulaust fyrir fulltrúa íslenzku þjóðarinnar á Alþingi að fara að slá nokkru föstu um þetta og halda því fram, að þessir samningar séu hliðstæðir beztukjarasamningum meðal annara þjóða. Þessir samningar, sem tryggja Norðmönnum viss mjög lítilfjörleg hlunnindi hér við land, veita Íslendingum mjög verulega ívilnun á tolli fram yfir aðrar þjóðir, hlunnindi, sem aðrar þjóðir gætu ekki veitt okkur. Mér svíður það, að hv. 2. þm. Reykv. skuli halda því fram sem alveg óbifanlegri vissu, að önnur ríki, sem við höfum beztukjarasamninga við, geti heimtað sér til handa sömu hlunnindi og Norðmenn hafa fengið, vegna þess að hann er einmitt nú að koma af utanríkismálanefndarfundi, þar sem einmitt var um það rætt, hvort þessi skilningur væri réttur á þessu atriði málsins, og margir þeir, sem bezt vit hafa á þeim málum, álíta einmitt, að svo sé eigi, og sé það alveg óviðeigandi, að þessum skilningi sé opinberlega haldið fram hér á landi. Þetta er því fullkomið frumhlaup hjá hv. þm. að rjúka hingað niður á Alþing og láta hér skjalfesta eftir sér þennan skilning, þó þetta sé að vísu ekki nema rétt eftir annari framkomu þessa hv. þm. í þessu máli.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að þeim möguleika eða þeirri hættu, sem á að vera á því, að Bretar taki að stunda síldveiði hér við land. Bretar hafa nú um langan aldur stundað síldveiði við strendur Bretlands, og allan þann tíma hafa þeir haft sömu aðstöðu og nú til þess að stunda síldveiði hér við land, en þeir hafa ekki lagt út á þá braut, því þeir hafa ekki talið sér hag í því, og enn sem komið er hefir engin ný hætta myndazt í þessu efni.

Ég vil víkja aftur að þeirri spurningu, hvort aðrar þjóðir hljóti af sjálfu sér þann rétt, sem Norðmenn fá með samningunum, og taka fram, að enda þótt því sé haldið fram af nokkrum mönnum, að svo sé, þá álít ég það aðeins veilu fyrir málstað okkar Íslendinga, að fleiri bætist í þann hóp, sem fyrirfram lýsa yfir áliti sínu á þessu atriði.

Því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um afstöðu Siglfirðinga til þessa máls, þarf raunar ekki betur að svara en hæstv. forsrh. nú hefir gert. Skeyti það, er hv. þm. las upp, sannar ekki neitt um það, að fregnir frá félögum sjálfstæðismanna og framsóknarmanna séu rangar, fremur en það, að hv. 2. þm. Reykv. greiddi ekki atkv. móti norsku samningunum við 2. umr. hér í hv. d. sannar, að hann sé meðmæltur samningunum. (HV: Ég var ekki viðstaddur). Nei, hann var ekki viðstaddur, og eins mun og hafa verið um þá menn á Siglufirði, sem eru meðmæltir samningunum.

Ég efast ekki um það, að hæstv. forsrh. getur eins og ég skjalfest það, að fundirnir voru báðir einróma fylgjandi samningunum. Í öðru félaginu var samþ. ályktun um það, að samningarnir væru viðunandi, en hitt félagið lét í ljós skilyrðislausa ánægju með þá. Á fundi þeim, er félag sjálfstæðismanna hélt, voru staddir 57 félagar.