11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki að segja margt út af ræðu hv. 2. landsk. Hann sagði, að ég hefði sagt, að hann hefði hártogað þennan samning. Það er alveg rétt. En hann vildi segja, að það væri „kritik“ á honum, en það er allt annað. Hann hefir einmitt verið hártogaður og það á mjög ósæmilegan hátt.

Um fiskiveiðalöggjöfina frá 1922 ætla ég eingöngu að taka það fram, að hún er svo ströng, að ég hefi enga trú á því, að vegna alþjóðaréttinda sé hægt að gera hana strangari. Þó að öllum samningum væri sleppt við Norðmenn, hafa þeir samt þau réttindi, sem fiskiveiðalöggjöfin veitir þeim og ekki er hægt að taka af þeim. Það má að vísu rýra þau með því að fara í tollstríð við Norðmenn, en það er oftast svo, að þjóðirnar reyna heldur að semja en að lenda í tollstríði, og ég hygg, að stærri þjóðir en við vildu heldur reyna að komast að samningum heldur en að lenda í tollstríði við sínar frændþjóðir.

Þegar ég minntist á það, að það hefði ekki verið gott fyrir stjórnina að kaupa allt það kjöt, sem út var flutt í haust, þá átti ég við það, að ríkissjóður hefði ekki haft fé til þess, og svo vantaði ríkisstj. fyrst og fremst heimild til þess. En þá kemur hv. þm. (JBald) með varalögregluna. Það er það eina dæmi, sem hann hefir um það, að stjórnin hafi eytt fé án þess að hafa heimild til þess. Þessu stagast hann alltaf á. Það er það eina. Ég segi því: Það eru þá ekki margar syndir stjórnarinnar (JBald: Þessi er líka slæm). Það kemur til álita síðar.

Þá sagði hv. 2. landsk., að það vantaði saltkjöt nú. Ég skal ekkert fullyrða um það, en ég veit, að það er nóg nýtt kjöt til í landinu. Ef nóg væri af saltkjöti, þá rýrði það sölu á nýju kjöti, því er ekki hægt að mótmæla, og það er líka viðurkennt, að nýtt kjöt er betra. Og það er það, sem við verðum að keppa að, að nota sem minnst saltkjöt. Þess vegna getur hv. þm. ekki notað þetta sem rök á móti samningnum. (JBald: En nú vilja menn heldur saltkjöt en það nýja). Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir athugað það, að það var óvanalega litlu slátrað í haust og það er ekkert óeðlilegt, þó að bændur kinoki sér við að slátra miklu þegar verðið er mjög lágt. Í öðru lagi var heyskapur óvenjulega góður síðastl. sumar og í þriðja lagi var féð með rýrara móti í haust. Allt þetta eru nægar ástæður til þess, að minna kjöt er til heldur en venjulega hefir verið.

Þá sagði hv. 2. landsk., að takmörkunin á innflutningnum á kjöti til Noregs væri frá okkur sjálfum. Það vona ég, að sé ekki, að öðru leyti en því, að það var fyrst orðað af öðrum samningsmanni okkar, en það var þá fyrir þær ástæður, að hann sá enga von um það, að við mundum komast að samningum við Norðmenn að öðrum kosti. Ef það hefði ekki verið fyrir þessa sök, þá hefði verið óforsvaranlegt að fitja upp á slíku. En í því er ég hv. þ. m. alveg samþykkur, að þessi takmörkun er versti gallinn á samningnum.

Það er alveg satt, að Norðmenn hafa hlunnindi hér í verzlun og siglingum. En menn mega ekki halda það, að hægt sé að banna verzlun og siglingar. Allar þjóðir hafa heimild til þess að sigla til annara landa, ef greidd eru þau gjöld, sem heimtuð eru í því landi, sem siglt er til. Heldur hv. þm. virkilega, að hægt sé að banna mönnum að sigla um höfin og til hafna ýmissa landa. Nei, það eina, sem hægt er að gera, er að gera þessar siglingar svo dýrar með því að heimta svo há gjöld af skipunum, að þessar siglingar verði ógerningur.

Það, sem hv. þm. var að tala um, var því það, að við skyldum fara í viðskiptastríð við Norðmenn. Ég er nú hræddur um, að það yrði okkur nokkuð dýrt, ef við ætluðum að fara þannig að við aðrar þjóðir. A. m. k. getur enginn búizt við því, að nokkur stjórn fitji upp á því, án þess að þingið láti í ljós nokkra ósk um slíkt stórræði.

Það er algengt að tala um það, að við seljum Norðmönnum minna en við kaupum af þeim. En hefir nú hv. þm. athugað það, hvort það er meira eða minna hlutfallslega við verzlunarmagn landanna beggja, sem við kaupum. Ég hygg, að það sé minna hlutfallslega, sem þeir selja okkur, en það, sem við seljum þeim. Það var upplýst við umr. í Nd., og það hefir heldur ekki verið hrakið, að það er 1% af þeirra viðskiptaveltu, sem verzlunin við okkur nemur. Svo er varhugavert að halda mjög einstrengingslega við það atriði, við verðum að muna það, að við verzlum mikið við aðrar þjóðir. Hvernig er um samninginn við Spán og Portúgal? Ekki er verzlunarjöfnuðurinn okkur í hag, ef við þurfum að semja við þá. (JBald: Hvað verður þeim boðið, fyrst Norðmenn fá þetta?). Ég veit það ekki, hvað þeim verður boðið, en það er bezt að láta tímann skera úr því.

En ef hv. þm. heldur, að það hafi verið hægt að komast að betri samningum við Norðmenn, þá fer hann villur vegar. Það sýnir bezt þessar hártoganir og aðfinnslur á þýðingu 13. gr. samningsins, hvað lítil rök andstæðingarnir hafa gegn þessum samningi. Það hefði að vísu verið réttara, eins og hæstv. forsrh. sagði, að orða þýðinguna þannig, að þar sem stendur: „vill ekki greiða sekt“ ætti að vera „samþykkja ekki að greiða sekt“. Þetta er nákvæmara, en meiningin er alveg sú sama. En auðvitað verður hér á landi farið eftir ísl. textanum, en í Noregi verður farið eftir norska textanum.

Þá sagði hv. 2. landsk., að aðstöðumunurinn hefði verið mikill vegna þess, hve samið hefði verið á óhentugum tíma. En man ekki hv. þm. eftir því, að Norðmenn vildu ekki semja fyrr en þetta? Ekki stóð á okkur. Sveinn Björnsson sendiherra var sendur hvað eftir annað frá Kaupmannahöfn til Noregs, til þess að reyna að taka upp samninga í fyrravetur. En það var ekki fyrr en hæstv. forsrh. hafði farið til Noregs, sem hægt var að fá þá til þess að byrja á samningum, og þá var rétt komið að síldveiðitímanum, svo það er ekki okkur að kenna, þó að þessi aðstöðumunur hafi verið. Það var ómögulegt að taka upp samninga fyrr en gert var, af þessari ástæðu. Þetta hlýtur hv. þm. að vita vel.