01.06.1933
Neðri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1891)

209. mál, víxilskuldir á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands 1931

Sveinn Ólafsson [óyfirl.]:

Ef til vill væri bezt að láta umr. falla niður og atkv. skera úr.

En af því að það var ýmislegt, sem tekið var fram af hv. þm. Borgf., sem ég held, að ekki hafi verið athugað að fullu hjá honum, fannst mér ég verða að gera dálitla aths. Það lá í orðum hans, að síldareinkasalan hefði ekki verið ríkisstofnun. Vissulega var hún ríkisstofnun. En það er annað mál, hvort ríkið sé skylt að taka að sér skuldir allar, sem nú er krafið um. Ég veit það vel og það þarf ekki að taka það upp með mörgum orðum, að ríkissjóður verður ekki krafinn um þessar skuldir sem sjálfskuldir. Þá hefði ekki þurft að fara fram á þetta með frv. Hér er farið fram á þetta sem sanngirnismál. Þessir menn hafa verið á tálar dregnir og látnir í góðri trú selja víxla til þess að inna af hendi skuldir einkasölunnar, sem hún hafði annarsstaðar á landinu greitt. Hér er því aðeins um sanngirnismál að ræða, að þessir menn fái nokkurt jafnrétti við aðra skiptavini þessarar ríkisstofnunar. Að því er kemur til meðferðar málsins síðar meir, þá vita allir, að það getur ekki komið fram öðruvísi en ósk á þennan sama veg, eða ósk um að verða við sanngirniskröfu. Ég get minnt á það, að þingið hefir nokkrum sinnum hlaupið undir bagga með mönnum, sem fyrir óhöppum hafa orðið, án þess að þau hafi á nokkurn hátt verið sett í samband við ríkisfyrirtæki.

Ég man eftir því, að einu sinni samþ. þingið styrkveitingu til manna, sem höfðu orðið fyrir tjóni af því, að eldingu hafði slegið niður í hús. Einnig get ég bent á það tilfelli 1918, þegar Skaftfellingar urðu fyrir mestum búsifjum af Kötlugosi. Þá var hlaupið undir bagga með þeim.

Ég ætla svo ekki að elta ólar um þetta. Ég treysti sanngirni hv. þm., að þeir líti á þörf þessara manna og það, hvað þeir hafa verið illa leiknir, og sú sanngirni sigri að lokum, þó það verði ekki fyrr en síðar meir. Hverjar aðfarir stj. kann að hafa til þess að fá frestað aðförum að þessum mönnum, skiptir minnstu máli, en eins og það horfir við, virðist mér það tæplega geta orðið á annan veg en víxilrétturinn verði framlengdur eða gengið verði að mönnum. Um annað virðist ekki vera að ræða.