26.04.1933
Neðri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Fyrir hönd sjútvn. hefi ég aðeins fátt að segja um þetta frv., enda er það ekki mjög mikilvægt að efni. Í því felast ekki neinar verulegar efnisbreyt. á hafnarlögum Rvíkur frá 1911. 1. gr. frv. lýtur aðeins að fyrirkomulagi við kosningu hafnarnefndar. En 2. gr. býr nokkru betur en áður var um innheimtu hafnargjalda, m. ö. o., færir þau í flokk með öðrum opinberum gjöldum, svo sem sveitargjöldum og bæjargjöldum. — Það er ekki neitt í þessum breyt. fólgið, sem n. telur ástæðu til að vara við eða leggja á móti. Ég vil því f. h. n. vænta þess, að frv. fái að ganga áfram óbreytt, svo sem hún leggur til, að gert verði.