10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

90. mál, vitagjald

Halldór Stefánsson:

Ég skal í fjarvist hv. frsm. n. gera stutta grein fyrir afstöðu hennar til málsins.

Þetta frv. er flutt af þeirri meginástæðu, að vitagjaldið fyrir skemmtiferðaskip sé hér á landi svo hátt, að ferðafélögin, sem látið hafa skip sín sigla hingað undanfarin ár og kvartað hafa um lengri tíma undan vitagjaldinu, hafi mjög á orði ýmist að draga úr eða hætta viðkomum hér, og óttast kunnugir menn um þetta efni, að svo muni verða. Aðrar þjóðir hafa allar miklum mun lægri vitagjöld fyrir skemmtiskip en vér, og sum ríki hafa fellt það með öllu niður, til þess að beina til sín þessum siglingum. Til n. hafa borizt allýtarlegar upplýsingar, sem staðfesta líkurnar fyrir því, að það sé á rökum byggt, að þessi félög fráfælist það að senda skip sín hingað, vegna hins háa vitagjalds. Þó að n. þyki út af fyrir sig ekki ástæða til að hlífa þessum félögum við gjöldum, þá telur hún þessar ástæður muni vera á rökum reistar og að vera megi — og enda líklegt —, að vitagjald af skemmtiskipum muni engu meiri tekjur gefa í ríkissjóð, þó því sé haldið óbreyttu, en þótt það verði lækkað nokkuð eftir till. frv., auk þess beina og óbeina hagnaðs annars, sem af þessum siglingum er. Það kom til tals í n. að gera ívilnun í þessa átt á þeim grundvelli t. d. að setja tvennskonar hámark fyrir vitagjaldinu, þannig, að annarsvegar væri ekki greitt meira en einhver hámarksupphæð að krónutölu fyrir hvert skip, hve stórt sem það væri, og hinsvegar ekki hærri upphæð en 10—15 kr. fyrir hvern farþega. N. féll þó frá þeirri hugmynd, með því að ferðafélögin myndu ekki telja sér það jafnhagstætt.

N. er ekkert kappsmál um þetta frv., en þó varð niðurstaða hennar sú, að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.