17.03.1933
Neðri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ein af þeim kröfum, sem fylgdu sjálfstæðisbaráttu Íslands, var það, að flytja inn í landið æðstu menntastofnunina, hvort sem hún var kölluð þjóðskóli eða háskóli. Fyrst var settur á stofn prestaskóli, þá læknaskóli og loks lagaskóli. Þegar stj. var flutt hingað til lands, jukust kröfurnar um það, að setja hér á fót eina stofnun, þar sem þessar deildir væru sameinaðar og svo bætt við því, sem þyrfti til þess, að hægt væri að tala um það, að hingað inn í landið hefði verið fluttur háskóli. Sá, sem fyrst kom fram með þessar kröfur og bar þær bezt fram, var Jón Sigurðsson. Þegar 100 ára afmælis hans var minnzt, 1911, þá var það gert m. a. með því að leiða í framkvæmd þessa eina af uppáhaldshugsjónum hans, hugmyndina um þjóðskóla. Var þá háskólinn settur hér á fót, að lítið undirbúnu máli; sérstaklega vantaði hann húsrúm. Fyrir því, að skólinn fengi viðunandi húsrúm til afnota, stóð það í vegi, að mönnum óx í augum kostnaðurinn við að byggja yfir hann. Þá hugkvæmdist mönnum, að nota mætti stofur landsbókasafnsins til að hola skólanum niður í fyrstu árin, til þess að hugsjóninni yrði þó hrundið í framkvæmd. Þetta var svo gert. En það var álit manna þá, að draga mætti það ekki lengi að koma upp húsi handa háskólanum. Hann er að þessu leyti langverst settur af öllum stofnunum á landinu, að hann á ekkert hús. Enginn annar skóli á landinu er eins illa settur að þessu leyti. Sumir álíta, að háskólinn þurfi lítið húsrúm. En að öllu samanlögðu mun hann þó vera stærsti skólinn á landinu, því að þar munu vera, nemendur og kennarar, samtals um 200 fullorðnir menn.

Nú er það vitanlegt, að kennsla er nokkuð með öðrum hætti í háskólanum en í öðrum skólum flestum, að því leyti, að kennslustundir eru ekki eins margar, og fyrir það verður skólinn ekki eins rúmfrekur. En námið er oft rúmfrekt. Ég hygg, að fáir háskólar séu til í heiminum, þar sem ekki sé séð fyrir mjög miklu húsnæði fyrir vinnustofur, auk kennslustofa til bóknáms. Læknadeildin er þó langplássfrekust.

Stúdentar þurfa að hafa tækifæri til að koma saman til þess að iðka leikfimi og annað, sem ungum mönnum er hollt. En með núv. fyrirkomulagi er hér allt slíkt útilokað. Þá hefir skólinn ekki haft sérlega rúmgóð eða björt bókasafnsherhergi.

Ekki er hægt að kenna öllum nemendum skólans í kennslustofunum. Til þess er ekki rúm, svo að nota verður einnig til þess kennaraherbergi. Ef stúdentarnir vilja koma saman, hafa þeir engan stað utan kennslustofanna til þess, nema anddyri með dragsúg. Þótt mönnum sé þetta kunnugt, nefni ég það hér til þess að gera mönnum það betur skiljanlegt, að það er óhugsandi, að dregizt geti lengi, að ríkið verði að leggja fram mikið fé til háskólabyggingar. Þetta hefir Alþingi viðurkennt með lögum frá síðasta ári um byggingu fyrir Háskóla Íslands. En þótt þau 1. væru sett, hygg ég, að það hafi verið nokkuð ofarlega í huga margra, að dráttur mundi verða á því, eins og fjárhag ríkisins er háttað, að farið yrði að taka upp á fjárlög 200 þús. kr. tillag á ári, til þess að koma upp háskólabyggingu. Ég hygg, að mönnum sé það flestum ljóst, að það muni dragast nokkuð lengi að fá þessa byggingu, ef ekki verður leitað einhverra sérstakra annara ráða. Háskólaráðið hefir vitaskuld verið alltaf við og við að bera fram kveinstafi okkar um að koma upp. húsi fyrir skólann. Nú hefir háskólaráðið ekki látið sitja við það eitt, heldur líka bent á leið til að afla fjár til háskólabyggingar, en að vísu á löngum tíma. Og það eru þessar till. háskólaráðsins, sem menntmn. þessarar d. hefir fallizt á og borið fram fyrir hæstv. Alþ. með þessu frv. Hugmyndin er að taka upp að mestu óbreytt frv. það, sem fram var borið hér á Alþ. 1925 um íslenzkt ríkishappdrætti, og að verja ágóðanum af því happdrætti til háskólabyggingar. Með því móti yrði létt af ríkissjóði þeirri þungu kvöð að koma þessu húsi upp á næstu árum. Sjálf hugmyndin um happdrætti hefir orkað nokkuð tvímælis. Sumum hefir fundizt þetta hálfsvindilbraskkennt. Eftir ósk minni lét hæstv. þáv. ríkisstj. rannsaka málið mjög vandlega og sérstaklega það, á hvern hátt hægt væri að byggja upp happdrætti á fullkomlega heilbrigðum grundvelli, sem ekki byggðist á sölu í öðrum löndum. Verk þetta var leyst af hendi af sérfræðingi við hið danska klasselotteri, og kom út mjög ýtarleg skýrsla um það, sem frv., er lagt var fyrir þingið 1925, var svo byggt á. Hygg ég, að fá mál hafi fengið betri undirbúning. Þótt hv. þm. séu að vísu ekki fullkomlega færir um að dæma um fyrirkomulag happdrættisins, því að það er sérgrein, þá má hiklaust treysta því, að málið er vel undirbúið. Í frv. er t. d. ein gr. um það, hve hárri hlutatölu eigi að gera ráð fyrir. Má vel vera, að 25 þús. hlutir sé of hátt, en það skaðar ekki, þótt ég búist ekki við að svo há hlutatala seldist í upphafi. Annars er frv. miðað við það, að ef menn vilja viðurkenna hugmyndina um happdrætti, þá sé sem heilbrigðast frá öllu gengið. Yfirleitt er lagt meira upp úr því, að margir geti unnið heldur en hafa fáa afarstóra vinninga. Ég býst ekki við, að menn greini á um það, að mikil nauðsyn sé að koma upp háskólabyggingu. Er þá gott fyrir ríkissjóð, ef hann gæti verið laus við að leggja til þess fé af sínum árlegu tekjum. En deilan stendur sennilega aðallega um það, hvort rétt sé yfirleitt að innleiða happdrætti hér. En ég vil benda hv. þdm. á, að happdrætti mun vera til í öllum löndum meira og minna, nema Englandi, eins og sjá má í erindi háskólaráðsins, sem fylgir þessu frv. Englendingar hafa algerlega staðið á móti happdrætti hjá sér, af því að það sé óheilbrigð meðferð fjár. En þessi þjóð hefir einmitt fengið happdrættið í annari mynd, þar sem eru veðmálin. Englendingar hafa orðið að fullnægja þessari ævintýralöngun manna, sem er fullnægt með happdrættinu. Og ég verð að játa, að ég get ekki séð, hvað er athugavert við það. Það er mikill kostur, að þetta breytir í engu viðskiptunum við útlönd og þarf ekkert þangað að flytja eða sækja. Hin einu áhrif happdrættisins á þjóðarbúskapinn myndu verða þau, sem alltaf leiðir af því, að peningar hreyfast manna á meðal. Þetta fé rennur beinlínis úr einum vasanum í annan. Eins og frv. gerir ráð fyrir, að happdrættið verði byggt upp, þá renna 70% fjárins beint í sömu vasana aftur í vinningum. Og af þessum 30% fer nokkur hluti til rekstrar fyrirtækisins, laun stjórnar og annara starfsmanna o. s. frv. Er ekkert við þetta að athuga, og er það ekki annað en atvinna fyrir talsvert af fólki. Afgangurinn rennur svo til þessa fyrirtækis, sem hvort sem er verður að komast á fót. Ég vil svo henda á það, að um leið dreifðist þetta fé út til þeirra, sem að byggingunni vinna, og yrðu það nokkrar atvinnubætur á þeim tímum, þegar annars er lítið um vinnu.

Ég sé svo ekki þörf á fleiri ummælum að sinni, en ef það er eitthvað, sem hv. þm. leikur hugur á að fá vitneskju um í sambandi við frv., þá skal ég með ánægju leysa úr því eftir megni.

Vil ég leyfa mér f. h. menntmn. að óska, að frv. verði vísað til 2. umr.