24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. þm. Seyðf. talaði hér langt mál, og af því mælti hann talsvert til mín. Verð ég því að svara honum nokkrum orðum, en mun þó reyna að vera ekki eins langorður og hann. Ætla ég þá að byrja þar, sem hann endaði — á Íslandsbankamálinu. Um mánaðamótin jan. og febr. 1930 lokaði bankinn. Þá þegar var látin fara fram bráðabirgðarannsókn á hag hans. Á þinginu 1930 var málið mikið rætt og lauk þannig, að bankinn var endurreistur undir nafninu Útvegsbanki Íslands. Þetta mál var eitthvert mesta hitamálið á þinginu 1930, og nokkrir menn börðust frá byrjun hatramlega á móti bankanum. En þrátt fyrir hóflausar árásir jafnaðarmanna, sá þáv. stjórn ekki ástæðu til að skipa rannsókn á bankastj., heldur var Eggert Claessen sýnt það traust, er bankinn var endurreistur, að vera kosinn í bankaráðið, og margir vildu fá hann sem bankastjóra. Þetta sýnir, að þeir menn, sem mest áttu undir um stjórn bankans, hafa vissulega ekki álitið hann vera sakamann, sem ætti að sækja með sakamálsrannsókn og dómi. Þegar þinginu 1930 lauk, datt engum í hug nokkur sakamálsrannsókn út af lokun bankans, og svo líður allt árið 1930 og nokkur hl. þings 1931, að allt er kyrrt. Samvizkan og réttlætið, sem nú gala sig hás eins og hrafn, sofa ennþá værum svefni. En 21. marz 1931 vaknar nýr aðili, pólitískt félag hér í bænum — „Dagsbrún“— og er hv. 2. þm. Reykv. formaður þess. Þarf ekki að draga í efa, að kæra þess hafi verið pólitísk. En daginn, sem þetta félag vaknar og krefst þess af lögreglustjóranum í Reykjavík, að hann hefji réttarrannsókn út af stjórn bankans, sendir lögreglustjóri þáv. ráðh. kæruna, og svarar hann lögreglustjóra, að fara skuli fram utanréttarrannsókn út af málinu og heimilar fé til þess. 20. apríl 1931 er lögreglustjóra skrifað að láta fara fram sakamálsrannsókn, ef utanréttarrannsóknin gefi tilefni til þess. Svo líður allt árið 1931, og fram í maí 1932, að ekki verður séð af skjölum Stj.ráðsins, að nokkuð hafi gerzt í málinu. En í maí 1932 kemur bréf frá lögreglustjóra, sem er dags. 20. maí, þar sem hann sendir skýrslu Stefáns Jóh. Stefánssonar, Einars Arnórssonar og Þórðar Eyjólfssonar um utanréttarrannsóknina. Í þessu bréfi óskar lögreglustjóri, að sér verði greiddar 7750 kr. fyrir rannsóknina, og var það gert nokkrum dögum seinna. Ennfremur óskar hann þess í bréfinu að fá frekari fyrirskipun um, hvað gera skuli í málinu. M. ö. o. lítur út fyrir, að ekkert það hafi komið fram við rannsóknina, sem gefi honum ákveðna vísbendingu um, hvað hann eigi að gera, því að fyrirskipun var hann búinn að fá um það, að hann ætti að láta fara fram réttarrannsókn, ef utanréttarrannsóknin gæfi tilefni til þess. Og það stóð ekki lengi á þessari frekari fyrirskipun, því að strax eftir að fyrrv. dómsmrh. hafði fengið þetta bréf lögreglustjórans er honum skrifað svo hljóðandi bréf :

„Eftir móttöku bréfs yðar, herra lögreglustjóri, dags. 20. þ. m., viðvíkjandi tildrögum að lokun Íslandsbanka, hefir ráðuneytið athugað skýrslu þá, er fylgdi bréfi yðar.

Svo sem skýrslan ber með sér, verður ekki hjá því komizt að hefja þegar sakamálsrannsókn gegn fyrrverandi bankastjórum Íslandsbanka og höfða síðan, að þeirri rannsókn lokinni, sakamál gegn þeim.

Jónas Jónsson.

Til lögreglustjórans í Reykjavík“.

Hér er sagt í þessu bréfi, að eftir að ráðuneytið hafi „athugað þessa skýrslu...“ Þessi skýrsla kemur 23. maí, en fyrirskipunin um sakamálsrannsóknina er gefin út 24. maí. „Rannsókn“ málsins hefir því staðið yfir einn dag. Það stendur, að ráðuneytið hafi athugað þessa skýrslu, en það sést ekki, að það hafi aðrir gert en ráðh. sjálfur, því að enginn embættismaður í dómsmálaráðuneytinu hefir komið þar nærri, og það, sem líka er athugavert í þessu efni, er það, sem hv. þm. Seyðf. vildi annars áfella fyrir, að skipa sakamálsrannsókn án þess að nokkuð sé áður komið fram við rannsókn, sem gefi tilefni til sakamáls, svo að hefði ég átt þarna í hlut, mundi hv. þm. Seyðf. hafa verið allillorður, en af því að honum er betur við fyrirrennara minn en mig, þá lætur hann hann vera í friði fyrir yfirsjónir þessar. Og þessi fyrirskipun er gerð án þess að leitað hafi verið með einn orði til bankastj. um málið. Sakamálshöfðun er fyrirskipuð án þess að þeir hafi verið spurðir um eitt einasta atriði, sem við kemur málinu, og er það hreint og beint brot á grundvallarreglum allra refsilaga og alls refsiréttar, því að þar er fyrsta boðorðið, að hlustað skuli á hinn sakborna. Þannig stóð málið, þegar ég tók við dómsmálaráðh.stöðunni í byrjun júní í fyrra. Þá voru liðin 2 ár og 4 mánuðir frá lokun bankans. Og þegar ég spurðist fyrir í ráðuneytinu um gang málsins, fékk ég að vita, að enginn embættismaður þar hafði farið yfir þessi skjöl, nema dómsmrh. sjálfur. Þess vegna lagði ég fyrir lögreglustjórann að endursenda mér þessi plögg, og var það gert með bréfi 13. júní í fyrra. Síðan hafa bankastjórarnir haft tækifæri til að kynna sér skjöl málsins og kæruna, og að fenginni umsögn þeirra ákvað ég, eftir að hafa kynnt mér málið, 18. f. m. að láta málið falla niður. Það var ekki rétt, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að afturköllunin hafi ekki verið gerð fyrr en vantrauststill á mig var komin fram. Ég held, að það hafi verið nokkrum dögum áður, svo að það stendur ekki í sambandi við það. Þetta er saga málsins. En nú ætla ég að skýra frá því, hvers vegna ég lét málið falla niður. Ég verð fyrst að benda á, að málið var frá öndverðu pólitískt. Kærandinn er félag, sem rammur hatursmaður bankans er formaður fyrir. Ég vil ennfremur benda á, að þessi sakamálshöfðun er fyrirskipuð á þeim tíma, sem fyrirrennari minn veit, að hann er að fara úr embættinu. Og þetta er ekki eina málshöfðunin, heldur fyrirskipar hann sakamál á eitthvað 10 eða 12 menn þessa dagana. Ég þykist vita, að hann hafi þekkt talsvert áður til þessa máls — og hefði hann haft nægan tíma til að fyrirskipa rannsókn og þá síðan sakamál, ef hann hefði haft fulla sannfæringu fyrir því, að það væri rétt. Ég byggi þetta álit mitt á því, að á eldhúsdegi í fyrra, 4. apríl, nefndi hann hvað eftir annað og las upp ýmislegt úr þessum skýrslum, sem hinir skipuðu menn höfðu gefið um rannsóknina. Ég býst því við, að það séu þær skýrslur, sem hv. þm. Seyðf. var að kvarta um að sér ynnist ekki tími til að lesa nægilega mikið upp úr, og vona ég, að honum vinnist tími til þess síðar við umr. En allt þetta væri e. t. v. aukaatriði, ef eitthvað lægi fyrir, sem sýndi, að bankastjórnin væri í verulegri sök. En þessi tildrög málsins sýna þó a. m. k., hvernig málið er til komið. Til þess að mynda sér skoðun um það, um hve mikla sök sé að ræða hjá þessum bankastjórum, verða menn að gera sér grein fyrir, hvað þeim er borið á brýn. Ég hefi farið mjög vandlega í gegnum þessi skjöl, og ég finn ekki, að þeim hafi verið borið annað á brýn en að bankinn hafi tapað. Og það er satt — hann hefir tapað miklu.

En það er ekki þessi eini banki, sem hefir tapað. Allir bankar í heimi hafa tapað og fjöldi lokað af þeim ástæðum. Og það er einnig svo um okkar banka, að þeir hafa tapað. Það lægi nærri fyrir hv. þm. Seyðf. að bera saman tapið á útibúi Íslandsb. á Seyðisfirði og útibúi Landsbankans á Eskifirði. Ef hann vildi gera þar óhlutdrægan samanburð, mundi hann komast að raun um, að tap Landsbankaútibúsins á Eskifirði er mörgum sinnum meira en tap útibús Íslandsbanka á Seyðisfirði. Það út af fyrir sig, að tap hefir orðið á bankarekstrinum, getur að sjálfsögðu ekki varðað refsingu fyrir nokkurn bankastjóra. Ef svo væri, þá myndu allir bankastjórar vera sakamenn nú á dögum, eða a. m. k. svo að segja allir. Ástæðan til taps banka yfirleitt í heiminum er sú truflun, sem varð eftir heimsstyrjöldina. Ég hefi sagt það oft áður og segi það enn, að ekki er undarlegt, þótt það komi niður á peningamálum heimsins, þegar tugir milljóna manna gera ekkert annað en drepa og myrða og framleiða vopn í stað verðmæta. Mér dettur ekki í hug að bera það af bankastjórunum, að þeir hafi lánað ógætilega. Það held ég oft hafi verið gert, og vil ég ekki draga þá undan þeirri sök, en þeir eru í því efni samsekir við alla aðra bankastjóra, því að það var nú svo á stríðstímunum og næstu árin á eftir, að flestir virtust hafa misst taum á peningamálunum. Ég tók eftir því, að hv. þm. Seyðf. talaði um, að reikningar bankans mundu vera „falsaðir“, eins og hann orðaði það, og ekkert eftirlit haft með skuldunautum. Hvað seinna atriðið snertir, þá held ég, að erfitt reynist að dæma bankastjóra til refsingar fyrir að hafa ekki eftirlit með öllum viðskiptamönnum bankans. Mér er sem ég sjái hv. þm. Seyðf. hafa eftirlit með öllum viðskiptamönnum bankans á Seyðisfirði og geta ábyrgzt, að ekki fari þar eitthvað aflaga. Slíkt er fjarstæða. Hann, sem sjálfur er bankastjóri, ætti ekki að koma með slíkar fjarstæður. En um fölsun reikninganna er alls ekki að ræða. Þvert á móti er það tekið fram, að því er ég bezt man, í öllum þrem rannsóknarskýrslunum, að bókfærsla bankans hafi verið mjög góð. En það, sem hv. þm. kallar fölsun, er að mér skilst tvennt. Annað er það, að reiknað hefir verið með öðru gengi lán eitt en hann vill vera láta. En ég þekki vel sögu þessa láns frá upphafi, og þó að ég hafi ekki tíma til þess að fara út í það hér, þá get ég ábyrgzt, að því máli er þannig farið, að ekki er hægt að telja að bankastjórnin hafi aðhafzt þar neitt saknæmt.

Þá nefndi hann það sem aðra sönnun fyrir reikningsfölsun, að bankinn hefir talið meðal eigna ýmsar skuldir, sem í raun og veru hafi verið tapaðar. Ég býst við, að hv. þm. þætti það nokkuð nærgöngult, ef farið væri að höfða gegn honum sakamál vegna þess að hann gæti ekki vitað með vissu, hvaða skuldir mundu koma inn í hans banka og hverjar þeirra honum væri óhætt að telja í sínum reikningum. Ég held, að hv. þm. ætti að stinga hendinni í eiginn barm og gera ekki meiri kröfur en hægt er að uppfylla. Hluturinn er, að af þessum skjölum kemur ekkert það fram, sem sýni, að bankastj. hafi farið óheiðarlega að. Það hefir engum dottið í hug að álíta, að þeir hafi gert þar nokkuð í eigin hagsmunaskyni. Það er aðeins rétt um þessar lánveitingar, sem hafa gefið tap. Annars má nefna það, að mikið af þessu tapi eru vextir, sem hafa hlaðizt á skuldir, sem hafa staðið frá ári til árs. Ég slæ því þess vegna föstu, að ekkert í skjölunum bendi til þess, að bankastj. hafi dregið sér fé eða gert rangt vísvitandi, og held ég, að ekkert bendi til þess, að hægt sér að upplýsa slíkt. Og þegar hv. þm. Seyðf. nefndi, að launakrafa eins bankastjórans hefði ekki verið tekin til greina fyrir dómstólunum, þá er það engin sönnun fyrir því, að hann hafi aðhafzt nokkuð „kriminelt“. Og þegar hv. þm. nefndi dóminn yfir bankastjórum Landmandsbankans danska (Glückstadt o. fl.), þá er þar ósvipuðu saman að jafna. Það er kunnugt um danska bankastjórann, að í hans banka var hin mesta óreiða og þar voru bein fjársvik, og þó er hann ekki dæmdur nema í tiltölulega væga fangelsisrefsingu. En þegar tekið er tillit til þess, að ekkert bendir til, að hér hafi verið viljandi rangindi höfð í frammi, og lokið lofsorði á bókfærslu bankans, þá er hér einungis um eftirlitsleysi að ræða; eða að bankinn hefði átt að sjá, að sumar lánveitingar, sem hann framkvæmdi, voru óforsvaranlegar. Ef ég væri spurður um mína meiningu um það, hvað ég héldi, hvort þeir yrðu dæmdir fyrir þetta, þá verð ég að segja, að það væri ólíklegt. En ég skal viðurkenna, að mín meining í þessu efni er ekki beinlínis afgerandi, þótt ég álíti hana meira virði en hv. þm. Seyðf., sem mér þó fannst á þann veg, að hann álíti litlar líkur til, að bankastjórarnir yrðu dæmdir. En nú vil ég spyrja hv. þm. Seyðf., hvort hann hafi athugað vel þá löggjöf, sem gildir um þetta, því að það er betra að athuga dálítið löggjöfina, sem um sakamál gildir, því að þau eru enginn leikur. Í stjórnmálunum er það svívirðilegasta vopnið, sem til er, og hv. þm. Seyðf. vex ekki af því, ef hann vill reyna að nota þetta vopn, sem lítið hefir verið haft um hönd í þeim tilgangi hér á landi af öðrum en fyrirrennara mínum. Ég endurtek, að ekkert bendir til, að hér sé um annað að ræða en í hæsta lagi gáleysi eða eftirlitsleysi, og er ekki hægt að álíta, að bankastj. mundi hafa verið dæmd fyrir það. En hvað segir löggjöfin um þetta? Ég ætla að athuga það lítilsháttar. Það er nú svo um þessa bankastjóra, að e. t. v. er álitamál, hvort þeir voru embættis- eða sýslunarmenn ríkisins eða ekki. Þeir voru stjórnendur banka, sem var hlutafélag einstakra manna, en 2 af þeim skipaðir af stj. Nú skal ég ekki leggja neinn dóm á það, hvort þeir voru embættismenn, en ég ætla að ganga út frá því, að þeir hafi verið það, og ætla því að athuga, hvaða refsiákvæði það eru, sem eiga við opinbera sýslunarmenn, sem hafa gert sig seka í gáleysi eða embættisvanrækslu. Ákvæði um þetta eru í 144. gr. hinna alm. hegningarlaga. Þar segir, að „fyrir vanrækslu og hirðuleysi í embættisrekstri, sem ekki er lögð nein sérstök hegning við í lögum, skal sömuleiðis refsað, ef nokkrum verður það oft á eða ef hann sýnir af sér stórkostlega vanrækslu eða hirðuleysi, með sektum eða einföldu fangelsi, eða embættismissi, ef miklar sakir eru“. Ég þarf ekki að lesa 145. gr. Hún er um svipaða refsingu fyrir sýslunarmenn, en ég geng út frá því, að þessir bankastjórar hafi verið annaðhvort embættis- eða sýslunarmenn. Hér er refsingin sektir, einfalt fangelsi eða embættismissir. En ef þeir nú eru sýslunarmenn, þá er búið að framkvæma á þeim, án dóms og laga, þá refsinguna, sem hörðust er eftir þessum ákvæðum hegningarlaganna, sem er embættis- eða starfsmissir.

Nú er það regla í okkar refsilöggjöf eftir hegningarlögunum frá 25. júní 1869, að engan megi dæma í tvennskonar refsingu samtímis. Setjum svo, að það bæri að telja bankastjórana embættis- og sýslunarmenn. Þau refsiákvæði, sem hér ættu þá við samkv. 144. og 145. gr. hegningarl., eru sektir, einfalt fangelsi eða embættismissir, ef miklar eru sakir. Nú voru bankastjórarnir sviptir embætti án dóms og laga. Og er það sú fyllsta refsing, sem hægt er að beita við embættis- og sýslunarmenn, eftir því sem málavextir voru í þessu tilfelli. Svo að um frekari refsingu gat ekki verið að ræða, þó að dómur hefði verið látinn ganga yfir bankastjórana í þessu máli.

En nú skulum við segja, að bankastjórarnir hafi ekki verið embættis- eða sýslunarmenn. Hvað kemur þá upp á teningnum? Þá kemur það upp úr kafinu, að drátturinn á þessu máli var orðinn óhæfilega mikill. Bankanum var lokað 2. febr. 1930, og þegar ég tók við þessu embætti í júní 1932, þá var málið ekki komið lengra en það, að búið var að fyrirskipa rannsókn og sakamálshöfðun. En ef athuguð eru fyrningarákvæði hegningarlaganna, samkvæmt 67. gr. 1., þá stendur þar, að ef sakamál er höfðað og það sannast, að liðin eru 2 ár frá því að afbrotið var framið og þangað til mál var höfðað út af því við dómstólana, — skal falla niður refsing sú, sem til er unnið, ef hún ekki hefði orðið þyngri en sektir, einfalt fangelsi eða hýðing með vendi, sem vitanlega á aðeins við um unglinga. — Sökin var því fyrnd, hvernig sem á málið er litið að öðru leyti, eins og allir geta sannfærzt um, því að það voru liðin meira en tvö ár frá því brotin voru framin og bankastjórunum var vikið frá og þangað til ég tók við dómsmrh.embættinu. Nú er það gefinn hlutur, að ef bankastjórarnir eru ekki taldir embættis- og sýslunarmenn, þá getur refsingin alls ekki verið hærri fyrir það, nema síður sé, samkv. því, er ég tilgreindi úr 67. gr. hegningarl. Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá voru liðin meira en 2 ár frá því að brotin gátu verið framin og þangað til ég tók við ráðh.embættinu, og þar af leiðir, að ég gat ekki höfðað mál á hendur bankastjórunum, svo framarlega sem þeir væru ekki taldir embættis- eða sýslunarmenn. En svo ég viki að því aftur, þá hefi ég ekki slegið neinu föstu um það, hvort tveir af bankastjórunum yrðu taldir embættismenn. Hitt er aftur á móti vitað, að ákvæði 67. gr. gilda efalaust um einn bankastj., Eggert Claessen. Hann gat ekki orðið talinn embættis- eða sýslunarmaður, og hlaut því undir öllum kringumstæðum að sleppa við málshöfðun. Hluthafar bankans völdu hann í þessa stöðu, en hið opinbera hafði engin afskipti af þeirri skipun. Og laun sín tók hann í bankanum eins og hinir bankastjórarnir.

Ef hv. þm. Seyðf. vill bera fram ásakanir fyrir, að þessi mál voru eigi höfðuð gegn bankastjórunum í tæka tíð, þá verður hann að athuga það, að hann á að snúa geiri sínum í aðra átt. Það þýðir ekkert að úthúða mér. Hann á að snúa sér að vini sínum og flokksbróður, hv. 2. þm. Reykv., fyrir að hraða ekki ákærunni á hendur bankastj. meira en gert var, og öðrum vini sínum og samherja, hv. 5. landsk., fyrrv. dómsmrh., sem lá svo lengi á málinu. Ég get hugsað, að hv. þm. hefði farið hægra, ef hann hefði vitað þetta. En hann verður að snúa sér til réttra aðilja.

Hv. þm. Seyðf. þykir það náttúrlega allt of lítið, að einni bankarannsóknarn. voru greiddar 7750 kr. og 2 öðrum nefndum, sem skipaðar voru til rannsóknar á bankanum, talsvert fé, og hefir það sjálfsagt numið samtals allt að 15 þús. kr. Þessu fé var fleygt út fyrir ekki neitt, eins og tíðkaðist á fleiri sviðum hjá fyrrv. stjórn. Þennan kostnað vildi hann náttúrlega margfalda, með meiningarlausum málaferlum á hendur bankastjórunum. — Ég get svo látið útrætt um Íslandsbankamálið, en ég hefi orðið svo langorður um það af því að hv. þm. Seyðf. sagði mér í dag, að það yrði aðalatriðið í ræðu hans. Auðvitað geri ég ráð fyrir, að hann eigi eftir að koma með ýmislegt fleira í þessu máli, þegar hann tekur næst til máls, en ég fæ þá líka tækifæri til að svara því aftur.

Hv. þm. Seyðf. beindi ýmsum öðrum ásökunarefnum til stj. Mörgu af því hefir hæstv. forsrh. svarað. Ég sleppi því að minnast á varalögregluna, en læt það nægja, sem hæstv. forsrh. sagði um það mál.

En ég vil vekja athygli á því, að þrátt fyrir þá geysilegu kreppu, sem nú er hér á landi, þá heldur hv. þm. Seyðf. því fram, að stj. geti fengið nóga peninga í ríkissjóð, ef hún vilji snúa sér að því að innheimta þá hjá þeim skattborgurum, sem hafa ráð á þeim. Ég held, að þetta sé ekki eins einfalt mál og hv. þm. gerir ráð fyrir. Sú aðferð, að afla ríkissjóði tekna að mestu leyti með tekju- og eignarskatti, er ekki sérstaklega glæsileg í því árferði, sem nú er. Ég býst við, að það muni reynast létt á metunum fyrir ríkissjóð, þó að tekjuskatturinn yrði hækkaður, þegar útkoman er eins og síðastl. ár, að enginn atvinnurekstur í landinu gefur snefil af tekjum umfram tilkostnað.

Þá verð ég að fara nokkrum orðum um landhelgisgæzluna, af því að hv. þm. Seyðf. var svo langorður um hana. Ég skal fúslega viðurkenna, að það er mjög mikilsvert að verja landhelgina svo sem kostur er á. En ég vil aðeins benda á eitt í því sambandi og undirstrika það, að nú í kreppunni er alveg óhjákvæmilegt að draga úr nauðsynlegustu útgjöldum ríkissjóðs. Mér skildist, að hv. þm. teldi það illa farið, að dregið hefir verið úr landhelgiskostnaðinum á árinu 1932 sem svarar hér um bil 1/4 millj. kr., í samanburði við það, sem eytt var 1931. Ég skal að vísu viðurkenna, að það hefði verið skemmtilegra að hafa nóg fé til þess að halda uppi landhelgisgæzlu á sama hátt og 1931. En ríkissjóður hefir ekki það fé. Og það hljóta allir að sjá, að í hinni mögnuðu kreppu, sem komið hefir yfir landið, þá er ekki hægt að haga sér eins og þegar engin kreppa er. En svo er líka hægt að gæta sparnaðar í rekstri varðskipanna á annan hátt en þann, að halda þeim ekki úti við gæzlu. Það er alveg hægt að komast hjá því að láta þau gegna ýmiskonar snatti, sem er óviðkomandi landhelgisgæzlu. En fyrrv. stj. var, eins og kunnugt er, ákaflega bruðlunarsöm í því efni. Og nægir því til sönnunar að minna á einn mánaðartúr, sem eitt varðskipið var látið fara umhverfis landið vorið 1930 í kosningaleiðangur með hv. þm. Seyðf. og hv. 5. landsk., þáv. dómsmrh. Það ár var rekstrarkostnaður varðskipanna um 700 þús. kr. Hv. þm. hefir því, í þessu mánaðarorlofi á varðskipinu, átt sinn þátt í því að éta út þessa upphæð. — Það hefir greinilega komið í ljós, að eftir því sem varðskipunum fjölgar, þá fækkar þeim togurum, sem teknir eru í landhelgi, og þetta er ákaflega eðlilegur hlutur. Því fleiri sem varðskipin eru, því hræddari verða togararnir og varari um sig. Þetta viðurkenna allir. — Það er svo langt frá því, að ég vilji halda því fram, að það eigi að draga úr landhelgisgæzlunni, en það verður ekki hjá því komizt um stundarsakir, af því að ríkissjóður hefir ekki efni á því að halda öllum varðskipunum úti með fullum krafti.

Hv. þm. Seyðf. talaði um, að það hefðu komið fram kvartanir úr ýmsum landshlutum um lélega landhelgisgæzlu síðast1. ár, og í því sambandi gat hann um eina sögu frá Austfjörðum, um að togari hefði sézt að veiðum í landhelgi. En um leið lét hann þess getið, að þetta væri lygasaga! Ég veit ekki, hvers vegna hann er þá að koma með hana hér. Þá gat hann einnig um aðra sögu frá Vestfjörðum, er átti að sanna hinar almennu umkvartanir um slælega landhelgisgæzlu. En þá sögu hefir hæstv. forsrh. algerlega hrakið í ræðu sinni. Það vill þá svo vel til um báðar þessar sögur hv. þm., að um aðra þeirra fullyrðir hann sjálfur, að hún sé lygasaga, en hina hefir hæstv. forsrh. hrakið samkv. upplýsingum úr sínu eigin kjördæmi.

Þó að öll varðskipin séu látin vera úti, þá geta samt komið fram kvartanir um slælegt eftirlit varðskipanna og ágengni togara. En ég fullyrði, að ráðuneytið hefir gert allt, sem unnt hefir verið, til þess að halda uppi fullkominni landhelgisgæzlu, með þeim skipum, sem stjórnin taldi sig hafa ráð á að halda úti á hverjum tíma.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að nú væri mokfiskafli við Öndverðanes. Ég segi: hamingjunni sé lof fyrir það! En mér finnst hv. þm. ekki ánægður þrátt fyrir þetta; það var enga gleði á honum að finna. Hv. þm. spurði um það, hvort ekki hefði komið fram kæra til stj. út af því, að Ægir hefði orðið var við togara með ólöglegum veiðarfæraumbúnaði við Öndverðanes 2. marz síðastl. Ég get svarað því, að stj. hefir enga kæru fengið frá þeim tíma. Hér við Faxaflóa mun vera mest þörf á stöðugri gæzlu um vetrarvertíðina. Og það er álit þeirra, sem hafa gæzluna á hendi, að talsverð hætta sé á landhelgisbrotum hér í flóanum um vertíðina, þess vegna hefir alltaf verið haft þar eitt gæzluskip í vetur og stundum tvö.

Hv. þm. taldi það hið mesta óráð að láta Ægi og Óðin skiptast á um gæzlu landhelginnar, af því að þá væru miklu fleiri menn á föstum launum, og mun hann þar hafa átt við yfirmenn skipanna. En þetta er að sumu leyti misskilningur. Með því að láta varðskipin skiptast á um gæzluna, þá er a. m. k. eitt skip stöðugt úti. En ef aðeins væri eitt skip í gangi, þá mundu verða hlé á gæzlunni, meðan skipið lægi í höfn við hreinsun á kötlum o. fl. Skipin þurfa því að vera tvö til þess að aldrei verði hvíldir á eftirlitinu.

Að því er snertir greiðslu á launum til yfirmanna skipanna, þá er því til að svara, að þeir hafa alltaf nægilegt að gera við skipin. Það þarf að gæta þeirra, halda þeim við og hreinsa þau, og að öðrum kosti yrði að ráða aðra menn til þess. Annars ætti hv. þm. að vera það kunnugt, að yfirmennirnir á varðskipunum eru flestir fastir embættismenn, er hafa laun samkv. lögum, þannig að ekki er hægt að segja þeim upp eða losast við þá fyrirvaralaust.

Þá sagði hv. þm., að nú væru 4 skipherrar á föstum launum, og var helzt á honum að heyra, að ég hefði ráðið þá alla. En ég held, að hann ætti að snúa sér að fyrirrennara mínum með aðfinnslur sínar út af því; það er hann, sem á að svara til þess, en ekki ég. Ég hefi ekki skipað neinn af þessum skipherrum. Ennfremur má geta þess, að einn af þessum skipherrum var ráðinn af öðrum en mér, til þess að gegna sérstökum störfum fyrir full laun. Þetta var gert áður en ég kom í stjórnina, og ég tek ekki þá synd á mitt bak. En nú hefi ég látið hann taka við skipstjórn á Ægi, í stað Einars Einarssonar, á meðan rannsókn fer fram í máli hans. Fyrir það þarf ríkissjóður ekkert að borga, vegna þess að núv. skipherra var á launum hvort sem var. En úr því að hv. þm. Seyðf. fann ekkert að þeirri stjórnarráðstöfun, að sú rannsókn var fyrirskipuð, þá fer ég ekkert út í það mál hér, en tek aðeins undir þá ósk hv. þm., að E. E. fari eins vel og unnt er út úr þeirri rannsókn. Það er langt frá því, að ég vænti slæmrar niðurstöðu í því máli fyrir hann; þvert á móti, ég vona, að niðurstaðan verði góð.

Hv. þm. minntist eitthvað á drykkjuskaparóreglu héraðslæknanna á Siglufirði og Norðfirði og taldi, að umkvartanir út af framferði þeirra hefðu ekki verið teknar til greina. Ég vil benda hv. þm. á, að skjöl þessara mála eru nú hjá landlækni til álits og umsagnar, og skora ég á hv. þm. að leita frétta um þau hjá honum. Vænti ég, að hann fái þar glöggar upplýsingar.

Þá talaði hv. þm. í háði um góðsemi mína og mannúð og reiknaði mér til syndar ýmsar náðanir gagnvart sakfelldum mönnum, enda fór þá að slá út í fyrir honum öðru hverju. Hv. þm. sagði, að þessi mannúð mín kæmi misjafnlega fram; ég hefði höfðað sakamál fyrir óspektir hér í hænum 7. júlí og 9. nóv. síðastl. gegn ýmsum borgurum, sem ekkert hefðu til saka unnið. Þetta segir hv. þm. alveg út í veður og vind. Ég skal geta þess, að ég hefi ekki höfðað sakamál á hendur neinum manni út af óeirðunum 9. nóv. síðastl. hér í bænum. Og allt það, sem hv. þm. las upp úr prófskjölum og yfirheyrslum í þessum óspektamálum hér í bænum, var úr lagi fært og slitið úr samböndum; enda kemur það mér ekkert við.

Þá skal ég fara fáeinum orðum um mannúðarmálin, sem hv. þm. Seyðf. nefndi svo. Því miður á ég ekki allan heiðurinn af því að hafa náðað Þórð Flygenring. Það lágu fyrir mér boð í stjórnarráðinu, þegar ég kom í stjórnina, um að fyrrv. stj. hefði verið búin að lofa Þ. Fl. náðun eftir ákveðinn tíma. Og ef hv. þm. Seyðf. vill rengja þetta eða véfengja, þá má hann gjarnan spyrja hv. 2. þm. Rang. eftir því. Sá hv. þm. hefir sagt mér, að hann væri reiðubúinn til að staðfesta það, að þessi umsögn mín væri rétt.

Út af náðun Ísleifs Briems skal ég aðeins láta þess getið, að ég tel, að hann hafi fengið nægilega hegningu fyrir sitt brot. Hann greiddi sektina að fullu. En um fangelsisvist hans getur verið, að hv. þm. Seyðf. hafi aðra meiningu en ég. Það var ég, en ekki hv. þm., sem átti að ráða þessu, og við það verður að sitja. Hv. þm. sagði, að Í. Br. hefði verið dæmdur fyrir skjalafölsun, en eiginleg eða regluleg skjalafölsun var það ekki.

Um mál Björns Björnssonar bakara hirði ég ekki að ræða mikið. Hv. þm. sagði, að hann hefði fengið að greiða sekt sína með ávísun á útistandandi skuldir. En það er tilhæfulaust. Hann var dæmdur í 24 þús. kr. sekt og tveggja mánaða fangelsisvist. Hann mun verða náðaður að því er fangavistina snertir, gegn því að hann greiði sektina að fullu, ekki með útistandandi skuldum, heldur í peningum.

Ég held að ég þurfi svo ekki að fara fleiri orðum um það, sem hv. þm. Seyðf. beindi til mín í ræðu sinni, enda býst ég við, að þetta verði síðasta ræðan í kvöld, því að klukkan er að verða 12.

En einu atriði hefi ég gleymt. Hv. þm. var eitthvað að tala um 8000 kr. upphæð, sem ég hefði greitt til Guðm. Sveinbjörnssonar skrifstofustjóra fyrir eftirlit með varðskipunum. Þetta hefir áður komið fram í blaði hér í bænum, og virðist hv. þm. hafa gripið það á lofti. En þetta eru ósannindi, og vildi ég óska, að hv. þm. kynnti sér málið betur. Ég greiddi G. Sv. 4000 kr. fyrir árið 1932, og annað ekki. En þá upphæð hefir hann fengið undanfarið árlega, og munu fyrirrennarar mínir í stj. hafa ávísað honum þeim greiðslum árlega. Annars geri ég ráð fyrir, að ég fái tækifæri til að upplýsa þetta nánar í sambandi við annað mál síðar á þinginu. En mér þykir vænt um að fá tilefni til að lýsa þessu yfir í útvarpinn, svo að það heyrist um allt land, að það, sem blaðið Tíminn hefir sagt um þetta, eru rakalaus ósannindi. Ég hefi engar 8000 kr. greitt G. Sv. fyrir eftirlit með varðskipunum, heldur aðeins 4000 kr. fyrir árið 1932. Og fyrrv. stj. hefir greitt honum 4000 kr. árl. 1928, 1929, 1930 og 1931 í sama skyni. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir, að hann minntist á þetta atriði, og mér þykir vænt um, að þessi leiðrétting berst nú út um allt land í útvarpinu. Læt ég svo staðar numið. Þakka þeim, sem á hafa hlýtt, og býð góða nótt.