19.04.1933
Efri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

156. mál, innflutningur nauta af bresku holdakyni

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. er fyrr tekið á dagskrá heldur en ég hafði búizt við, og ég verð að láta þess getið, að landbn., sem flytur frv., en ætlaði þó að yfirvega það milli 1. og 2. umr., hefir ekki tekið frv. til meðferðar. Mér finnst samt, þó að svo sé, þetta mál vera svo einfalt, að ekki sé beinlínis ástæða til að taka það út af dagskrá fyrir því. Það sem í frv. felst, er einungis það, að gefa ríkisstj. heimild til þess að flytja inn, ef henni sýnist svo, nautgripi af brezku holdakyni til hreinræktar eða blendingsræktar. Þetta er vitanlega ætlað til umbóta á slátrun nautpenings. Að öðru leyti er í 2. gr. gert ráð fyrir, að ef ríkisstj. vilji nota þessa heimild, þá eigi hún að hafa Búnaðarfélag Íslands í ráðum með sér og flytji inn þau ein kyn, sem Búnaðarfélagið mælir með. Í 3. gr. er gert ráð fyrir varúðarráðstöfunum gegn sótthættu af innflutningnum, að hér verði, eftir því sem við á, hagað sér eins og gert er ráð fyrir í l. nr. 27 8. sept. 1931, sem eru um innflutning á sauðfé. Ég hygg, að hv. dm. geti vel áttað sig á frv., þó að ég geti ekki gefið þeim bendingar frá n.; en ég mun, ef frv. verður samþ., sjá til þess, að landbn. yfirvegi málið fyrir 3. umr. og beri fram brtt., ef henni sýnist þess þörf.