26.04.1933
Neðri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

128. mál, eignarnámsheimild á landi við Skerjafjörð

Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort leitað hefir verið umsagnar Seltjarnarneshrepps og sýslunefndar viðkomandi sýslu um þetta landnám, sem þarna á að fara fram. Það hefir legið fyrir undanförnum þingum dálítið svipað málefni, sem valdið hefir miklum ágreiningi. Þetta mál er náttúrlega ekki eins þýðingarmikið, en þó af sama toga spunnið. Ég vildi gjarnan fá að vita, hvort fullnægt hefir verið þeirri skyldu að leita umsagnar hlutaðeigandi hreppsnefndar og sýslunefndar. Annars get ég upplýst, að ég hygg, að þetta frv. sé að því leyti óþarft, að það liggur önnur greiðari leið fyrir Reykvíkinga að fá þennan baðstað, því landeigendurnir hafa boðið að afhenda bænum þetta land endurgjaldslaust, einungis gegn því, að Reykjavík leggi veg um landið.