09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Frsm. (Hannes Jónsson):

Hv. þm. G.-K. var talsvert mildari í síðustu ræðu sinni en áður. Út af frásögn hans um það, að ég hafi gefið rangar upplýsingar, má minna á, að ég talaði ekki við afgreiðslu fyrra málsins. En ég hefi talað um þetta áður, og hv. þdm. geta lesið ræðu mína og athugað, hvort ég hafi þar skýrt rangt frá. Brtt. eru alveg þær sömu og lágu fyrir eftir 2. umr.

Það er eins og það hefði átt að detta yfir mig allt í einu, að afgreiðsla fyrra málsins hefði áhrif á afgreiðslu þess seinna. Það er eins og hv. þm. G.-K. hafi einkarétt á því að hafa réttan skilning á málunum, eins og allir taki það til láns hjá honum, ef þeir skilja eitthvað í málum, enda þótt hann botni kannske ekkert í þeim sjálfur. Ég mótmæli því, að ég hafi gefið nokkrar rangar upplýsingar. Ég skýrði frá málinu þannig, að honum átti að vera vandalaust að skilja það. Er það alveg ástæðulaust, þegar hv. þm. kennir mér um skyssur sínar, en þakkar mér aftur á móti, ef ég hefi rétt fyrir mér. Ég hefi áður tekið það fram, að mér finnst óviðfelldið, að hv. d. afgr. málið svo, að ekkert samræmi sé í. Ef frv. verður samþ. óbreytt, þá leiðir það til þess, sem allir dm. eru á móti, að útflutningsgjaldið af fiskmjöli fellur alveg niður. Þeir, sem eru á móti því, að útflutningsgjald af hráefnum hækki, geta samþ. fyrri liðinn að till. hæstv. ráðh., en fellt seinni liðinn. Þá eru menn lausir við agnúa þann, sem sagður er vera á till. n. Ásakanir á hendur n. hafa aðallega snúizt um það, að það er gert ráð fyrir útflutningsgjaldi af hausum og slíku. Þetta vil ég benda hv. þm. á, svo að ekki sé hægt að saka mig um að hafa ekki gefið vísbendingu um það, hvernig beri að greiða atkv. í málinu.